Lífeyrismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11480/2022)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og óskað eftir að umboðsmaður svaraði því hvort virða ætti tilteknar greiðslur frá lífeyrissjóðum sem launatekjur eða lífeyrisgreiðslur.  

Þar sem hvorki lá fyrir formleg afstaða Tryggingastofnunar til ágreiningsefnisins né úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. janúar sl. sem beinist að Tryggingastofnun. Af kvörtuninni verður ráðið að óskað sé eftir því að umboðsmaður Alþingis svari því hvort greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda til yðar beri að virða sem launatekjur eða lífeyrisgreiðslur, en Tryggingastofnun sé þeirrar afstöðu að um sé að ræða greiðslur síðastnefndrar tegundar. Vísið þér einnig til þess hvort og þá hvaða þýðingu tilgreindar upplýsingar á greiðsluseðli frá lífeyrissjóðnum hafi í þessu sambandi.

Í 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er mælt fyrir um að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Ástæða þess að athygli yðar er vakin á þessu ákvæði er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem kvörtun yðar ber hvorki með sér að fyrir liggi formleg afstaða Tryggingastofnunar til ágreiningsefnisins né úrskurður fyrrgreindrar nefndar eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.