Heilbrigðismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11482/2022)

Kvartað var yfir röksemdum sem sóttvarnalæknir hafði haldið fram í máli fyrir Landsrétti sem hefðu hvorki samræmst opinberum yfirlýsingum hans um COVID-19 né tillögum hans til heilbrigðisráðherra á sama tíma og málið var til meðferðar.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla og því ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina hvað það snerti. Hvað laut að ábendingum um starfshætti sóttvarnalæknis taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla um þær. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. janúar sl. yfir því að sóttvarnalæknir hafi haldið fram röksemdum við rekstur landsréttarmálsins nr. 8/2022 sem hafi hvorki samræmst opinberum yfirlýsingum hans um COVID-19 né tillögum hans til heilbrigðisráðherra að breyttum reglum um sóttkví á sama tíma og málið var til meðferðar.

Með úrskurði 7. janúar sl. í fyrrgreindu máli staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms þar sem ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví yðar var staðfest. Þá liggur fyrir að síðar sama dag og úrskurður Landsréttar var kveðinn upp var reglugerð nr. 3/2022, um breytingu á reglugerð nr. 1240/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19, birt í B-deild Stjórnartíðinda. Með þeirri reglugerð voru gerðar breytingar á reglum um sóttkví þríbólusettra einstaklinga, svo sem á við um yður.

Samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Í ákvæðinu felst að umboðs­maður endurskoðar hvorki niður­stöður dóms né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Í kvörtun yðar er þó lögð áhersla á að hún lúti að atriðum sem hafi ekki komið til skoðunar hjá dómstólum. Um það er vísað til þess að mikilvægasta atriði kvörtunarinnar sé fyrrgreind reglugerð sem hafi verið birt eftir að dómsmálið var leitt til lykta. Hvað sem þessum sjónarmiðum líður verður ekki annað ráðið af kvörtuninni en að sá hluti hennar sem beinlínis snertir hagsmuni yðar varði röksemdir sóttvarnalæknis til stuðnings þeirri dómkröfu sem leyst var úr fyrir Landsrétti og dómstólar hafa þannig tekið efnislega afstöðu til. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Að öðru leyti verður litið svo á að í kvörtun yðar felist ábendingar um starfshætti sóttvarnalæknis sem þér teljið tilefni til að umboðsmaður Alþingis taki að eigin frumkvæði til athugunar á grundvelli 5. gr. fyrrgreindra laga um umboðsmann. Af því tilefni bendi ég á að samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga nr. 19/1997 er það hlutverk sóttvarnalæknis að gera tillögur til ráðherra um hvort gripið skuli til sóttvarnaráðstafana. Endanlegt mat á því hvort og að hvaða marki gripið skuli til slíkra ráðstafana er þó í höndum ráðherra sem ber við mat sitt að gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til annarra verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, sbr. 3. mgr. 12. gr. téðra laga.

Fyrir liggur að þær takmarkanir sem ráðherra hefur mælt fyrir um í reglugerðum um einangrun og sóttkví vegna COVID-19 hafa tekið ýmsum breytingum og þá m.t.t. stöðu faraldursins hér á landi, eins og hún hefur verið metin hverju sinni. Hafa fyrirhugaðar breytingar á sóttvarnaráðstöfunum eðli málsins samkvæmt að jafnaði verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í aðdraganda þeirra, m.a. þannig að fyrirspurnum fjölmiðla hefur verið beint til sóttvarnalæknis og hann eftir atvikum svarað þeim og veitt upplýsingar. Þótt sóttvarnalæknir, sem er starfsmaður landlæknisembættisins, kunni að upplýsa um fyrirhugaðar tillögur sínar til ráðherra á þá leið að hann muni leggja til breytingar við hann, verður almennt ekki séð að það sé í ósamræmi við lögákveðið hlutverk hans og stöðu sem starfsmanns lægra setts stjórnvalds að hann framfylgi gildandi reglum um sóttvarnir á hverjum tíma í samræmi við nánara efni þeirra. Að þessu gættu tel ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um ábendingar yðar að þessu leyti.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar.