Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög.

(Mál nr. 10972/2021)

Kvartað var yfir ákvörðunum kjaranefndar Reykjavíkurborgar um laun stjórnenda.

Í svari borgarlögmanns til umboðsmanns kom fram að telja yrði að ekki hefði verið staðið réttilega að málum við framsal valds til kjaranefndarinnar. Um leið og þau mistök voru hörmuð var greint frá því að unnið væri að því að koma málum í lögmætt horf hið fyrsta. Ekki varð því annað ráðið en sveitarfélagið hefði fallist á að ákvarðanirnar um laun stjórnendanna hefðu verið andstæðar lögum þótt forsendurnar fyrir því væru ekki þær sömu og kvörtunin byggðist á. Umboðsmaður benti á að ekki yrði annað séð en einkum kynni að standa eftir ágreiningur um hvort og þá að hvaða marki tilteknir annmarkar á ákvörðunum um launin gætu valdið bótaskyldu og það yrði að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

    

Vísað er til kvörtunar yðar 4. mars sl. fyrir hönd sex stjórnenda á Reykjavíkurborgar yfir ákvörðunum kjaranefndar sveitarfélagsins um laun þeirra.

Við meðferð málsins var þess óskað að Reykjavíkurborg skýrði með hvaða hætti vald borgarstjórnar til þess að ákveða laun og önnur starfskjör nánar tilgreindra stjórnenda hjá borginni hefði verið framselt til borgarstjóra og/eða kjaranefndar. Í svarbréfi borgarlögmanns 14. janúar sl. um þetta atriði segir að telja verði að ekki hafi verið staðið réttilega að málum við framsal valds til kjaranefndar þeirrar er tók umræddar ákvarðanir. Þá segir í bréfinu að um leið og sveitarfélagið harmi það að gerð hafi verið mistök við valdframsal til kjaranefndarinnar sé unnið að því að koma málum í lögmætt horf hið fyrsta.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Að baki ákvæðum laganna búa m.a. þau sjónarmið að áður en leitað er til umboðsmanns skuli stjórnvöld fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar og einnig að það sé að jafnaði ekki nægt tilefni fyrir umboðsmann að halda áfram meðferð máls ef stjórnvald lýsir yfir að sú ákvörðun, sem kvörtun lýtur að, hafi verið andstæð lögum. Umboðsmaður hefur enda ekki réttarskipandi vald, heldur getur hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Líkt og greinir í bréfi yðar 26. janúar sl. verður ekki annað ráðið af fyrrgreindu bréfi borgarlögmanns en að sveitarfélagið hafi fallist á með umbjóðendum yðar að ákvarðanir um laun þeirra hafi verið andstæðar lögum, þótt forsendur að baki þeirri afstöðu sveitarfélagsins séu ekki þær sömu og kvörtun yðar byggist á. Eftir sem áður verður ekki séð að nú séu forsendur til að umboðsmaður haldi áfram meðferð málsins, enda hefur sveitarfélagið boðað að það hyggist bæta úr framangreindum annmörkum. Að því frágengnu verður ekki annað séð en einkum kunni að standa eftir ágreiningur um hvort og þá að hvaða marki téðir annmarkar á ákvörðunum um laun umbjóðenda yðar, og eftir atvikum þau sjónarmið sem kvörtun yðar byggist á, valdi bótaskyldu sveitarfélagsins, en með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 verður það að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess. Í því ákvæði kemur fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Með vísan til framangreinds læt ég því máli þessu lokið, sbr. a-og c-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.