Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Embættismaður. Mat á hæfni umsækjenda.

(Mál nr. 11283/2021)

Kvartað var yfir skipun dómsmálaráðherra á lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum og taldi viðkomandi að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið skipaður.

Að teknu tilliti gagna málsins taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemdir við það mat hæfnisnefndar að gera ekki greinarmun á hæfni tveggja hæfustu umsækjendanna. Þá voru ekki fyrir hendi upplýsingar sem bentu til þess að meðferð málsins hjá ráðuneytinu hefði ekki samræmst lögum og því ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtunina til nánari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. september sl. yfir því að dómsmálaráðherra hafi skipað annan umsækjanda en yður lögreglustjórann í Vestmannaeyjum. Kvörtunin byggist á því að þér hafið verið hæfastur umsækjenda um embættið. Gerið þér athugasemdir við að hæfnisnefnd hafi metið yður og þann sem ráðherra skipaði í embættið jafnhæfa, auk þess sem þér teljið að ráðherra hafi ekki lagt sjálfstætt og málefnalegt mat á hæfni yðar.

Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust gögn málsins frá dómsmálaráðuneytinu 14. október sl.

  

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi skipa í embætti, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern átti að skipa lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun ráðherra hafi verið lögmæt, þ.á m. hvort ákvörðun ráðherra hafi byggst á málefnalegum ástæðum.

Sem fyrr greinir var það niðurstaða nefndar, sem ráðherra skipaði til að meta hæfni umsækjenda um embættið, að þér og sá umsækjandi sem var skipaður stæðuð öðrum umsækjendum framar. Taldi nefndin ekki ástæðu til að gera greinarmun á yður. Byggðist mat hennar á umsóknargögnum og viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila, en skráðar upplýsingar um efni viðtalanna liggja fyrir. Í framhaldinu átti ráðherra ásamt starfsmönnum ráðuneytisins viðtöl við yður og liggja einnig fyrir skráðar upplýsingar um þau. Þá er meðal gagna málsins minnisblað ráðuneytisins þar sem meðferð málsins var rakin og gerð grein fyrir því mati ráðuneytisins að sá umsækjandi, sem síðar var skipaður, stæði öðrum framar þegar litið hefði verið til allra matsþátta og þess sem fram hefði komið í viðtölum við ráðherra.

Af umsögn nefndarinnar verður ráðið að það hafi verið mat hennar að þér og sá umsækjandi sem var skipaður lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefðuð yfir að búa umfangsmikilli starfsreynslu sem hefði vægi við mat á hæfni yðar. Þótt starfsreynsla yðar sé öllu lengri í árum talið verður að teknu tilliti til gagna málsins ekki talið að efni séu til að gera athugasemdir við það mat nefndarinnar að gera ekki greinarmun á hæfni yðar. Þá verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að ráðuneytið hafi metið hæfni yðar til að gegna embættinu á grunni gagna málsins, umsagnar hæfnisnefndar og viðtala ráðherra við yður.

Eftir að hafa kynnt mér gögnin, þ.á m. það sem var skráð um viðtöl yðar við ráðherra, eru ekki fyrir hendi upplýsingar sem benda til þess að meðferð málsins hafi ekki samræmst lögum. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa verður stjórnvaldi við ákvörðun um hvern beri að skipa í embætti tel ég því ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.