Tafir. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11477/2022)

Kvartað var yfir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki svarað erindi.  

Ekki varð séð að málið snerti beinlínis hagsmuni eða réttindi viðkomandi og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. janúar sl. yfir því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki svarað erindi sem formaður félags umgengnisforeldra sendi fyrir hönd yðar og annarra, en félagið mun nú hafa verið lagt niður. Að beiðni starfsmanns umboðsmanns 12. sama mánaðar senduð þér afrit erindis frá 28. febrúar 2017 þar sem formaðurinn óskaði eftir fundi með sýslumanni til að ræða almennt um störf tilgreinds starfsmanns embættisins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til hans. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum er kveðið á um að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Þá verður ráðið af athugasemdunum að kvörtun verði að sýna fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni eða réttindi aðila (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Með vísan til framangreinds lýtur kvörtun yðar að því að sýslumaður hafi ekki brugðist við fundarbeiðni félagasamtaka, sem eru ekki starfandi í dag samkvæmt því sem greinir í kvörtuninni, og ekki verður annað ráðið af erindinu enn að efni fundarins hafi átt að vera almenns eðlis. Af þessum sökum liggur ekki fyrir að kvörtun yðar sýni fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni eða réttindi yðar. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til nánari athugunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.