Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11465/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna. 

Erindinu hafði ekki verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. yfir ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 sem var tilkynnt 17. september sl. og staðfest 14. desember sl.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skal Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Fjallað er um framkvæmd frádráttar vegna ofgreiðslu bóta í 55. gr. laganna. Í 13. gr. laganna er mælt fyrir um að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurð rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af kvörtun yðar verður ráðið að afstaða úrskurðarnefndar velferðarmála til endurreiknings tekjutengdra greiðslna og innheimtu ofgreiddra bóta liggi ekki fyrir. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Farið þér þá leið að freista þess að bera ákvörðun Tryggingastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.