Eignir ríkisins.

(Mál nr. 11503/2022)

Kvartað var yfir mismunun þar sem viðkomandi þyrfti að greiða hærri lóðarleigu en nágrannar hans.

Fyrir lá að lóðin sem viðkomandi leigði væri í eigu ríkisins ólíkt lóðum nágrannanna. Í kvörtuninni kom fram að erindi hefði verið sent til Ríkiseigna en ekki borist svar. Umboðsmaður benti viðkomandi á að ítreka erindi sitt þar áður en hann gæti tekið kvörtunina til meðferðar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. janúar sl. yfir mismunun þar sem yður er gert að greiða hærri lóðarleigu en nágrönnum yðar, en fyrir liggur að lóðin sem þér leigið er í eigu ríkisins en ekki lóðir nágranna yðar. Samkvæmt því sem greinir í kvörtuninni senduð þér 22. janúar 2021 fyrirspurn um málið til Ríkiseigna, nú Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE), en hafið ekki fengið svar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir að umboðsmaður tekur kvörtun að jafnaði ekki til meðferðar liggi ekki fyrir afstaða viðkomandi stjórnvalds til kvörtunarefnisins. Í samræmi við það tel ég rétt að þér freistið þess að ítreka erindi yðar til FSRE og fá formlega afstöðu stjórnvaldsins áður en þér leitið til umboðsmanns með kvörtun. Að fengnum viðbrögðum stjórnvaldsins getið þér leitið til mín á ný teljið þér þá ástæðu til þess. Ef stjórnvaldið bregst ekki við erindi yðar getið þér, að undangengnum ítrekunum á erindinu, leitið til mín með kvörtun þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.