Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Embættismaður. Mat á hæfni umsækjenda. Hæfnisnefnd.

(Mál nr. 11284/2021)

Kvartað var yfir skipun dómsmálaráðherra á lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra og taldi viðkomandi að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið skipaður. Gerðar voru athugasemdir við að ráðherra hefði ekki lagt fullnægjandi grunn að ákvörðun um að skipa annan í embættið í ljósi þess að hæfnisnefnd hefði metið hann hæfastan. Einnig lutu athugasemdir að því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki leiðbeint um að óska mætti eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og sá rökstuðningur sem veittur var hefði verið ófullnægjandi og gögn málsins ekki borist þrátt fyrir beiðni þar um. 

Umboðsmaður benti á að niðurstaða hæfnisnefndar sé ráðgefandi og hlutaðeigandi ráðherra beri ábyrgð á ráðningarferli, þ.á m. að reglum stjórnsýsluréttar sé fylgt við ákvörðunina. Af umsögn hæfnisnefndar yrði ráðið að bæði viðkomandi og sá sem var skipaður uppfylltu hæfniskröfur. Þótt nefndin hefði metið þann fyrrnefnda mjög vel hæfan og hinn vel hæfan yrði í ljósi gagna málsins og málsmeðferðar ráðuneytisins ekki talið að efni væru til að gera athugsemdir við það mat þess að þeir væru jafn hæfir. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en lagður hefði verið fullnægjandi grunnur að ákvörðun ráðherra um skipun í embættið.

Þrátt fyrir að viðkomandi hefði ekki verið leiðbeint um heimild sína til að fá ákvörðun ráðherra rökstudda þegar hún var tilkynnt barst honum rökstuðningur samkvæmt beiðni síðar og því ekki tilefni til að taka það til nánari athugunar eða gera athugasemdir við efni rökstuðningsins. Þar sem ráðuneytið boðaði að gögn málsins yrðu afhent var ekki heldur ástæða til að fjalla nánar um það.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

 

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. september sl. yfir því að dómsmálaráðherra hafi skipað annan umsækjanda en yður lögreglustjórann á Norðurlandi vestra. Kvörtunin byggist á því að þér hafið verið hæfastur umsækjenda um embættið. Gerið þér athugasemdir við að ráðherra hafi ekki lagt fullnægjandi grunn að þeirri ákvörðun að skipa annan umsækjanda en yður í embættið í ljósi þess að hæfnisnefnd hafði áður metið yður hæfastan. Einnig lúta athugasemdir yðar að því að dómsmálaráðuneytið hafi ekki leiðbeint yður um að þér gætuð óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þegar yður var tilkynnt um hana, að sá rökstuðningur sem yður var veittur hafi verið ófullnægjandi og að yður hafi ekki borist gögn málsins þrátt fyrir beiðni þar um.

Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust gögn málsins frá ráðuneytinu 15. október sl.

   

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi skipa í embætti, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern átti að skipa lögreglustjórann á Norðurlandi vestra, heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun ráðherra hafi verið lögmæt, þ.á m. hvort ákvörðun ráðherra hafi byggst á málefnalegum ástæðum og fullnægjandi grunni að teknu tilliti til þess að hæfnisnefnd hafði metið yður hæfastan umsækjenda.

Sem fyrr greinir var það niðurstaða nefndar, sem ráðherra skipaði til að meta hæfni umsækjenda um embættið, að þér stæðuð öðrum umsækjendum framar og væruð mjög vel hæfur til að gegna embættinu. Það var einnig mat nefndarinnar að B, sem síðar var skipaður í embættið af ráðherra, kæmi næstur á eftir yður í röð umsækjenda og væri vel hæfur. Byggðist mat nefndarinnar á umsóknargögnum og viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila, en skráðar upplýsingar um efni viðtalanna liggja fyrir. Einnig liggur fyrir að B gerði 25. maí sl. ítarlegar athugasemdir við umsagnardrög nefndarinnar sem hann taldi haldin „verulegum annmörkum“. Líkt og rakið er í 9. kafla umsagnarinnar 4. júní sl. tók nefndin tillit til athugasemda hans að hluta án þess að það hefði áhrif á framangreinda niðurstöðu hennar.

Í ítarlegu minnisblaði ráðuneytisstjóra til ráðherra 15. júlí sl. var rakið að í framhaldi af því að umsögn nefndarinnar lá fyrir hefði ráðuneytið farið yfir gögn málsins og metið umsögnina í þeim tilgangi að ákveða hverjir kæmu helst til greina í embættið. Á þeim grunni hefði verið ákveðið að boða yður, B og einn annan umsækjanda í viðtal. Í minnisblaðinu var rakið að það hefði verið mat ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna ráðherra, sem hefðu verið viðstaddir viðtölin, að B hefði „skarað fram úr í viðtalinu“, en þér hefðuð komið næstur, en meðal fyrirliggjandi gagna eru skráðar upplýsingar um efni viðtalanna. Um viðtölin sagði nánar í fyrrgreindu minnisblaði að B „hefði haft skýra sýn á þær áskoranir sem væru framundan hjá embættinu og hefði lagt megináherslu á gott samstarf og samvinnu, þar með talið við starfsmenn embættisins og á vettvangi lögregluráðs. Í viðtalinu [hefði komið] skýrt fram hvernig B myndi nýta fjölbreytta og víðtæka starfsreynslu sína sem lögreglustjóri og [hefði hann sýnt] mikinn áhuga og metnað til þess að gegna starfi lögreglustjóra.“

Í minnisblaðinu var því næst rakið að ráðuneytið hefði borið saman umsækjendur í kjölfar viðtalanna. Í niðurlagi þeirrar umfjöllunar sagði að ráðuneytið teldi að B og þér stæðuð fremstir umsækjenda eftir að umsóknargögn, umsögn hæfnisnefndar og frammistaða umsækjenda í viðtölum hefði verið metin. Tölvubréf 22. júní sl. frá starfsmanni ráðuneytisins til m.a. ráðuneytisstjóra ber einnig vitni um þessa vinnu innan ráðuneytisins. Þar var ítarlega fjallað um umsögn hæfnisnefndarinnar, þ.á m. ágalla hennar að mati téðs starfsmanns. Af tölvubréfinu verður ekki annað ráðið en að í því hafi að hluta verið fallist á fyrrgreindar athugasemdir sem B hafði gert við umsagnardrög nefndarinnar.

Svo sem fyrir liggur og rakið er í minnisblaðinu ákvað ráðuneytið því sama dag að óska eftir því að þér gerðuð skriflega grein fyrir framtíðarsýn yðar um embættið og lýstuð reynslu yðar og þekkingu af störfum innan stjórnsýslunnar með tilliti til þess hvernig ætla mætti að sú starfsreynsla nýttist í embættinu. Einnig var upplýst um að ráðuneytið hygðist hafa samband við núverandi eða fyrrverandi yfirmenn yðar, óháð því hvort þeir hefðu verið nefndir sem umsagnaraðilar í umsóknum, til þess að leggja mat á forystu-, samvinnu- og samskiptahæfni yðar. Greinargerðir yðar beggja, sem ráðuneytið veitti tæplega þriggja daga frest til að skila, liggja fyrir sem og skráðar upplýsingar um viðtöl ráðuneytisins við téða umsagnaraðila og viðbrögð yðar við því sem þar kom fram.

Í minnisblaði ráðuneytisstjóra 15. júlí sl. var því næst fjallað ítarlega um samanburð umsóknar yðar og B með tilliti til hvers matsþáttar fyrir sig að fengnum viðbótargögnum frá yður og frekari upplýsingum frá umsagnaraðilum. Var það afstaða ráðuneytisstjóra samkvæmt minnisblaðinu að ekki væri tilefni til þess að gera greinarmun á hæfni yðar og B til þess að gegna embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Báðir ættuð þér langan feril innan lögreglunnar, þér hefðuð tekist á við fjölbreytt verkefni á starfsferlinum og hefðuð leitað framhaldsmenntunar til að eflast í starfi. Þér væruð báðir mjög vel hæfir til þess að gegna embættinu.

Þá sagði að ráðuneytið teldi, að fenginni framangreindri niðurstöðu, æskilegt að líta til þeirra áherslna sem B hefði lagt á samstarf og samvinnu, m.a. á vettvangi lögregluráðs, sem hefði komið skýrt fram í viðtalinu við hann, í framtíðarsýn hans og umsögnum umsagnaraðila. Framtíðarsýn hans hefði verið ígrunduð og skýrlega fram sett og hefði hann lýst vel sýn sinni á hlutverk lögreglu og lögreglustjóra. Umsagnir um B bæru með sér framúrskarandi samskiptahæfni hans og að hann hefði ótvíræða hæfni til þess að leiða fólk að niðurstöðu, hann hefði verið faglegur í sínum störfum og hefði drifkraft og sýn til þess að „taka embættið áfram“. Í viðtalinu við B hefði samskiptahæfni hans komið skýrt fram sem og áhugi hans og metnaður til þess að gegna embættinu.

Það var svo sem fyrr greinir niðurstaða ráðherra að skipa B lögreglustjórann á Norðurlandi vestra 16. júlí sl. og var yður tilkynnt um það sama dag.

  

2

Í 39. gr. b laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um að ráðherra geti falið sérstakri hæfnisnefnd þriggja manna að meta hæfni umsækjenda um starf forstöðumanns og er niðurstaða hennar ráðgefandi. Í athugasemdum við 2. tölulið g-liðar 1. töluliðar 8. gr. þess frumvarps er varð að lögum nr. 130/2016, um kjararáð, sem lögfesti fyrrgreint ákvæði laga nr. 70/1996, er áréttað að niðurstaða nefndarinnar sé ráðgefandi og það sé hlutaðeigandi ráðherra sem beri ábyrgð á ráðningarferlinu, þ.á m. að reglum stjórnsýsluréttar sé fylgt við ákvörðunina. Hann beri ábyrgð á öllum ákvörðunum í ráðningarferlinu, svo sem hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við ákvörðunartökuna, vægi þeirra sjónarmiða, hverjir verði kallaðar í viðtöl o.s.frv. Þá segir að ætla verði að veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður verði að vera fyrir hendi ætli ráðherra að horfa fram hjá áliti hæfnisnefndar. Álit hæfnisnefndar geti þó ekki komið í veg fyrir sjálfstætt mat ráðherra heldur verði hluti af þeim þáttum sem hann skal byggja mat sitt á (sjá þskj. 7 á 146. löggj.þ. 2016-2017, bls. 28). Að lagagrundvelli nefndarinnar virtum er ekki girt fyrir að ráðherra, sem veitingarvaldshafi samkvæmt 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, skipi annan umsækjanda en þann sem hæfnisnefnd hefur metið hæfastan, svo fremi sem lagður er fullnægjandi grunnur að þeirri ákvörðun og hún samræmist lögum að öðru leyti.

Af umsögn hæfnisefndarinnar verður ráðið að það hafi verið mat hennar að bæði þér og B uppfylltuð kröfur til að verða skipaðir í embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Þótt nefndin hafi metið yður mjög vel hæfan en B vel hæfan verður í ljósi gagna málsins og þess sem rakið er að framan um málsmeðferð ráðuneytisins ekki talið að efni séu til að gera athugasemdir við það mat þess að þér væruð jafnhæfir. Af fyrirliggjandi gögnum, þ.á m. þeim upplýsingum sem liggja fyrir um viðtöl við yður, viðbótargögnum sem ráðuneytið aflaði og umfjöllun þess um umsögn nefndarinnar, verður ekki annað ráðið en að lagður hafi verið fullnægjandi grunnur að ákvörðun ráðherra um að skipa B í embættið.

Samkvæmt framangreindu tel ég ekki fyrir hendi upplýsingar sem benda til þess að ákvörðun ráðherra hafi ekki samræmst lögum. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa verður stjórnvaldi við ákvörðun um hvern beri að skipa í embætti tel ég því ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar.    

  

3

Gögn málsins bera með sér að yður var ekki leiðbeint um heimild yðar samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að fá ákvörðun ráðherra rökstudda þegar hún var tilkynnt yður 16. júlí sl. Þrátt fyrir það liggur fyrir að með bréfi 5. ágúst sl. barst yður rökstuðningur samkvæmt beiðni yðar þar um og tel ég því ekki nægilegt tilefni til að taka þetta atriði málsins, eitt og sér, til nánari athugunar eða til að gera athugasemdir við efni rökstuðningsins.

Samkvæmt kvörtun yðar höfðu yður þá ekki enn borist gögn málsins þótt þér hefðuð beðið um afrit af þeim samhliða beiðni yðar um rökstuðning 19. júlí sl. Í svari ráðuneytisins 22. þess mánaðar var yður þó svarað þannig að gögnin yrðu afhent yður. Af þeim sökum og í ljósi framangreindrar niðurstöðu minnar tel ég rétt að þér ítrekið beiðni yðar um aðgang að gögnum málsins, hafið þér ekki enn fengið afrit þeirra í hendur, áður en umboðsmaður Alþingis fjallar nánar um þennan þátt málsins. Þess skal getið að verði frekari tafir á afhendingu gagnanna eða þér teljið að upplýsingaréttur yðar samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga hafi verið takmarkaður í andstöðu við lög getið þér leitið til umboðsmanns á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.