Börn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11513/2022)

Kvartað var yfir úrskurði sýslumannsins á Norðurlandi vestra um greiðslu tvöfalds meðlags.

Þar sem ekki varð ráðið að úrskurðurinn hefði verið kærður til ráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. janúar sl. yfir úrskurði sýslumannsins á Norðurlandi vestra 21. desember sl. í máli nr. 2021-019828. Með úrskurðinum var yður gert að greiða tvöfalt lágmarksmeðlag með barni yðar frá 1. október sl. til 18 ára aldurs barnsins.

Um framfærslu barna er fjallað í IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 65. gr. laganna getur sýslumaður breytt meðlagsúrskurði stjórnvalds og ákvörðun um meðlag, sem tekin hefur verið með dómi, ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst. Í 78. gr. laganna kemur fram að aðilum máls sé heimilt að kæra úrskurð sýslumanns til ráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið ekki leitað til ráðherra. Ástæða þess að þetta er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinni í því.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Fari svo að þér berið málið undir ráðherra og teljið yður enn beittan rangsleitni að lokinni málsmeðferð hans getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.