Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11508 - 11511/2022)

Kvartað var yfir ýmsum atvikum og aðilum, bæði opinberum og einka.  

Efni kvartananna voru hvorki nægilega tilgreind né studd gögnum til að vera tæk til umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvartana yðar 24. janúar yfir ýmsum atvikum og aðilum, svo sem stjórnvöldum og einkaaðilum.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Tekur starfssvið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Af lögunum leiðir einnig að almennt þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem snertir beinlínis hagsmuni eða réttindi þess sem leggur fram kvörtun umfram aðra, sbr. 4. gr. laganna.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Þar segir m.a. í 1. mgr. ákvæðisins að í kvörtun skuli lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Þar er jafnframt gerð sú krafa að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik fylgi kvörtun. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá leiðir af 3. mgr. 6. gr. laganna að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Eins og kvartanir yðar eru úr garði gerðar eru kvörtunarefni yðar, sem lúta að fjölmörgum aðilum, ekki nægilega tilgreind og ekki studd nægjanlegum gögnum til að vera tæk til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Með hliðsjón af því lýk ég athugun minni á málum yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.