Útlendingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11495/2022)

Óskað var liðsinnis umboðsmanns við að gera fjölskyldumeðlimum manns kleift að sameinast honum hér á landi.

Ekki var kvartað yfir tiltekinni  ákvörðun eða athöfn sem snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi og féll því ekki að hlutverki umboðsmanns að fjalla nánar um erindið. Benti hann á að leita mætti til Útlendingastofnunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til erindis yðar, sem barst 20. janúar sl., fyrir hönd A, en í því er aðstæðum hans lýst og óskað eftir aðstoð við að gera meðlimum í fjölskyldu hans kleift að sameinast honum hér á landi.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins, sbr. 2. gr. laganna. Í 2. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu stjórn­valda, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Til að umboðsmaður geti fjallað um mál í tilefni af kvörtun þarf hún því að beinast að tiltekinni ákvörðun eða athöfn.  

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að samkvæmt erindi yðar er ekki kvartað yfir tiltekinni ákvörðun eða athöfn sem snertir beinlínis hagsmuni A, heldur er þess óskað að umboðsmaður veiti honum tilgreinda aðstoð. Af þeim sökum og með vísan til þess sem er rakið að framan fellur það ekki að hlutverki umboðsmanns samkvæmt lögum nr. 85/1997 að fjalla nánar um erindi yðar.

Í ljósi erindis yðar er rétt að benda yður á að dómsmálaráðherra fer með mál er varða málefni útlendinga, sbr. 27. tölulið 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Útlendingastofnun er þá það stjórnvald sem tekur ákvarðanir um veitingu dvalarleyfa, þ.á m. vegna fjölskyldusameiningar, á grundvelli laga nr. 80/2016, um útlendinga, og eru ákvarðanir stofnunarinnar samkvæmt lögunum kæranlegar til kærunefndar útlendingamála, sbr. 7. gr. sömu laga. Ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að leita með erindið til framangreindra stjórnvalda. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð slíkt erindi ætti að hljóta.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.