Menntamál. Sveitarfélög.

(Mál nr. 11350/2021)

Kvartað var yfir synjun Kópavogsbæjar um frístundastyrk vegna þátttöku dóttur í tilteknu frístundastarfi.  

Við mat á því hvort ástæða væri til að gera athugasemdir við þá afstöðu sveitarfélagsins að synja umsókninni varð að horfa til þess að ekki er kveðið á um styrkinn eða skilyrði hans í lögum, heldur reglum sem bæjarstjórn samþykkti á sínum fundi. Í samræmi við þær reglur sem gilda um sjálfstjórn sveitarfélaga og heimildir þeirra til að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna, eftir því sem fært þykir á hverjum tíma, hefur sveitarfélagið því nokkuð svigrúm til að ákveða hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að eiga rétt á frístundastyrk. Í ljósi þeirra upplýsinga sem sveitarfélagið veitti umboðsmanni um framkvæmd reglnanna, og að teknu tilliti til þess svigrúms sem það hefur við rækslu þessa verkefnis, taldi hann ekki efni til að gera athugasemdir við synjunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. október sl. yfir ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja yður um frístundastyrk vegna þátttöku dóttur yðar í frístundastarfi á vegum X ehf. í 16 vikur frá júní til september á síðastliðnu ári.

Í tilefni af kvörtun yðar var sveitarfélaginu ritað bréf 10. nóvember sl. þar sem óskað var eftir að það afhenti afrit af gögnum málsins og upplýsti um meðferð þess. Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust 18. þess mánaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var umsókn yðar synjað á þeim grunni að ekki væri uppfyllt skilyrði b-liðar 4. gr. reglna Kópavogsbæjar um frístundastyrki, en í greininni er fjallað um skilyrði sem skipulagt frístundastarf þarf að uppfylla til að teljast styrkhæft. Í stafliðnum segir að skipulagt frístundastarf þurfi að ná yfir 10 vikur samfellt hið minnsta. Ekki séu veittir styrkir vegna hefðbundinna sumarnámskeiða eða annarra námskeiða sem eru styttri en 10 vikur samfellt.

Í fyrrgreindu bréfi sveitarfélagsins var staðhæft að með frístundastyrk þess væri hvatt til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi. Með því væri átt við að ákveðin samfella væri í starfinu. Samkvæmt reglum sveitarfélagsins fælist í því að tekið væri þátt í skipulögðu frístundastarfi a.m.k. einu sinni í viku samfellt í 10 vikur. Fyrirkomulag starfsins og lengd þess væri ákveðin fyrir fram sem ein heild og greitt fyrir námskeið í samræmi við það. Áréttað var að sumarnámskeið og önnur námskeið sem væru styttri en 10 vikur samfellt uppfylltu þar af leiðandi ekki skilyrði reglnanna frekar en stakur tími í einkakennslu í golfi. Það lægi því í hlutarins eðli að ungmenni sem færu til að mynda samfleytt í staka tíma í golfkennslu yfir langt tímabil gætu ekki safnað tímum sínum saman og fengið frístundastyrk hjá sveitarfélaginu. Í tilviki dóttur yðar hefði hún farið í marga tíma samfleytt hjá X ehf. sem að lokum spönnuðu 16 vikna tímabil. Ekki hefðu verið veittar undanþágur frá framangreindu skilyrði.

Við mat á því hvort ástæða sé til að gera athugasemdir við þá afstöðu sveitarfélagsins að synja umsókn yðar um frístundastyrk verður að horfa til þess að ekki er kveðið á um styrkinn eða skilyrði hans í lögum, heldur reglum sem bæjarstjórn samþykkti á sínum fundi. Í samræmi við þær reglur sem gilda um sjálfstjórn sveitarfélaga og heimildir þeirra til að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma, sbr. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, hefur sveitarfélagið því nokkuð svigrúm til að ákveða hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að eiga rétt á frístundastyrk. Ákvarðanir sveitarfélagsins um þær umsóknir sem því berast þurfa þó eftir sem áður að samræmast þeim reglum sem það hefur sjálft sett sem og skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins eins og við á.

Af gögnum málsins er ljóst að það er afstaða Kópavogsbæjar að umsókn yðar hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun á frístundastyrk samkvæmt reglum sveitarfélagsins um það efni og var yður gerð grein fyrir ástæðum þeirrar afstöðu. Í ljósi þeirra upplýsinga sem sveitarfélagið hefur veitt um framkvæmd b-liðar 4. gr. fyrrgreindra reglna, sem samræmast orðalagi ákvæðisins, og að teknu tilliti til þess svigrúms sem sveitarfélagið hefur við rækslu þessa verkefnis tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við að sveitarfélagið hafi synjað umsókn yðar eins og málið liggur fyrir.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég máli yðar lokið af minni hálfu.