Orku- og auðlindamál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11516/2022)

Kvartað var yfir N1 Rafmagni ehf.  

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina þar sem efni hennar féll utan starfssviðs hans. Var viðkomandi bent á að leita til Orkustofnunar með erindi sitt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. þessa mánaðar yfir N1 Rafmagni ehf.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfs­svið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórn­valds­ákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. N1 Rafmagn ehf. er einkahlutafélag og telst einka­réttarlegur aðili. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Samkvæmt nýlegri fjölmiðlaumfjöllun virðist Orkustofnun hafa til athugunar þau atvik sem þér lýsið í kvörtun yðar. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. raforkulaga nr. 65/2003 getur notandi, sem telur sölufyrirtæki ekki standa við skyldur sínar samkvæmt lögunum eða reglugerðum settum sam­kvæmt þeim, kvartað til Orkustofnunar. Í samræmi við það getið þér freistað þess að beina kvörtun til hennar teljið þér tilefni til þess.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.