Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11411/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna aðalskipulagsbreytinga og mati á umhverfisáhrifum vegna vindlundar í Dalabyggð. 

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að stofnunin hafði afgreitt erindi Dalabyggðar og vísað því til ákvörðunar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.  

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 23. nóvember sl. fyrir hönd A ehf. yfir töfum á afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna aðalskipulagsbreytinga og mati á umhverfisáhrifum vegna vindlundar á landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð.

Í tilefni af kvörtun yðar var Skipulagsstofnun ritað bréf 11. janúar sl. og þess óskað að stofnunin upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Svör Skipulagsstofnunar bárust 21. janúar sl. þar sem stofnunin upplýsti að erindi Dalabyggðar hefði verið afgreitt 28. desember sl. til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með bréfinu hafi stað­festingu tveggja breytinga á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016, um iðnaðarsvæði fyrir vindorkuver að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum, verið vísað til ákvörðunar ráðherra samkvæmt 4. mgr. 32. gr. skipulags­laga nr. 123/2010.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu málsins af hálfu Skipulagsstofnunar og þar sem stofnunin hefur nú afgreitt málið til ráðuneytisins tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.