Gjafsókn.

(Mál nr. 11422/2021)

Kvartað var yfir synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni um gjafsókn.

Út frá gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að líta svo á að mat gjafsóknarnefndarinnar hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt þannig að efni væru til að gera athugasemdir við umsögn hennar eða synjun ráðuneytisins á veitingu gjafsóknar. Vakti hann þó athygli á því að þessi niðurstaða sín kæmi ekki í veg fyrir að viðkomandi gæti aflað sér frekari læknisfræðilegra gagna, svo sem matsgerðar, og sótt að nýju um gjafsókn á þeim grundvelli.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

    

I

Vísað er til kvörtunar yðar 29. nóvember sl. fyrir hönd A er lýtur að synjun dómsmálaráðuneytisins 17. september sl. á beiðni hennar um gjafsókn vegna máls sem hún hyggst höfða gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og B til greiðslu skaðabóta vegna umferðarslyss 10. maí 2017. Var umsókninni synjað þar sem gjafsóknarnefnd mælti ekki með gjafsókn á þeim grundvelli að málstaður A gæfi ekki nægilegt tilefni til málshöfðunar í skilningi 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

   

II

Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það almenna skilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda „nægilegt tilefni“ til málshöfðunar eða málsvarnar. Fjallað er nánar um þau sjónarmið sem líta skal til við mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í 5. gr. reglugerðar nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, sem ráðherra hefur sett með stoð í 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 3. tölulið 5. gr. reglugerðarinnar skal við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til að veita gjafsókn m.a. hafa til viðmiðunar hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi.

Með 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur löggjafinn falið gjafsóknarnefnd að líta til ákveðinna sjónarmiða er lúta m.a. að líkum þess að málarekstur muni bera árangur. Að virtum lagagrundvelli gjafsóknar sem og reglugerð nr. 45/2008 hefur umboðsmaður Alþingis ekki gert athugasemdir við að gjafsóknarnefnd geri kröfur til þess að sýnt sé fram á að málarekstur gjafsóknarbeiðanda beri það með sér að nokkrar líkur séu á að kröfur umsækjanda verði dæmdar honum í hag, enda sé þá ekki uppi raunverulegur vafi um sönnunaratriði eða umdeild málsatvik, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis 26. apríl 2010 í máli nr. 5746/2009. Verður því almennt að ljá gjafsóknarnefnd nokkurt svigrúm við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.

Þá leiðir það enn fremur af hlutverki umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins, auk þess að það hafi gætt að réttum málsmeðferðarreglum að öðru leyti. Í slíkum tilvikum felur athugun umboðsmanns ekki í sér að lagt sé nýtt eða sjálfstætt mat á málið.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði A fyrst til læknis um tveimur árum eftir slysið en skömmu eftir það hlaut hún þó meðferð hjá sjúkraþjálfara sem hún hafði verið í meðferð hjá áður. Í umsókn A er vísað til skýrslu umrædds sjúkraþjálfara frá 22. ágúst 2019, eða rúmum tveimur árum frá slysinu, þar sem m.a kemur fram að hún hafi leitað til hennar 22. maí 2017 en ekki treyst sér til hennar fyrstu vikuna eftir slysið vegna verkja. Þar er einnig tekið fram að A hafi greinilega fengið „whiplash“ áverka. Þá liggur einnig fyrir vottorð heimilislæknis frá 10. desember 2019 þar sem heilsufar hennar er rakið en að öðru leyti er þar tekið fram að læknirinn hafi lítið meira að segja þar sem hún hafi „lítið komið varðandi þetta slys“.

Í umsögn gjafsóknarnefndar kemur fram að þau læknisfræðilegu gögn sem A hafi lagt fyrir nefndina beri með sér að heilsufar hennar hafi verið bágborið um árabil en að ekki liggi fyrir nein læknisfræðileg gögn eða greinargerð sem sýni fram á orsakatengsl á milli varanlegrar vanheilsu hennar, eins og hún væri í dag, og árekstursins 10. maí 2017. Í ljósi fyrirliggjandi gagna var það mat nefndarinnar að ekki hefði verið sýnt fram á að nægilegt tilefni væri til málsóknar. Þá liggur fyrir í málinu úrskurður úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þar sem ekki var fallist á að fyrir lægi fullnægjandi sönnun um að A byggi við meiðsl sem rekja mætti til slyssins 10. maí 2017.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, þar á meðal þau gögn sem A lagði fyrir nefndina, tel ég mig ekki hafa forsendur til að líta svo á að áðurlýst mat gjafsóknarnefndar á fyrirhugaðri málsókn hennar hafi verið bersýnilegt óforsvaranlegt þannig að efni séu til að gera athugasemdir við umsögn nefndarinnar eða synjun dómsmálaráðuneytisins við veitingu gjafsóknar. Ég tel þó ástæðu til að vekja athygli yðar á því að sú niðurstaða kemur ekki í veg fyrir að þér aflið frekari læknisfræðilegra gagna, svo sem matsgerðar, og sækið að nýju um gjafsókn á þeim grundvelli.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.