Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11457/2021)

Kvartað var yfir uppsögn við framhaldsskóla.  

Þar sem kvörtunin varðaði réttarágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr kom hún ekki til kasta umboðsmanns.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. desember sl. yfir ákvörðun skólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla um að segja yður upp störfum, auk þess sem þér vekið athygli á kröfu yðar um vangreidd laun. Af gögnum málsins, þ.á m. bréfaskiptum yðar og Kennarasambands Íslands fyrir hönd yðar við skólameistarann, verður ráðið að ágreiningur sé um stöðu yðar við skólann. Byggist ágreiningurinn einkum á ólíkum skilningi yðar og skólameistarans á samskiptum yðar á árinu 2020 og fyrr, annars vegar, og ákvæðum samnings skólans vegna launa við kennslu í fjarnámi hins vegar.

Í 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um að forstöðumaður stofnunar hafi rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi yðar er ljóst að báðir aðilar hans hafa heimild til að segja honum upp, að gættum ákvæðum fyrrnefndra laga, samningsins og kjarasamnings.

Sem fyrr greinir bera gögn málsins með sér að afstaða yðar og skólameistara fjölbrautaskólans um samskipti yðar sé ósamrýmanleg. Þannig hefur hann vísað til þess að samkvæmt samskiptunum, bæði með tölvubréfum og munnlegum, sem og háttsemi yðar í verki fari ekki milli mála að þér hafið sjálf sagt upp störfum við skólann. Þessum skilningi á samskiptum yðar hafið þér andmælt og m.a. vísað til þess að yður hafi ekki verið kunnugt um að skólameistari liti svo á að þér hefðuð sagt upp störfum fyrr en þriðji aðili upplýsti yður um það. Svo sem framangreint ber með sér er grundvallarágreiningur milli yðar og skólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla um atvik málsins og túlkun á tilgreindum samningi vegna launa við kennslu í fjarnámi, en um afstöðu sína til samningsins hefur skólameistari m.a. vísað til samtala við þá sem komu að gerð samningsins og þess hvernig hann hefur verið framkvæmdur, sbr. bréf 12. mars sl.

Í tilefni af þessari stöðu skal þess getið að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu milli hans og dómstóla, sbr. m.a. c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna. Þar segir að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Af hálfu umboðsmanns hefur verið litið svo á að þetta ákvæði eigi við þegar um er að ræða réttarágreining sem krefst sönnunarfærslu, svo sem þegar atvik máls eru umdeild eða deilt er um túlkun samningsákvæða. Við úrlausn slíkra mála getur enda verið nauðsynlegt að afla sönnunargagna, svo sem aðila- og vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna.

Að þessu virtu og með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að kvörtun yðar varði réttarágreining sem eðlilegt sé að dómstólar leysi úr og lýk ég því athugun minni á henni, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hverjar kunni að verða lyktir málsins ef þér kjósið að leggja það í þann farveg.