Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11500/2022)

Kvartað var yfir vinnubrögðum lögreglumanns.

Erindið hafði hvorki verið borið upp við nefnd um eftirlit með lögreglu né Persónuvernd og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. janúar sl. yfir vinnubrögðum tilgreinds lögreglumanns hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Kvörtunin byggist annars vegar á því að lögreglumaðurinn hafi verið ófagmannlegur þegar hann tók skýrslu af manni sem þér höfðuð kært til lögreglunnar og hins vegar að hann hafi brotið gegn persónuverndarlögum með því að nafngreina yður við skýrslutökuna.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Þá er kveðið á um það í 30. gr. laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, að sérhver skráður einstaklingur hafi rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann hjá lögbæru yfirvaldi brjóti í bága við ákvæði laganna.

Ástæða þess að framangreind ákvæði eru rakin er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggir á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki ákvæðinu hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Með vísan til þess sem hefur verið rakið hér að framan er rétt að þér berið athugasemdir yðar undir nefnd um eftirlit með lögreglu og Persónuvernd áður en þér leitið til umboðsmanns með kvörtun, sbr. fyrrgreind sjónarmið að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér ákveðið að freista þess að leita með athugasemdir yðar til þessara stjórnvalda getið þér leitað til umboðsmanns á ný að fenginni niðurstöðu þeirra ef þér teljið þá tilefni til þess.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.