Fjármála- og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11474/2022)

Kvartað var yfir viðskiptum við Íslandsbanka hf.  

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina þar sem efni hennar féll utan starfssviðs hans. Var viðkomandi bent á að hugsanlega væri fært að bera ágreininginn undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. janúar sl. yfir viðskiptum yðar við Íslandsbanka hf.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Íslandsbanki hf. er hlutafélag og fjármálafyrirtæki sem telst einkaréttarlegur aðili. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunarefni yðar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar því lokið. Þess skal getið að yður kann að vera fært að bera ágreining yðar við bankann undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Með þeirri ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort ástæða sé fyrir yður til að leita til nefndarinnar.