Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11483/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. 

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið þar sem ársfrestur til að bera fram kvörtun var liðinn.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. janúar sl. sem lýtur að þeirri ákvörðun 24. september 2020 að ráða annan umsækjanda en yður í starf aðal­lögfræðings lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem kvörtun yðar lýtur að ákvörðun sem er utan ársfrestsins eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar. Samskipti yðar við dómsmálaráðuneytið í tilefni af kæru yðar til þess 12. janúar 2021 hrófla ekki við þeirri niðurstöðu, enda var ekki unnt að kæra ákvörðun­ina til ráðuneytisins og því á 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 ekki við um kvörtun yðar. Þar segir að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ársfresturinn samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis hefjist þá frá þeim tíma.

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.