Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11514/2022)

Kvartað var yfir starfsemi Íslandspósts ohf.  

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina þar sem efni hennar féll utan starfssviðs hans. Var viðkomandi bent á að beina kvörtuninni til Byggðastofnunar og í kjölfarið mætti, eftir atvikum, freista þess að bera það undir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. þessa mánaðar yfir viðskiptum yðar við Íslandspóst ohf.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er að Íslandspóstur ohf. er opinbert hlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Þau atriði sem kvörtun yðar beinist að fela ekki í sér beitingu opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartöku á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Í 32. gr. laga nr. 98/2019, um póstþjónustu, er m.a. kveðið á um að telji neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum geti hlutaðeigandi beint kvörtun til Byggðastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Byggðastofnun skuli leita álits viðkomandi póstrekanda á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan hátt. Náist ekki samkomulag skuli úr ágreiningi skorið með ákvörðun. Ákvarðanir Byggðastofnunar um póstþjónustu sem teknar eru samkvæmt lögunum sæta kæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 42. gr. laganna. Teljið þér ástæðu til getið þér freistað þess að setja mál yðar í framangreindan farveg og, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, getið þér leitað til umboðsmanns að nýju teljið þér þá tilefni til þess.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni á máli þessu.