Dómstólar og réttarfar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11499/2022)

Kvartað var yfir hvernig dómstólasýslan hefði brugðist við erindi vegna starfa aðstoðarmanns dómara í tengslum við dómsmál sem viðkomandi átti aðild að.

Stjórnsýsla dómstólanna fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns og því ekki skilyrði til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. janúar sl. yfir því hvernig dómstólasýslan brást við erindi yðar um störf aðstoðarmanns dómara í tengslum við dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem þér eigið aðild að, en dómstólasýslan leiðbeindi yður um að þér gætuð komið athugasemdum yðar á framfæri við dómstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnt ákvæði fellur það almennt utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu dómstólanna, sbr. t.d. skýrslu umboðsmanns Alþingis til Alþingis fyrir árið 2012, bls. 20.

Um dómstólasýsluna er fjallað í II. kafla laga nr. 50/2016, um dómstóla. Samkvæmt 5. gr. laganna er hún sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2016 kemur fram að lögð sé áhersla á að um sé að ræða sjálfstæða stofnun innan dómskerfisins en í því felist að hún lúti ekki boðvaldi annarra aðila innan dómskerfisins og sé eðli málsins samkvæmt óháð löggjafar- og framkvæmdarvaldi (sjá þskj. 1017 á 145. löggj.þ. 2015-2016, bls. 33).

Með vísan til þess sem rakið er að framan fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis að fjalla um kvörtun yðar yfir því hvernig dómstólasýslan brást við fyrrgreindu erindi yðar. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.