Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11467/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.  

Ekki voru efni til að gera athugasemdir við ákvörðun sjóðsins en kvörtunin vakti hins vegar athygli umboðsmanns á samverkan umferðarlaga og laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, m.t.t. hugtaksins „hópbifreiðar“ og réttaráhrifa þess. Kvörtunin fæli í sér ábendingu um álitaefni, yrði skráð sem slík og metið hvort tilefni væri til að skoða það.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 30. desember sl. um álagningu stöðubrotagjalds fyrir brot gegn c-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Í ákvæðinu segir að bannað sé að stöðva eða leggja ökutæki, að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð, á merktu stæði fyrir leigubifreið, vörubifreið eða hópbifreið. Samkvæmt gögnum málsins er umrætt stæði merkt sem bifreiðastæði fyrir hópbifreiðar, en með „hópbifreið“ í skilningi umferðarlaga er átt við bifreið sem ætluð er til að flytja fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota, sbr. 23. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna. Fyrir liggur að umrætt ökutæki yðar er ekki hópbifreið í þessum skilningi, enda þótt hún kunni að falla undir ferðaþjónustuleyfi til farþegaflutninga, og eru því ekki efni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun sem kvörtun yðar beinist að.

Þess skal þó getið að kvörtun yðar hefur vakið athygli umboðsmanns á samverkan umferðarlaga og laga nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, m.t.t. hugtaksins „hópbifreiðar“ og réttaráhrifa þess. Af því tilefni er bent á að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis, en af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir að unnt sé að kvarta til umboðsmanns yfir því hvernig hefur tekist til með lagasetningu. Með 11. gr. laganna er umboðsmanni hins vegar veitt heimild til að tilkynna Alþingi um meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við framangreint er litið svo á að í kvörtun yðar felist ábending um álitaefni sem þér teljið tilefni fyrir umboðsmann til að taka til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir að umboðsmaður geti að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þegar umboðsmanni berast slíkar ábendingar er verklag hjá honum þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar að eigin frumkvæði. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.