Húsnæðismál.

(Mál nr. 11454/2021)

Kvartað var yfir því að Seltjarnarnesbær hefði ekki brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum í tengslum við félagslegt húsnæði sem viðkomandi leigði.  

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafði vísað málinu frá þar sem ekki lægi fyrir stjórnvaldsákvörðun og gerði umboðsmaður ekki athugasemd við þá niðurstöðu. Hann benti viðkomandi þó á að hann gæti freistað þess að bera ágreininginn undir kærunefnd húsamála.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til erinda yðar 17., 20., 28. og 30. desember sl. Af þeim verður ráðið að þér kvartið yfir því að Seltjarnarnesbær hafi ekki brugðist við með fullnægjandi hætti vegna athugasemda yðar um að þér getið ekki nýtt geymslu, sem fylgir íbúð sem sveitarfélagið hefur úthlutað yður, vegna ólyktar. Einnig verður ráðið af kvörtuninni að þér hafið farið fram á að sveitarfélagið endurgreiði yður húsaleigu, sem þér hafið greitt fyrir leigu á íbúðinni, þar sem þér hafið ekki getað nýtt geymsluna og framvegis verði leiga ekki innheimt vegna geymslunnar fyrr en úrbætur hafi átt sér stað.

Með kvörtun yðar fylgdi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 16. desember sl. í máli nr. 629/2021 þar sem máli yðar var vísað frá. Sú niðurstaða byggðist á þeim grundvelli að ekki væri uppfyllt það kæruskilyrði að fyrir hendi væri stjórnvaldsákvörðun, heldur lyti málið að ákvörðunum um framkvæmd húsaleigusamnings sem væri í gildi milli yðar og sveitarfélagsins.

  

II

Um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga gilda ákvæði XII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. málslið 1. mgr. 6. gr. þeirra laga kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun í þessum skilningi er litið til þess hvers eðlis hún er og þar með þeir hagsmunir sem hún snertir. Þannig er ákvörðun stjórnvalds um hvort lögbundin þjónusta sé veitt almennt stjórnvaldsákvörðun. Hins vegar eru ákvarðanir sem lúta að útfærslu og framkvæmd þjónustunnar eða eru einkaréttarlegs eðlis það að jafnaði ekki.

Í samræmi við þessi sjónarmið hefur verið litið svo á að ákvörðun sveitarfélags um að úthluta félagslegu íbúðarhúsnæði teljist stjórnvaldsákvörðun. Eftir að sú ákvörðun hefur verið tekin er hins vegar gerður húsaleigusamningur, sbr. t.d. 10. og 16. gr. reglna um úthlutun félagslegra leiguíbúða Seltjarnarnesbæjar. Um réttindi og skyldur sveitarfélagsins, sem leigusala, og þess sem hefur fengið úthlutað félagslegu íbúðarhúsnæði, sem leigutaka, gilda því ákvæði umrædds samnings, ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 og almennar reglur fjármunaréttar ásamt reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.

Af fyrrgreindum erindum yðar og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki annað ráðið en að athugasemdir yðar lúti að ástandi umrædds íbúðarhúsnæðis, því að sveitarfélagið hafi sem leigusali ekki brugðist við kröfum yðar um úrbætur sem og ágreiningi um greiðslu húsaleigu í þeim efnum. Ákvarðanir um þessi atriði eru að jafnaði ekki stjórnvaldsákvarðanir, heldur fer um réttindi og skyldur aðila að þessu leyti eftir húsaleigulögum og þeim samningi sem þeir hafa gert sín á milli. Af þessum ástæðum tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að nefndin hafi vísað máli yðar frá.

Í tilefni af ágreiningi yðar við sveitarfélagið er yður þó bent á þér getið freistað þess að bera hann undir kærunefnd húsamála en hlutverk þeirrar nefndar er m.a. að fjalla um ágreining milli aðila leigusamnings um framkvæmd hans. Ef þér ákveðið að leita til nefndarinnar getið þér leitað til mín á ný að fengnum úrskurði hennar.

  

III

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.