Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11395/2021 & 11396/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á stjórnsýslukæru vegna sektarákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns upplýsti ráðuneytið að vegna mikilla anna hefði afgreiðsla erindisins tafist en málinu yrði lokið með úrskurði fyrir mánaðamót febrúar og mars nk. Ekki var því ástæða til að umboðsmaður aðhefðist frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvartana yðar 16. nóvember sl. yfir töfum á afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á stjórnsýslukæru yðar frá 16. júlí 2019 vegna sektarákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilefni af kvörtunum yðar var ráðuneytinu ritað bréf 20. desember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu kærunnar. Nú hefur borist svar frá ráðuneytinu 11. janúar sl. þar sem fram kemur að vegna mikilla anna hafi afgreiðsla málsins dregist úr hófi og málinu verði lokið með úrskurði fyrir mánaðamótin febrúar/mars nk.

Þar sem kvartanir yðar lúta að töfum á afgreiðslu máls yðar og nú liggja fyrir áform ráðuneytisins um að ljúka málinu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtunum yðar að svo stöddu. Þar hef ég einnig í huga að svör ráðuneytisins bera með sér að fallist sé á að óhóflegar tafir hafi orðið á meðferð málsins. Lýk ég því meðferð minni á kvörtunum yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér þá ástæðu til þess.