Landbúnaður. Málshraði.

(Mál nr. 319/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 5. maí 1992.

Lögmaðurinn B kvartaði yfir því f.h. A, að landbúnaðarráðherra hefði ekki svarað kæru A vegna úrskurðar Markanefndar. Kæran var borin fram 1. september 1988. Fékk hún ekki úrlausn af hálfu ráðuneytisins fyrr en 4. desember 1991. Umboðsmaður tók fram að alltof lengi hefði dregist að svara erindi lögmanns A eins og ráðuneytið raunar viðurkenndi. Vísaði umboðsmaður til álits síns frá 29. desember 1989, sbr. skýrslu hans fyrir árið 1989, bls. 83, þar sem fjallað væri um nauðsyn þess, að ráðuneyti svöruðu erindum, sem þeim berast. Þar sem ráðuneytið hefði ákveðið rækilegar úrbætur í þessum efnum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um málið.

I.

Með bréfi, sem barst mér 7. ágúst 1990, leitaði B, héraðsdómslögmaður, til mín vegna A, og bar fram kvörtun í tilefni af því, að landbúnaðarráðherra hefði ekki svarað kæru hans vegna úrskurðar Markanefndar, sem kveðinn var upp 16. ágúst 1988. Kæra þessi var borin fram við ráðherra sem æðra stjórnvald með bréfi, dags. 1. september 1988, og ítrekuð með bréfi, dags. 14. apríl 1989.

Ég ritaði landbúnaðarráðuneytinu bréf, dags. 28. ágúst 1990, og óskaði eftir því með tilvísun til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið upplýsti, hvort umræddum bréfum hefði verið svarað og ef svo væri ekki, hver væri ástæða þess.

Hinn 15. október 1990 barst mér svohljóðandi bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, dags. 10. október 1990:

„Ráðuneytið hefur móttekið bréf yðar dags. 28. ágúst s.l., varðandi bréf frá [B] lögmanni til ráðuneytisins. Beiðni yðar um upplýsingar og skýringar vegna málsins er í athugun í ráðuneytinu og mun svar berast yður um næstu mánaðamót.“

Eftir að hafa ítrekað ofangreind tilmæli mín til landbúnaðarráðuneytisins, síðast 19. mars 1991, ritaði ég landbúnaðarráðherra bréf, dags. 29. ágúst 1991. Þar rakti ég gang mála og tók að lokum fram:

„Í samræmi við það, sem rakið hefur verið hér að framan, eru það tilmæli mín, að ráðuneyti yðar svari þegar í stað erindi því, sem [B], héraðsdómslögmaður, beindi til landbúnaðarráðherra með bréfi, dags. 1. september 1988. Það er ósk mín að mér verði sent afrit af svarbréfi ráðuneytisins. Tekið skal fram að með bréfi þessu er í engu tekin afstaða til efnis bréfs [B], héraðsdómslögmanns, frá 1. september 1988, m.a. eigi til þess, hvort nokkur heimild sé til þess að lögum að skjóta úrskurði Markanefndar til landbúnaðarráðuneytisins.“

Í framhaldi af ítrekunarbréfi mínu 4. nóvember 1991 átti landbúnaðarráðherra tal við mig og kvaðst ætla að sjá til þess, að bréfinu yrði svarað. Það gekk eftir og barst mér síðan svofellt bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, dags. 4. desember 1991, en það hljóðar svo:

„Vísað er til bréfa yðar til ráðuneytisins varðandi kvörtun [A], í tilefni af úrskurði Markanefndar frá 16. ágúst 1988 vegna ágreinings um eignarrétt á fjármarkinu ALHEILT HÆGRA, STÝFT VINSTRA.

Ráðuneytið hefur í dag sent [B] svarbréf, þar sem honum er tjáð, að ráðuneytið telji kæru á úrskurði Markanefndar ekki réttilega beint til ráðuneytisins. Ljósrit af því bréfi fylgir þessu bréfi.

Mjög er miður að svar við erindi lögmannsins hefur dregist úr hömlu. Reglur sem ráðuneytið hefur nýlega sett um meðferð innkominna bréfa ættu að fyrirbyggja endurtekningu á slíku.“

II.

Með bréfi, dags. 8. janúar 1992, barst mér svofelld greinargerð frá landbúnaðarráðuneytinu:

„Ráðuneyti vísar til bréfs yðar, dags. 19. desember s.l., þar sem óskað er eftir upplýsingum um reglur ráðuneytisins um meðferð innkominna bréfa. Skal hér leitast við að gera grein fyrir ferli bréfa innan ráðuneytisins.

Öll bréf, þar með talin símbréf og skjöl sem ráðuneytinu berast, eru flokkuð stimpluð og færð inn í bréfadagbók (tölvu). Í stimpli er tilgreindur skráningardagur og málaflokkur. Frumrit bréfs er merkt sviði eða einstaklingi, eftir því sem við á, og sér forstöðumaður hlutaðeigandi sviðs um afgreiðslu bréfa, sem merkt eru sviðum. Frumrit eru síðan lögð í möppu til skoðunar hjá ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, sem gera athugasemd við merkingu bréfa ef þurfa þykir. Að skráningu lokinni er gengið frá frumritum í skjalasafni, en unnið með ljósrit. Forstöðumenn sviða deila út erindum til afgreiðslu meðal starfsmanna, hver innan síns sviðs.

Tölvuvæðing skjalavistunar býður upp á ýmsa kosti og eru þeir nýttir, eftir því sem forrit leyfa. Í mánaðarlok prentar skjalavörður út lista yfir innkomin og útfarin bréf mánaðarins, hvert svið fyrir sig. Listinn er lagður fyrir forstöðumenn sviða, og er þeim þannig ætlað að fá yfirsýn yfir afgreiðslu erinda. Ætlunin er að svarfrestur verði skráður um leið og bréf eru færð inn í skjalaskrá og verður þá hægt að prenta út yfirlit yfir þau bréf, sem ekki hefur náðst að svara innan tiltekins svarfrests.

Þegar erindi berast, sem sýnt þykir að ekki verði unnt að afgreiða efnislega innan 2ja-3ja vikna, verða bréfriturum send stutt bréf, þar sem fram kemur hjá hverjum megi leita upplýsinga um afgreiðslu.“

III. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 5. maí 1992, var svohljóðandi:

„Eins og viðurkennt er af landbúnaðarráðuneytinu, dróst alltof lengi að ráðuneytið svaraði erindi því, sem B héraðsdómslögmaður bar fram fyrir hönd A í bréfi 1. september 1988. Um nauðsyn þess að ráðuneyti svari erindum, sem þeim berast, vísa ég til þeirra sjónarmiða, er fram koma í áliti mínu frá 29. desember 1989 (sjá SUA 1989, bls. 83). Þar sem landbúnaðarráðuneytið hefur, eins og rakið er í II. kafla hér að framan, ákveðið rækilegar úrbætur í þeim efnum, sem hér hefur verið fjallað um, tel ég ekki ástæðu til að láta mál þetta frekar til mín taka.“