Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11475/2022)

Kvartað var yfir að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði ekki veitt aðgang að upptökum úr aðalmeðferð máls.  

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina þar sem starfssvið hans tekur ekki til starfa dómstóla.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. janúar sl. yfir því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki orðið við beiðni yðar um aðgang að upptökum úr aðalmeðferð máls sem var leitt til lykta með dómi 4. nóvember sl.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans að jafnaði til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds brestur lagaskilyrði til þess að fjallað verði um kvörtun yðar og lýk ég því athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er vakin á því að á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hefur dómstólasýslan sett reglur nr. 15/2018, um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa frá héraðsdómstólunum. Í 5. tölulið 8. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, er kveðið á um að hlutverk dómstólasýslunnar sé að stuðla að samræmingu og hafa eftirlit með framkvæmd reglna um búnað til upptöku á hljóði og mynd í þinghöldum, auk annars. Teljið þér ástæðu til getið þér freistað þess að leita til dómstólasýslunnar með athugasemdir yðar, en með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til að gera það.

Þess skal getið að tölvupóstar hafa borist frá yður 7., 20. og 21. janúar sl. sem ekki verður séð að tengist efni þeirrar kvörtunar sem fjallað er um í þessu bréfi. Ef ætlun yðar með umræddum tölvupóstum var senda umboðsmanni aðrar kvartanir er þess óskað að það verði sérstaklega tekið fram og þá að hvaða athöfnum eða athafnaleysi stjórnvalda þær beinast.