Lögreglurannsókn. Afturköllun vínveitingaleyfis og skemmtanaleyfis. Andmælaréttur. Lögregla slítur skemmtanahaldi. Rökstuðningur. Meðalhófsregla.

(Mál nr. 436/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 27. nóvember 1992.

A, sem rak veitingastaðinn X, kvartaði yfir ýmsum ákvörðunum lögregluyfirvalda sem teknar höfðu verið dagana 20. og 21. júlí 1990 varðandi lokun veitingastaðarins og afturköllun vínveitinga- og skemmtanaleyfa. Beindist kvörtun A að sex atriðum: 1) Að rannsókn ætlaðra brota á áfengislöggjöf. 2) Að slitum skemmtunar. 3) Að synjun á töku lögregluskýrslu. 4) Að afturköllun vínveitingaleyfis. 5) Að afturköllun skemmtanaleyfis. 6) Að athugasemdum heilbrigðisfulltrúa. Umboðsmaður taldi, að rannsókn lögreglu, sem fram fór í tilefni af ætlaðri ólöglegri áfengissölu á veitingastaðnum X, hefði verið haldin annmörkum, þar sem hún hefði ekki verið nægjanlega ítarleg. Tók hann fram, að afla hefði átt skýrslna um það, hverjir hefðu verið staðnir að því að selja áfengi, hvaða áfengi hefði verið selt í umrætt sinn og í hve ríkum mæli. Í tilefni af hinni ætluðu áfengissölu sleit lögreglan fyrirvaralaust skemmtanahaldi á veitingastaðnum X. Umboðsmaður taldi, að lögreglumönnum hefði tvímælalaust verið heimilt að koma í veg fyrir ólögmætar áfengisveitingar á veitingastaðnum X. Hins vegar hefði ekki verið leitt í ljós, að í því skyni hefði verið nauðsynlegt að rýma veitingastaðinn og slíta skemmtun þar. Er það var gert hefði A verið sviptur vínveitingaleyfi en enn haft skemmtanaleyfi. Hefði borið að grípa til vægari ráðstafana, sem tækar voru og gátu komið að gagni, svo sem að leggja hald á áfengi eða innsigla það. A kvartaði yfir því, að lögregluyfirvöld hefðu synjað að kalla út starfsmenn laugardaginn 21. júlí 1990 til þess að taka skýrslu af A og starfsmönnum hans og sagt, að skýrslutakan yrði að bíða fram til mánudags. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til athugasemda við þessa ákvörðun lögregluyfirvalda, enda yrði ekki séð, að neitt hefði verið því til fyrirstöðu, að A gerði grein fyrir máli sínu í skriflegri skýrslu og afhenti lögregluyfirvöldum. Þá kvartaði A yfir því, að vínveitingaleyfi fyrir skemmtistaðinn X hefði verið afturkallað. Umboðsmaður gat þess, að með afturköllun í stjórnsýslurétti væri átt við þá stjórnvaldsákvörðun, þegar stjórnvald tæki að eigin frumkvæði aftur lögmæta ákvörðun sína, sem þegar hefði verið birt. Undirbúningi og meðferð slíks máls bæri að öllu jöfnu að haga eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar. Þegar afturkölluð væru leyfi, sem væru forsenda atvinnurekstrar, yrði almennt að gera strangar kröfur til þess, að réttarheimild sú, sem afturköllun væri byggð á, væri skýr. Þar sem matsnefnd vínveitingahúsa taldi veitingastaðinn X ekki fyrsta flokks að því er til húsnæðis tæki, sbr. og álit heilbrigðisyfirvalda, hefði veitingastaðurinn ekki uppfyllt skilyrði laga. Taldi umboðsmaður því, að lögreglustjóra hefði verið heimilt að afturkalla vínveitingarleyfið skv. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 82/1969, með síðari breytingum. Hins vegar áleit hann gagnrýnivert, að A skyldi ekki hafa verið veittur kostur á að tjá sig um málið, áður en lögreglustjóri tók ákvörðun um afturköllunina. Að því er varðaði rökstuðning afturköllunarinnar tók umboðsmaður fram, að af úrlausnum dómstóla og meginreglum laga yrði ekki ráðið, að ótvíræð almenn skylda væri til þess fyrir lægra sett stjórnvald, að láta rökstuðning fylgja ákvörðunum, þegar þær væru birtar. Fram hefði komið, að þeirri starfsreglu væri þó almennt fylgt hjá umræddu lögreglustjóraembætti að rökstyðja stuttlega afturkallanir og taldi umboðsmaður það í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að láta rökstuðning fylgja slíkum ákvörðunum. Umboðsmaður benti hins vegar á, að þegar íþyngjandi ákvarðanir væru ekki rökstuddar eða rökstuðningur ekki nægjanlega skýr, yrði að telja, að málsaðili ætti rétt á að fá hjá því stjórnvaldi, sem hlut ætti að máli, stuttar skýringar á því á hvaða réttarheimild og meginsjónarmiðum ákvörðun máls hefði byggst. Umboðsmaður taldi að geta hefði átt þeirrar réttarheimildar, sem afturköllunin var byggð á og þess skilyrðis, sem á skorti, að veitingastaðurinn uppfyllti. A kvartaði ennfremur yfir því að skemmtanaleyfi fyrir veitingastaðinn X hefði verið afturkallað. Um heimild til afturköllunarinnar vísaði lögreglustjóri til 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987, án þess þó að vísa til þess stafliðs, sem á væri byggt. Taldi dómsmálaráðuneytið, að ekki þyrfti að vera um sérgreindar ástæður að ræða og almenn tilvísun nægði. Umboðsmaður tók fram, að afturköllun skemmtanaleyfis væri íþyngjandi ákvörðun og snerti mikilvæga hagsmuni þess, sem veitingahús ræki. Slík ákvörðun yrði að vera byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og eiga sér viðhlítandi stoð í lögum. Féllst umboðsmaður því ekki á fyrrgreint sjónarmið yfirvalda og áleit tvímælalaust, að afturköllun skemmtanaleyfis yrði að vera byggð á tilgreindum og sannanlegum atvikum, sem að lögum gætu leitt til afturköllunar. Að mati umboðsmanns gat afturköllunin í umræddu tilviki aðeins byggst á b-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987 þess efnis, að brotnar væru reglur, sem um reksturinn gilda. Yrði að líta á afturköllun opinbers leyfis sem refsikennd viðurlög, þegar hún væri byggð á brotum á öðrum reglum en þeim, er mæltu fyrir um skilyrði til að fá leyfið. Slík viðurlög yrðu að eiga skýra lagastoð. Ekki fælist nægjanleg heimild í reglugerð nr. 587/1987 til að afturkalla skemmtanaleyfi í tilefni af brotum á öðrum réttarreglum en þeim, sem mæltu fyrir um skilyrði til að öðlast slíkt leyfi. Þar sem yfirvöld hefðu ekki gert grein fyrir þeim málsatvikum, sem afturköllunin var byggð á og hún varð heldur ekki ráðin af gögnum málsins, taldi umboðsmaður að ekki yrði séð, að nægjanleg heimild hefði verið til þess að afturkalla skemmtanaleyfið. Þá tók hann fram, að ekki yrði ráðið af gögnum máls, að nein rannsókn hefði legið til grundvallar afturkölluninni. Einnig þótti umboðsmanni gagnrýnivert, að A hefði ekki verið veittur kostur á að tjá sig um málið, áður en skemmtanaleyfið var afturkallað og jafnframt fann hann að rökstuðningi. Loks vakti umboðsmaður athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra á því sem

I. Kvörtun.

Hinn 18. apríl 1991 bar A, fram kvörtun, sem beindist að sex atriðum.

Í fyrsta lagi kvartaði hann yfir þeirri ákvörðun aðalvarðstjóra lögreglunnar í Reykjavík, að slíta skemmtun á veitingastaðnum X hinn 20. júlí 1990, þar sem grunur léki á því að brotið hefði verið gegn áfengislögunum nr. 82/1969. Taldi A, að með því hefði lögreglan beitt harkalegri aðferðum en efni stóðu til. Einnig taldi A, að lögregluna hefði skort lagaheimild til umræddra aðgerða.

Í öðru lagi kvartaði hann yfir því, að rannsókn ætlaðs brots á áfengislögunum hefði verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við lög. Hefði engin skýrsla verið tekin og lægi ekki fyrir, hvaða starfsmanni væri ætlað að hafa selt vín eða hvaða viðskiptavini að hafa keypt það. Loks lægi ekki fyrir, hvaða áfengi hefði verið selt. Skorti því algerlega sönnun um, að lagaskilyrði hefði verið til að slíta samkomunni.

Í þriðja lagi kvartaði A yfir því, að hann hefði ekki fengið að gefa skýrslu vegna slita lögreglumanna á skemmtuninni 20. júlí 1990, þannig að sjónarmið hans kæmu einnig fram. Hefði þessari ósk verið hafnað með þeim skýringum, að ekki væri tiltækur mannafli til skýrslutökunnar. Taldi A, að hann hefði átt svo verulegra hagsmuna að gæta, að lögreglunni hefði borið að verða við ósk hans.

Í fjórða lagi kvartaði hann yfir afturköllun lögreglustjórans í Reykjavík á vínveitingaleyfi hinn 20. júlí 1990. Um var að ræða leyfi til áfengisveitinga í veitingahúsunum X, og Y, og hafði leyfið verið veitt til bráðabirgða 15. mars 1990. Taldi A umrædda afturköllun haldna verulegum annmarka, þar sem hún hefði ekki nægjanlega lagaheimild og hún hefði ekki verið nægjanlega rökstudd.

Í fimmta lagi kvartaði hann yfir því, að afturköllun skemmtanaleyfis fyrir veitingahúsið X, 21. júlí 1990. Taldi A afturkölluninni mjög áfátt, þar sem lagaheimild hefði ekki verið til hennar og hún ekki verið rökstudd. Kæmi þar ekki fram, hvers vegna skemmtanaleyfið væri afturkallað.

Í sjötta lagi kvartaði A yfir því, hversu óskýrar athugasemdir og fyrirmæli heilbrigðisfulltrúa í Reykjavík hefðu verið um ástand og nauðsynlegar úrbætur á veitingahúsinu X.

Að því er tekur til sjötta liðar kvörtunar A, skal tekið fram, að umboðsmaður Alþingis fjallar því aðeins um stjórnsýslu sveitarfélags að um sé að ræða ákvarðanir, sem skjóta má til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkis, sbr. 3. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. 6. gr. sömu laga segir ennfremur, að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds. Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit segir, að skjóta megi ákvörðunum heilbrigðisyfirvalda til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Sé aðili ekki sáttur við úrskurð stjórnar, sé heimilt að kæra úrskurðinn til úrskurðarnefndar þriggja manna. Þar sem ákvarðanir heilbrigðisfulltrúa hafa ekki verið bornar undir stjórn Hollustuverndar ríkisins og umrædda úrskurðarnefnd, skortir lagaskilyrði til þess að ég geti tekið fjallað um þann þátt umræddrar kvörtunar, sem að þessum ákvörðunum lýtur.

II. Málavextir.

Samkvæmt kvörtun A og þeim gögnum, sem hann lagði fram, voru málavextir í stuttu máli þeir, að 5. desember 1989 sótti A um leyfi til áfengisveitinga í veitingahúsinu X. Í umsögn matsnefndar áfengisveitingahúsa skv. 2. mgr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969 segir, að nefndin hafi ekkert við það að athuga, að umbeðið leyfi verði veitt til eins árs með því skilyrði, að bætt verði úr fjórum atriðum á umræddum veitingastað. Hinn 15. mars 1990 gaf lögreglustjórinn í Reykjavík síðan út bráðabirgðaleyfi til áfengisveitinga í veitingahúsunum X, og Y.

Hinn 19. júlí 1990 var veitingahúsið X skoðað af heilbrigðisfulltrúa. Í skýrslu (nr. 1513) heilbrigðisfulltrúa sagði svo m.a.:

„Hér með er veitingastaðnum [X] lokað vegna sóðaskapar, slæmrar umgengni og ófremdarástands alls húsnæðisins.

Lokað hefur verið á milli eldhúss [Y] og [X] en skilyrði fyrir veitingaleyfi er að [X] hafi aðgang að eldhúsi.

Þessi ákvörðun verður tilkynnt lögregluyfirvöldum.“

Í skýrslu (nr. 1516) heilbrigðisfulltrúa, sem einnig er dagsett 19. júlí 1990, sagði svo:

„Eftirlit hér í kvöld kl. 21.30. Þrátt fyrir að staðurinn hafi verið þrifinn og ýmislegt lagfært frá því í dag uppfyllir hann ekki kröfur sem heilbrigðiseftirlitið gerir til veitingahúsa hvað þá 1. fl. veitingahúsa. Áðurgefin nóta í dag er því í fullu gildi hvað þetta snertir. Aftur á móti getur heilbrigðiseftirlitið látið það óátalið að haldnir séu hér tónleikar í kvöld, þar sem staðurinn hangi kannski í því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkra staða.“

Hinn 19. júlí 1990 kannaði matsnefnd áfengisveitingahúsa veitingastaðinn X, að viðstöddum fulltrúa frá heilbrigðiseftirlitinu í Reykjavík. Í bréfi nefndarinnar, dags. 20. júlí 1990, til lögreglustjórans í Reykjavík sagði svo:

„Svo sem fram kemur af skriflegum nótum heilbrigðiseftirlitsins, sem hér með fylgja í ljósriti, þá uppfyllir veitingastaðurinn [X], ekki þær kröfur sem heilbrigðiseftirlitið gerir til veitingahúsa.

Matsnefnd áfengisveitingahúsa er fyllilega sammála því mati sem fram kemur í lýsingu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á ástandi veitingastaðarins. Ennfremur er vakin athygli á því að skilyrði sem sett voru fram í bréfi matsnefndarinnar, dags. 15. mars s.l., varðandi endurbætur í veitingahúsinu að [X] og [Y] enn ekki verið framkvæmd að öllu leyti.

Með vísan til ofanritaðs tilkynnist Lögreglustjóraembættinu hér með, að matsnefnd áfengisveitingahúsa telur veitingastaðinn, að [...] og [...], ekki uppfylla lengur þau skilyrði sem matsnefndin gerir af sinni hálfu, til áfengisveitingahúsa.“

Hinn 20. júlí 1990 barst A bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem segir m.a. svo:

„Embættið hefur nú fengið í hendur umsögn matsnefndar áfengisveitingahúsa, dags. í dag. Kemur þar fram, að matsnefndin telji veitingastaðinn að [...] og [...] ekki uppfylla þau skilyrði sem nefndin gerir af sinni hálfu til áfengisveitinga.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið eru eigi lengur lagaskilyrði fyrir áframhaldandi gildi leyfis yðar til áfengisveitinga í veitingahúsinu [X], og [Y], sem út var gefið 15. mars s.l., og er það því hér með úr gildi fellt.“

Sama dag fékk A svohljóðandi leyfi frá lögreglustjóranum í Reykjavík:

„Með samþykki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og lögreglustjóraembættisins er [A], veitingamanni, heimilt að halda tónleika á skemmtistaðnum [X], föstudags- og laugardagskvöldið 20. og 21. þ.m. Áfengisveitingar eru þó bannaðar.

Með samþykki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Matsnefndar áfengisveitingahúsa og lögreglustjóraembættisins er [A] heimilt að hafa veitingahúsið [Y], opið og eru áfengisveitingar þar leyfðar.“

Hinn 20. júlí 1990, klukkan 23.55, komu tveir eftirlitsmenn vínveitingahúsa í veitingahúsið X. Í skýrslu þeirra, dags. 20. júlí 1990, segir svo:

„Um 50 gestir voru á staðnum. Strax og við gengum í húsið urðum við varir við gesti með flöskur af sterkum bjór í höndum og er við komum að börum fyrstu hæðar reyndust þeir báðir opnir og tvær afgreiðslustúlkur á hvorum bar. Áfengið var ekki í venjulegum hillum heldur stóð á skápum fyrir neðan þær og blöstu þar við gestum. Voru þarna margar tegundir áfengis um 10-12 flöskur á hvorum bar. Við horfðum þarna á afgreiðslustúlkur afgreiða tvo viðskiptavini um glös af vínblöndum og voru það Íslendingar, en margir gesta voru breskir. Við yfirgáfum nú staðinn og fórum á miðborgarstöð lögreglu og hittum þar [B] yfirvarðstjóra og sögðum honum frá fyrirmælum [C] fulltrúa um lokun [X] við þessar aðstæður. [B] sagðist hafa sömu fyrirmæli og fór þegar á staðinn með okkur og hóp af lögreglumönnum. Dyraverðir fóru fram á að fá sjálfir að rýma húsið og var það fúslega veitt. Allt fór þarna mjög rólega fram og alveg átakalaust. [D] húseigandi kom á staðinn og bað um skýringu á lokuninni og fékk hana. [E] einn af forráðamönnum hússins var á staðnum og sagði að áfengið á börunum hefði einungis verið ætlað hinum erlendu hljómsveitum sem þarna áttu að spila. Að öðru leyti komu engar skýringar fram á áfengissölunni. Það skal tekið fram að búið var að loka börunum og ganga frá áfenginu er lögreglan kom á staðinn. Um kl. 00.30 var húsið mannlaust og lokað.“

Í skýrslu aðalvarðstjóra, dags. 21. júlí 1990, segir m.a. svo:

„Skömmu eftir kl. 2400 kom [F] „víneftirlitsmaður“ á lögreglustöðina ásamt starfsbræðrum sínum. Þeir skýrðu svo frá að barir í [X] væru opnir og vínveitingar í gangi.

Undirritaður fór á staðinn ásamt þeim og nokkrum lögreglumönnum. Að mínum dómi var tæpast gerlegt og alls ekki við hæfi að setja lögreglumenn á vörð við bari hússins og tilkynnti ég því dyravörðum [X] að þar sem óleyfileg starfsemi væri þar í gangi krefðist ég þess að öllum gestum yrði vísað út. Dyraverðir og aðrir starfsmenn mótmæltu þessari kröfu og sögðu að um misskilning væri að ræða því eigandi hússins hefði leyfi frá [C] til að veita alla þjónustu. Þegar undirritaður vildi ekki trúa þeirri sögu var dregið í land en skýrt svo frá gestum hefði ekki verið veitt áfengi. Einu vínveitingarnar sem hefðu átt sér stað hefðu verið til „hljómlistarmanna“. Þeir ættu rétt á áfengi samkvæmt samningi. Undirritaður innti þá eftir því hvort dyraverðir og annað starfsfólk nyti sömu fríðinda. Svar fékkst ekki. Orðaskipti við starfsfólk urðu ekki langvarandi þar eð eigandi hússins [D] kom og ræddi við okkur. [D] mótmælti þessum aðgerðum og sagði þær vera á misskilningi byggðar. Hann innti grannt eftir hvaða fyrirmæli við hefðum og fékk að sjálfsögðu svör við því.

Þrátt fyrir mótmæli og tregðu eiganda og starfsfólks fór allt friðsamlega fram og dyraverðir sáu um að vísa gestum út. Ekki var margt fólk gestkomandi á staðnum. Greinilegt var að sumir gestanna voru vel við skál, þó var ekki hægt að segja að ölvun væri mikil.“

Samkvæmt gögnum málsins fengu X leyfi útgefið hjá lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 9. janúar 1990, til þess að mega halda skemmtanir alla daga ársins, nema lögskipaða helgidaga, til kl. 01.00 og á föstudögum og laugardögum til kl. 03.00.

Hinn 21. júlí 1990 var skemmtanaleyfi til A afturkallað með svohljóðandi bréfi frá lögreglustjóranum í Reykjavík:

„Það tilkynnist hér með, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur afturkallað skemmtanaleyfi fyrir veitingahúsið [X] hér í borg, sbr. heimild í 12. gr. reglugerðar nr. 587 frá 1987. Skemmtun, sem aðgangur er seldur að, má því ekki standa lengur en til kl. 23.30 í veitingahúsinu, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar.“

Í skýrslu lögmanns A, sem fylgdi kvörtun hans, sagði, að hann hafi haft samband við fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík hinn 21. júlí 1990 og farið fram á það að afturköllun skemmtanaleyfisins yrði frestað. Því hafi verið hafnað af fulltrúanum. Þá hafi hann farið fram á, að A og starfsmenn hans fengju að gefa skýrslu um málið, svo að fyrir lægju gögn, sem skýrðu einnig þeirra hlið. Því hafi hins vegar verið neitað af fulltrúanum, sem kvaðst ekki kalla út lögreglufulltrúa til þess verkefnis. Yrði skýrslutakan því að bíða fram yfir helgi.

Hinn 23. júlí 1990 kærði A til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ákvarðanir lögreglustjórans í Reykjavík um bann við áfengisveitingum í veitingastaðnum X hér í borg, og um sviptingu skemmtanaleyfis fyrir veitingastaðinn 20. og 21. júlí 1990, auk þess sem aðgerðir lögreglu hinn 20. júlí 1990 voru kærðar. Í úrskurði ráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1990, segir meðal annars:

„Ráðuneytið hefur fengið í hendur ítarlega umsögn lögreglustjóra vegna erindis yðar, sbr. meðfylgjandi ljósrit af bréfi hans, dags. 31. júlí sl. Ráðuneytið telur, að athugaðri umsögn lögreglustjóra og með vísun til röksemda hans, að fullt tilefni hafi verið til þess af hálfu lögreglustjóra að fella úr gildi leyfi yðar til áfengisveitinga í umræddum veitingastað, sem í bréfi lögreglustjóra er talinn að [...], og gefið hafði verið út til bráðabirgða, enda uppfyllti veitingastaðurinn hvorki kröfur heilbrigðisyfirvalda né skilyrði matsnefndar áfengisveitingahúsa. Byggist sú niðurfelling á heimild lögreglustjóra samkvæmt 4. málsl. 4. mgr. 12. gr. áfengislaganna. Ráðuneytið telur og að fullt tilefni hafi verið til þess samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987 að afturkalla almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastaðinn. Aðgerðir lögreglu til að stöðva áframhaldandi starfsemi að kvöldi 20. júlí sl. telur ráðuneytið og að fullu réttlætanlegar.

Samkvæmt þessu telur ráðuneytið ekki efni til að fella úr gildi umræddar ákvarðanir lögreglustjóra frá 20. og 21. júlí sl. um að afturkalla áfengisveitingaleyfi og almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastaðinn [X] í [...] hér í borg, og þá heldur ekki efni til að fresta framkvæmd þeirra ákvarðana.“

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 3. janúar 1992 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A.

Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 4. maí 1992, og segir þar svo:

„1. Leyfi lögreglustjóra sem út var gefið 15. mars 1990 vísaði til þess að leyfið gilti til bráðabirgða, þ.e. meðan umsókn um áfengisveitingaleyfi væri til meðferðar. Er það í samræmi við reglu 3. mgr. 12. gr. áfengislaga eins og hún hljóðar nú, sbr. lög nr. 25/1989, sbr. og 7. gr. reglugerðar um sölu og veitingar áfengis, nr. 425/1989. Fram kemur að 12. mars hafði lögreglustjóri fellt áfengisveitingaleyfi úr gildi þar sem matsnefnd áfengisveitingahúsa gat þá ekki að óbreyttum aðstæðum mælt með leyfi. Leyfið 15. mars byggði m.a. á nýrri umsögn matsnefndarinnar þar sem sett voru skilyrði og tímafrestur um endurbætur. Var vísað til þeirrar umsagnar í leyfisbréfinu. Afturköllunin 20. júlí 1990 byggði á nýrri umsögn matsnefndarinnar. Sagði þar að skilyrði sem sett höfðu verið um endurbætur hefðu ekki verið uppfyllt að öllu leyti, auk þess sem vísað var til gagna frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þar sem fram kom að veitingastaðurinn uppfyllti ekki almennar kröfur til veitingahúsa. Taldi nefndin veitingastaðinn því ekki uppfylla lengur þau skilyrði sem gerð eru til áfengisveitinga. Til þessa er vitnað í bréfi lögreglustjóra. Telur ráðuneytið að afturköllunin hafi verið rökstudd á fullnægjandi hátt.

Að því er varðar tilvitnun til lagaákvæða er það rétt að ekki er í bréfi lögreglustjóra vísað til slíks. Má almennt fallast á að rétt sé að vísa til lagaákvæðis í slíkum tilvikum. Veitingamanninum mátti þó vera ljóst, vegna starfs síns og af leyfisbréfinu, að um áfengisveitingastaði gilda ákvæði áfengislaga. Auk þessa var í bréfi lögreglustjóra frá 12. mars vísað sérstaklega til 12. gr. áfengislaganna en í 4. málsl. 4. mgr. þeirrar greinar segir að lögreglustjóri skuli þegar fella leyfi úr gildi ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða uppfyllir þau ekki lengur.

2. Afturköllun almenns skemmtanaleyfis fyrir veitingahúsið byggðist á 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987. Almennt skemmtanaleyfi er gefið út til veitingastaðar þar sem skemmtanir fara reglubundið fram. Lögreglustjóri getur hvenær sem er afturkallað slíkt leyfi fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma. Í greininni eru nefndar þrjár ástæður, en þær eru eingöngu nefndar sem dæmi. Afturköllun lögreglustjóra vísaði almennt til 12. gr. reglugerðarinnar. Heimild til afturköllunar er almenns eðlis. Telur ráðuneytið að með tilvísun til lagagreinarinnar felist almenn tilvísun til þeirra ástæðna sem þar eru tilgreindar og að ekki þurfi að vera um sérgreindar ástæður að ræða. Þótt almennt skemmtanaleyfi sé afturkallað er jafnan unnt að leita eftir stöku skemmtanaleyfi.

3. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 587/1987 er lögreglumanni heimilt að ákveða að slíta skuli skemmtun ef ekki þykir fært að henni skuli haldið áfram. Slíka ákvörðun hlýtur lögreglumaður sem er á vettvangi að taka. Sérstakir eftirlitsmenn með vínveitingahúsum, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 425/1989, gerðu lögreglu sem þegar kom á vettvang viðvart og tók yfirmaður lögreglumannanna ákvörðun um að slíta skemmtun. Hlutverk lögreglu er almennt það að gæta almannaöryggis og halda upp lögum og reglu. Eins og á stóð verður að telja að lögreglan hafi haft fullt tilefni til að stöðva skemmtanahaldið. Auk 7. gr. byggist heimild lögreglunnar á 1. gr. laga um lögreglumenn, nr. 56/1972.

4. Aðalvarðstjóri sem kominn var á vettvang tók ákvörðun um að slíta skemmtun, á grundvelli eigin athugunar. Slíka ákvörðun verður lögregla að taka og kunngera hlutaðeigandi án þess að skýrslur verði fyrst gerðar eða ákvörðun bréfuð. Um málsatvik voru síðan gerðar skýrslur. Þær bera að mati ráðuneytisins með sér að fullnægjandi forsendur voru fyrir ákvörðun aðalvarðstjórans. Rannsókn vegna starfseminnar aðfaranótt 21. júlí var hins vegar ekki fylgt eftir af hálfu lögreglustjóraembættisins. Kom því ekki til þess að frekari skýrslur yrðu gerðar og rannsókninni var ekki beint inn á kærumeðferð.

5. Lögreglustjóraembættið taldi ekki efni til þess að stofna til skýrslutöku af [A] þegar laugardaginn 21. júlí og taldi það geta beðið fram yfir helgi. Verður ekki talið að embættinu hafi borið skylda til að stofna til þeirrar skýrslutöku þá eða að kalla út starfslið til þess verkefnis. Hins vegar er ljóst að [A] var unnt að koma sínum sjónarmiðum þá þegar á framfæri skriflega. Var það hins vegar ekki gert, hvorki þá né síðar. Þess í stað sneri hann sér til dómsmálaráðuneytisins með kæru með bréfi, dags. 23. júlí.

[...]

Tekið skal fram að vegna margvíslegra anna í ráðuneytinu hefur dregist að svara erindi yðar.“

Með bréfi, dags. 7. maí 1992, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins. Athugasemdir hans bárust mér 15. maí 1992.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 27. nóvember 1992, tók ég einstaka þætti í kvörtun A til umfjöllunar að undanskildum þeim lið, sem laut að ákvörðun heilbrigðisfulltrúa, þar sem ekki hafði verið kært til æðra stjórnvalds og því ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég fjallaði um það atriði.

IV.1.

Ég fjallaði fyrst um rannsókn lögreglu á brotum á áfengislöggjöfinni. Sagði svo um það:

„Í fyrsta lagi kvartar A yfir rannsókn lögreglu og eftirlitsmanna vínveitingahúsa í tilefni atburða í veitingahúsinu X hinn 20. júlí og aðfaranótt 21. júlí 1990.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 425/1989, um sölu og veitingar áfengis, skal lögreglustjóri gæta þess að áfengisveitingar fari eigi fram á veitingastað eftir að leyfi er fallið úr gildi.

Eftirlitsmenn vínveitingahúsa, sem hafa sérstakt eftirlit með vínveitingastöðum undir yfirstjórn lögreglustjóra, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 425/1989, töldu sig verða vara við brot á áfengislöggjöfinni við eftirlit á veitingahúsinu X 20. júlí 1990, kl. 23.55, eins og greinir í skýrslu þeirra, dagsettri sama dag. Í skýrslu þeirra segir svo:

„Strax og við gengum í húsið urðum við varir við gesti með flöskur af sterkum bjór í höndum og er við komum að börum fyrstu hæðar reyndust þeir báðir opnir og tvær afgreiðslustúlkur á hvorum bar. Áfengið var ekki í venjulegum hillum heldur stóð á skápum fyrir neðan þær og blöstu þar við gestum. Voru þarna margar tegundir áfengis um 10-12 flöskur á hvorum bar. Við horfðum þarna á afgreiðslustúlkur afgreiða tvo viðskiptavini um glös af vínblöndum“.

Að því búnu kvöddu eftirlitsmennirnir lögreglumenn á staðinn. Ekki kemur fram að lögreglumenn hafi sjálfir rannsakað málavexti frekar en greinir í áðurnefndri skýrslu aðalvarðstjóra, dags. 21. júlí 1990.

Farið skal með mál út af brotum á áfengislögunum að hætti opinberra mála skv. 49. gr. áfengislaga nr. 82/1969. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er tekið fram, að lögreglumenn eða sérstakir löggæslumenn hafi vald til að hefja lögreglurannsókn gegn þeim, sem staðnir séu að brotum á lögunum eða grunaðir um brot.

Í 35. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, segir svo: „Nú fá lögreglumenn vitneskju eða rökstuddan grun um, að refsiverð háttsemi, er beri undir opinbera ákæruvaldið, hafi drýgð verið [...] ber þeim þá að hefja af sjálfsdáðum rannsókn málsins og gera þær ráðstafanir, sem löglegar, nauðsynlegar og heppilegar eru til að afla sakargagna og gæta þess, að þau spillist ekki, svo og framkvæma hvað eina, er horfir til glöggvunar á málavöxtum og lög leyfa“.

Samkvæmt framansögðu lék grunur á því, að brotið hefði verið gegn áfengislöggjöfinni með veitingu áfengis í veitingahúsinu X í umrætt sinn. Gat slíkt leitt til refsimáls og sviptingar leyfis til að veita áfengi. Var því tilefni til ítarlegri rannsóknar málavaxta. Þannig bar t.d. að afla skýrslna um það, hvaða menn það voru, sem staðnir voru að því að selja áfengi, hvaða áfengi selt var í umrætt sinn og í hve ríkum mæli. Þá var eðlilegt að reynt væri að afla upplýsinga um það, hvort sterkur bjór, sem vínveitingaeftirlitsmenn töldu sig hafa séð á staðnum, hefði verið keyptur þar eða borinn inn á staðinn, svo staðreynt yrði, hvort brotið hefði verið gegn 18. gr. áfengislaga nr. 82/1969 eða 3. mgr. 20. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 425/1989.“

IV.2.

Um slit á skemmtanahaldi á veitingastaðnum X 20. júlí 1990 varð niðurstaða mín þessi:

„A kvartar yfir því, að lögreglan skuli hafa slitið skemmtun á veitingastaðnum X 20. júlí 1990. Telur A lögreglu hafa skort lagaheimild til þess. Þá telur A, að lögreglan hafi beitt harkalegri aðferðum en efni stóðu til.

Samkvæmt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 4. maí 1992, telur ráðuneytið heimild lögreglu til þess að slíta skemmtun í X hinn 20. júlí 1990 hafa byggst á 7. gr. reglugerðar nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, og á 1. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn.

1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 587/1987 hljóðar svo:

„Nú telur lögreglumaður sem annast löggæslu á skemmtistað reglu á skemmtun þannig að eigi sé fært að halda henni áfram og er honum þá heimilt að ákveða að skemmtun skuli slitið. Er gestum þá skylt að yfirgefa skemmtistaðinn.“

Með hliðsjón af markmiði og fyrirmælum laga nr. 56/1972 og laga nr. 120/1947, sem reglugerðin er sett með stoð í, þykir bera að skýra umrætt ákvæði svo, að það heimili lögreglu því aðeins að slíta skemmtun að á skemmtistað séu óspektir eða óreiða, enda sé talið vandkvæðum bundið að koma á reglu með vægari úrræðum.

Lögreglumenn gáfu samkvæmt framansögðu fyrirmæli um það laust eftir miðnætti aðfaranótt 21. júlí 1990, að gestum skyldi vísað út og samkomu slitið á veitingastaðnum X. Aðstaðan var þá sú, að A hafði þá verið sviptur leyfi til að veita áfengi á veitingastaðnum, en hann hafði þá enn leyfi til að halda þar skemmtanir. Eins og rakið hefur verið hér að framan, liggja ekki fyrir eins rækilegar skýrslur um áfengislagabrot á veitingastaðnum og æskilegt verður að teljast. Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu lögregluvarðstjóra var ölvun ekki mikil og engin gögn liggja fyrir um, að samkoman þar hafi verið í upplausn. Verður þess vegna ekki litið svo á, að viðhlítandi gögn liggi fyrir um, að skilyrði hafi verið til að neyta svo harkalegs úrræðis að slíta umræddri skemmtun samkvæmt 1. gr. laga nr. 56/1972 eða 7. gr. reglugerðar nr. 587/1987 vegna óreiðu á veitingastaðnum.

Á grundvelli 1. gr. laga nr. 56/1972 svo og 2. málsliðar 34. gr. laga nr. 74/1974 var lögreglumönnum tvímælalaust heimilt að koma í veg fyrir ólögmætar áfengisveitingar á veitingastaðnum X. Ekki hefur hins vegar verið leitt í ljós, að í því skyni hafi verið nauðsynlegt að rýma veitingastaðinn og slíta skemmtun þar. Bar að grípa til vægari ráðstafana, sem tækar voru og gátu komið að gagni, svo sem með því að leggja hald á áfengi eða innsigla það. Ber hér að hafa í huga, að í skýrslu eftirlitsmanna vínveitingahúsa, dags. 20. júlí 1990, segir m.a.: „Það skal tekið fram að búið var að loka börunum og ganga frá áfenginu er lögreglan kom á staðinn“.“

IV.3.

Niðurstaða mín varðandi synjun á töku lögregluskýrslu var svohljóðandi:

„Í þriðja lagi kvartar A yfir því, að sér og starfsmönnum sínum hafi verið synjað um að gefa skýrslu hjá lögreglu laugardaginn 21. júlí 1990, vegna ásakana um að brotið hafi verið gegn áfengislöggjöfinni á veitingastaðnum X hinn 20. júlí 1990. Eins og fram kemur í kafla IV.-1 hér að framan, var rannsókn af þessu tilefni ekki eins ítarleg og efni stóðu til. Hins vegar verður ekki séð, að neitt hafi verið því til fyrirstöðu, að A gerði grein fyrir máli sínu í skriflegri skýrslu og afhenti lögregluyfirvöldum. Gefur kvörtun A að þessu leyti ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.“

IV.4.

Um afturköllun vínveitingaleyfis sagði svo:

„A kvartar yfir því, að ekki hafi verið fyrir hendi lagaskilyrði til þess að afturkalla vínveitingaleyfið fyrir veitingastaðinn X hinn 20. júlí 1990. Þá kvartar hann yfir því, að afturköllunin hafi ekki verið rökstudd.

Með afturköllun er í stjórnsýslurétti átt við þá stjórnvaldsákvörðun, þegar stjórnvald tekur að eigin frumkvæði aftur lögmæta ákvörðun sína, sem þegar hefur verið birt. Undirbúningi og meðferð slíks máls ber að öllu jöfnu að haga eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar. Þegar afturkölluð eru leyfi, sem eru forsenda atvinnurekstrar á tiltæku sviði, verður almennt að gera strangar kröfur til þess, að réttarheimild sú, sem afturköllun er byggð á, sé skýr.

Eitt af skilyrðum þess að heimilt sé að veita leyfi til áfengisveitinga er, að veitingastaður teljist fyrsta flokks, að því er snertir húsakynni, sbr. 1. mgr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989. Samkvæmt skýrslum heilbrigðisfulltrúa, dags. 19. júlí 1990, uppfyllti veitingastaðurinn ekki þær kröfur, sem heilbrigðiseftirlitið gerir til veitingahúsa. Þessu mati heilbrigðisyfirvalda var ekki hnekkt með því að bera það undir stjórn Hollustuverndar ríkisins og úrskurðarnefnd, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Matsnefnd vínveitingahúsa taldi veitingastaðinn heldur ekki uppfylla umrædd skilyrði laga, sbr. bréf nefndarinnar, dags. 20. júlí 1990. Matsnefndin benti jafnframt á, að skilyrði, sem sett voru fyrir veitingu bráðabirgðaleyfisins, hefðu ekki öll verið uppfyllt, en skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 82/1969, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989, er það í verkahring matsnefndar vínveitingahúsa að meta, hvort veitingastaður teljist 1. flokks að því er til húsnæðis tekur.

Samkvæmt framansögðu verður því að telja, að á grundvelli 4. mgr. 12. gr. laga nr. 82/1969, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989, hafi lögreglustjóra verið heimilt að afturkalla vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn X, þar sem veitingastaðurinn uppfyllti ekki það skilyrði að teljast fyrsta flokks, að því er snerti húsakynni, sbr. 1. mgr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989.

Í kvörtun A er ekki vikið að málsmeðferð við afturköllun leyfisins, þ.m.t. andmælarétti hans. Ekki verður séð af gögnum málsins, að A hafi verið veitt færi á að tjá sig, áður en ákvörðun var tekin um afturköllun vínveitingaleyfisins, svo sem rétt hefði verið, þar sem um mikilvæga hagsmuni hans var að ræða. Hins vegar er vafasamt, að sá annmarki leiði til ógildingar ákvörðunarinnar, eins og hér stendur á.

Þá kvartar A yfir því, að bráðabirgðavínveitingaleyfið, sem hann fékk 15. mars 1990, hafi verið afturkallað af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík 20. júlí 1990, án þess að afturköllunin væri rökstudd eða vísað til lagaákvæða, sem afturköllunin byggðist á.

Hér á landi hafa ekki verið sett almenn stjórnsýslulög, sem hafa að geyma grundvallarreglur um málsmeðferð hjá stjórnvöldum, þ. á m. reglur um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana, en í ársskýrslum mínum (SUA 1989:7, 1990:5 og 1991:166) hef ég vakið máls á brýnni þörf slíkra laga. Ekki er heldur fyrir að fara sérákvæðum í lögum, sem mæla fyrir um það, að rökstyðja beri afturköllun vínveitingaleyfa. Af úrlausnum dómstóla og meginreglum laga verður heldur ekki ráðið, að ótvíræð almenn skylda sé til þess fyrir lægra sett stjórnvald að láta rökstuðning fylgja ákvörðunum, þegar þær eru birtar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík er þeirri starfsreglu þó almennt fylgt hjá embættinu að rökstyðja stuttlega afturkallanir, þegar því verður við komið. Tel ég, að það sé í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að láta rökstuðning fylgja slíkum ákvörðunum, þegar þær eru birtar, þar sem um svo mikilvægar og íþyngjandi ákvarðanir er að ræða fyrir málsaðila.

Þegar íþyngjandi ákvarðanir eru ekki rökstuddar eða rökstuðningur ekki nægjanlega skýr, verður að telja, að málsaðili eigi yfirleitt rétt á því að fá stuttar skýringar hjá því stjórnvaldi, sem hlut á að máli, á hvaða réttarheimild og meginsjónarmiðum ákvörðun máls hefur byggst.

Rökstuðningurinn fyrir afturköllun umrædds vínveitingaleyfis hljóðar svo:

„Embættið hefur nú fengið í hendur umsögn matsnefndar áfengisveitingahúsa, dags. í dag. Kemur þar fram, að matsnefndin telji veitingastaðinn að [X] og [Y] ekki uppfylla þau skilyrði sem nefndin gerir af sinni hálfu til áfengisveitinga.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið eru eigi lengur lagaskilyrði fyrir áframhaldandi gildi leyfis yðar til áfengisveitinga í veitingahúsinu [X] og [Y], sem út var gefið 15. mars s.l., og er það því hér með úr gildi fellt.“

Af rökstuðningi lögreglustjórans í Reykjavík þykir koma nægjanlega skýrt fram, að umrætt áfengisleyfi hafi verið fellt úr gildi á grundvelli umsagnar matsnefndar vínveitingahúsa, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu, að umræddur veitingastaður uppfyllti ekki lagaskilyrði til þess að hafa vínveitingaleyfi. Hins vegar ber að fallast á það með dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, að réttara hefði verið að vísa til lagaheimildar afturköllunarinnar, þ.e. 4. málsliðar 4. mgr. 12. gr. laga nr. 82/1969, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1989, en þar segir, að fella skuli leyfi úr gildi, uppfylli veitingamaður ekki lengur sett skilyrði. Þá tel ég, að geta hafi átt þess skilyrðis, sem á skorti að veitingastaðurinn uppfyllti. Með hliðsjón af gildandi réttarreglum um rökstuðning tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda við þennan þátt kvörtunarinnar.“

IV.5.

Um afturköllun skemmtanaleyfis sagði svo í álitinu:

„A kvartar einnig yfir því, að ekki hafi verið fyrir hendi lagaskilyrði til þess að afturkalla skemmtanaleyfið hinn 21. júlí 1990. Þá kvartar hann einnig yfir því, að afturköllunin hafi verið haldin verulegum annmarka, þar sem hún hafi ekki verið rökstudd.

Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, segir svo:

„Lögreglustjóri getur hvenær sem er afturkallað almennt skemmtanaleyfi fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma, svo sem

a) ef regla er eigi nægilega góð,

b) ef brotnar eru reglur sem um reksturinn gilda, og

c) ef sérstakar ástæður mæla gegn því að skemmtun fari fram.“

Í rökstuðningi fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík fyrir afturköllun skemmtanaleyfisins kemur ekki fram, af hvaða ástæðu skemmtanaleyfið var afturkallað.

Í umsögn lögreglustjóra til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 31. júlí 1990, segir meðal annars svo:

„Afturköllun skemmtanaleyfisins er byggð á heimild í 12. gr. reglugerðar nr. 587 frá 1987 og verður ekki annað séð en að skilyrði afturköllunar skv. 12. gr. hafi verið fyrir hendi í þessu tilfelli, þ.e. stafliðir a), b) og c).“

Grundvöllur afturköllunar skemmtanaleyfisins er þar ekki frekar skýrður í umsögn lögreglustjóra.

Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1990, segir svo um þetta atriði:

„Ráðuneytið telur og að fullt tilefni hafi verið til þess samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987 að afturkalla almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastaðinn.“

Í úrskurði ráðuneytisins er ekki vikið frekar að skemmtanaleyfinu né ástæðum afturköllunarinnar.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 4. maí 1992, segir:

„Lögreglustjóri getur hvenær sem er afturkallað [skemmtanaleyfi] fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma. Í greininni eru nefndar þrjár ástæður, en þær eru eingöngu nefndar sem dæmi. Afturköllun lögreglustjóra vísaði almennt til 12. gr. reglugerðarinnar. Heimild til afturköllunar er almenns eðlis. Telur ráðuneytið að með tilvísun til lagagreinarinnar felist almenn tilvísun til þeirra ástæðna sem þar eru tilgreindar og að ekki þurfi að vera um sérgreindar ástæður að ræða.“

Afturköllun skemmtanaleyfis er íþyngjandi ákvörðun og snertir mikilvæga hagsmuni þess, sem veitingahús rekur. Slík ákvörðun verður að vera byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og eiga sér viðhlítandi stoð í lögum. Verður því ekki fallist á þá skoðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að „ekki þurfi að vera um sérgreindar ástæður að ræða“, eins og segir í bréfi ráðuneytisins, dags. 4. maí 1992. Tel ég tvímælalaust, að afturköllun skemmtanaleyfis verði að vera byggð á tilgreindum og sannanlegum atvikum, sem að lögum geta leitt til afturköllunar.

Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987 er getið um þrjár ástæður til afturköllunar. Í gögnum málsins er ekki að finna neinar skýringar eða gögn, sem af megi draga þá ályktun, að afturköllun skemmtanaleyfisins verði byggð á a- eða c-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987. Í b-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987 segir hins vegar, að afturkalla megi skemmtanaleyfi, „ef brotnar eru reglur sem um reksturinn gilda“. Kemur þá til athugunar hvort skýrslur eftirlitsmanns vínveitingahúsa, dags. 20. júlí 1990, og lögreglu, dags. 21. júlí 1990, um ólöglega áfengissölu á almennri skemmtun í veitingahúsinu X hinn 20. júlí 1990 hafi verið nægur grundvöllur til afturköllunar.

Þegar afturköllun opinbers leyfis er byggð á brotum á öðrum reglum en þeim, er mæla fyrir um skilyrði til að fá leyfið, verður að líta á afturköllunina sem refsikennd viðurlög. Ganga verður út frá þeirri grundvallarreglu, að enginn verði beittur refsikenndum viðurlögum, nema þau eigi sér skýra stoð í lögum. Í 8. og 11. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn og lögum nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma, er ekki fyrir að fara slíkri lagaheimild. Verður því að telja, að í b-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, felist ekki nægjanleg heimild til þess að afturkalla skemmtanaleyfi í tilefni af brotum á öðrum réttarreglum en þeim, er mæla fyrir um þau skilyrði, sem uppfylla þarf til að fá skemmtanaleyfi.

Þar sem lögregluyfirvöld hafa ekki gert grein fyrir þeim málsatvikum, er þau byggðu afturköllun skemmtanaleyfisins á, og þau verða heldur ekki ráðin af gögnum þeim, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður ekki séð, að nægjanleg heimild hafi verið til þess að afturkalla skemmtanaleyfið.

Þá ber þess einnig að geta, að ekki verður séð af gögnum málsins, að nein rannsókn hafi legið til grundvallar afturköllun skemmtanaleyfisins. Ekki kemur heldur fram, að málsaðila hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið, áður en skemmtanaleyfið var afturkallað. Verður þó að telja að sérstök ástæða hafi verið til þess, eins og málið var vaxið.

Rökstuðningur afturköllunar fyrrgreinds skemmtanaleyfis, hljóðar svo:

„Það tilkynnist hér með, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur afturkallað skemmtanaleyfi fyrir veitingahúsið [X] hér í borg, sbr. heimild í 12. gr. reglugerðar nr. 587 frá 1987. Skemmtun, sem aðgangur er seldur að, má því ekki standa lengur en til kl. 23.30 í veitingahúsinu, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar.“

Að mínum dómi hefði verið rétt, að í rökstuðningi væri getið þeirra málsatvika, sem talin voru réttlæta afturköllun leyfisins, svo og vísað til þess stafliðar 12. gr. reglugerðar nr. 587/1987, sem afturköllunin var byggð á. Með hliðsjón af gildandi réttarreglum um rökstuðning tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda við þennan þátt kvörtunarinnar.“

IV.6.

Þá taldi ég, að lagaákvæði um skemmtanaleyfi væru afar ófullkomin og að nauðsynlegt væri, að reglugerð nr. 587/1987 hefði skýra lagastoð. Vakti ég athygli á þessu sem meinbugum á lögum skv. 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis:

„Reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, er sett með stoð í 8. og 11. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn og 1. gr. laga nr. 120/1947 um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma. Ég tel, að umrædd lagaákvæði séu afar ófullkomin. Þar sem ákvæði reglugerðar nr. 587/1987 geta í sumum tilvikum verið mjög íþyngjandi í garð borgaranna, er nauðsynlegt að reglugerðin hafi skýra lagastoð. Þá verður að telja, að mörg af ákvæðum reglugerðarinnar sé eðlilegra að hafa í lögum en í reglugerð. Tel ég því þörf á, að í lög verði sett, í hvaða tilvikum þurfi skemmtanaleyfi, hvaða almenn skilyrði þurfi að uppfylla til þess að fá skemmtanaleyfi, hvaða sérstökum skilyrðum heimilt sé að binda skemmtanaleyfi, í hvaða tilvikum afturkalla megi slíkt leyfi og hvaða heimild lögregluyfirvöld skuli hafa til að slíta skemmtunum. Þá tel ég, ef ætlunin er að láta leyfishafa greiða einhvern kostnað af löggæslu, að æskilegt sé að setja mun skýrari og ítarlegri reglur um það en nú koma fram í 8. gr. laga 56/1972 um lögreglumenn. Tel ég ástæðu til að vekja athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra á því máli, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.“

IV.7.

Meginatriði niðurstaðna minna dró ég saman á svofelldan hátt í álitinu:

„Samkvæmt því, sem rakið hefur verið hér að framan, tel ég, að ekki sé tilefni til þess að gagnrýna rökstuðning fyrir afturköllun lögreglustjórans í Reykjavík á vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn X. Ég tel hins vegar, að rannsókn á hugsanlegum brotum starfsmanna veitingastaðarins á áfengislöggjöfinni hinn 20. júlí 1990 hafi ekki verið eins ítarleg og efni stóðu til. Þá tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á, að réttmætt hafi verið að grípa til svo harkalegra aðgerða að slíta skemmtun á veitingastaðnum í umrætt sinn. Ennfremur tel ég, að ekki liggi fyrir nægjanleg gögn um það, að skilyrði hafi verið til þess að afturkalla skemmtanaleyfi fyrir veitingastaðinn X. Rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu hefði og átt að vera gleggri. Loks tel ég, að lagaákvæði um skemmtanaleyfi séu afar ófullkomin, og er álit þetta því sent forseta Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra af því tilefni, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 11. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.“

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Í framhaldi af framangreindu áliti mínu, barst mér bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 17. desember 1992, og hljóðar það svo:

"Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, herra umboðsmaður, dags. 27. nóvember sl., sem fylgdi álit yðar í tilefni af kvörtun [A].

Í tilefni þessa vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Álitið hefur verið sent lögreglustjóranum í Reykjavík með ósk um að athugasemdir sem þar koma fram og varða lögreglustjórnina verði teknar til gaumgæfilegrar athugunar og að tillit verði tekið til þeirra við meðferð mála við embættið. Jafnframt hefur ráðuneytið minnt á bréf sem áður hafa verið send lögreglustjóra, dags. 13. ágúst 1990 og 10. janúar sl., og varða eftirlit með og aðhald að starfsemi veitinga- og gististaða.

Álit yðar og tilgreind bréf til lögreglustjórans í Reykjavík hefur ráðuneytið einnig sent öðrum lögreglustjórum til leiðbeiningar um meðferð mála. Afrit bréfa þessara fylgja hér með til upplýsinga.

Að því er varðar ábendingar yðar um meinbugi á lögum skal tekið fram að nefnd á vegum ráðuneytisins vinnur nú að endurskoðun laga um lögreglumenn. Ábendingum sem varða þau lög hefur ráðuneytið komið á framfæri við nefndina. Aðrar ábendingar er varða nauðsyn lagaákvæða um skemmtanastarfsemi munu einnig verða teknar til athugunar við hentugleika."