Tafir.

(Mál nr. 11381/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu matsnefndar eignarnámsbóta.

Í ljósi svara frá nefndarmönnum um að formaður hefði tekið við forræði málsins af varaformanni taldi umboðsmaður ekki tilefni að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 9. nóvember sl. f.h. A yfir töfum á afgreiðslu matsnefndar eignarnámsbóta á máli sem snertir landið X á Kjalarnesi.

Í tilefni af kvörtun yðar voru formanni nefndarinnar og vara­formanni rituð bréf 25. nóvember og 20. desember sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú liggur fyrir að málið, sem varaformaður nefndarinnar fór með, hefur verið fengið formanni hennar til meðferðar, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins til yðar 14. janúar sl.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu matsnefndar eignar­námsbóta á máli sem varaformaður hennar hafði til meðferðar, en hefur nú verið fengið formanni nefndarinnar til meðferðar, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér þá ástæðu til þess.