Mannanöfn. Rökstuðningur.

(Mál nr. 595/1992)

A kvartaði yfir því að mannanafnanefnd hefði synjað um að dóttur hans yrði gefið nafnið Borghild. Umboðsmaður benti á að gerð væri sú krafa í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1991, að eiginnafn væri annaðhvort íslenskt eða hefði unnið sér hefð í íslensku máli. Að auki væri gerð sú krafa, að nafn mætti ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Taldi umboðsmaður að skilja bæri úrskurð mannanafnanefndar svo, að nafnið bryti í bág við íslenskt málkerfi. Taldi hann ekki rök til að gagnrýna þá niðurstöðu nefndarinnar. Hins vegar taldi umboðsmaður að gera hefði átt skýrari grein fyrir því í úrskurði nefndarinnar, að eiginnöfn mættu aldrei brjóta í bág við íslenskt málkerfi, ekki heldur nöfn, sem gætu talist hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Að því er rökstuðning úrskurðarins varðaði, taldi umboðsmaður, að þar sem úrskurðir nefndarinnar væru fullnaðarúrskurðir, sem ætlað væri að hafa fordæmisgildi og að nefndinni væri ætlað að birta árlega niðurstöður úrskurða sinna, hvíldi sú skylda á nefndinni að láta rökstuðning fylgja úrskurðum sínum. Þar sem úrskurðir þessir skyldu hins vegar kveðnir upp svo fljótt sem við yrði komið og ekki síðar en innan tveggja vikna frá því að mál barst nefndinni, féllst umboðsmaður á, að aðeins yrði gerð krafa til þess, að rökstuðningur fæli í sér stutta greinargerð um þau meginsjónarmið, sem réðu niðurstöðu úrlausnar, svo og tilvísun til þeirra réttarreglna, sem ákvörðun byggðist á. Loks kvartaði A yfir því að mannanafnalög nr. 37/1991 væru ósanngjörn. Þar sem lög nr. 13/1987 gera almennt ekki ráð fyrir því, að umboðsmaður fjalli um ákvarðanir Alþingis við lagasetningu, taldi umboðsmaður ekki skilyrði til þess að fjalla um þann þátt kvörtunarinnar.

I.

Hinn 6. apríl 1992 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því, að með bréfi, dags. 21. nóvember 1991, hefði mannanafnanefnd tilkynnt honum, að hún hefði á fundi sínum hinn 19. nóvember 1991 synjað um, að dóttur hans yrði gefið nafnið Borghild. Þá kvartaði A einnig yfir því, að mannanafnalög nr. 37/1991 væru ósanngjörn, þar sem þau fælu í sér mismunun milli barna íslenskra foreldra annars vegar og erlendra foreldra hins vegar.

II.

Með bréfi, dags. 10. apríl 1992, óskaði ég eftir því að mér yrðu látin í té gögn málsins, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987. Mér bárust gögnin frá mannanafnanefnd með bréfi, dags. 15. apríl 1992.

Hinn 15. nóvember 1991 rituðu A og B mannanafnanefnd svohljóðandi bréf: „Við undirrituð sækjum eftir samþykki nefndarinnar á nafni dóttur okkar.

Nafnið er Borghild [...] (A-dóttir).

Þess má geta að nafnið Borghild er nafn föðurmóður Borghild [...]. (...).

Ennfremur hefur nafn þetta verið notað í marga ættliði í fjölskyldunni.

Með von um jákvætt svar.“

Hinn 19. nóvember 1991 var málið afgreitt af mannanafnanefnd með svohljóðandi bókun:

„Ár 1991, þriðjud. 19. nóv., kom mannanafnanefnd saman til fundar að Hverfisgötu 6 í Rvík.

Fyrir var tekið:

Mál nr. 3/1991.

Mannanafnanefnd hefur borist umsókn frá [A] og [B] um að dóttur þeirra verði gefið nafnið Borghild.

Nafnið er endingarlaust. Alíslensk (norræn) nöfn eins og t.d. Ragnhildur og Þórhildur hafa endinguna --ur að fornu og nýju. Nafnið Borghild fellur ekki að þessari reglu og brýtur því í bág við ísl. málkerfi í skilningi 2. gr. laga nr. 37/1991 um mannanöfn.

Úrskurðarorð: Framangreind umsókn um að nafnið Borghild verði gefið, er hafnað.“

Með bréfi, dags. 21. nóvember 1991, tilkynnti mannanafnanefnd A niðurstöðu sína með svohljóðandi bréfi:

„Á fundi sínum 19. nóvember 1991 fjallaði Mannanafnanefnd um bréf yðar dagsett 15. nóvember. Nafnið Borghild getur ekki talist íslenskt nafn þar sem það fellur ekki að íslensku málkerfi, sbr. nöfn eins og Borghildur, Þórhildur, Ragnhildur. Nefndin getur því ekki mælt með að það verði tekið upp á skrána.“

Með bréfi, dags. 31. desember 1991, fór A fram á það að mannanafnanefnd breytti úrskurði sínum frá 19. nóvember 1991. Í bréfi hans segir m.a. svo:

„Okkur er það ljóst, að umdeilanlegt er hvort nafnið Borghild falli að íslensku málkerfi, en teljum hins vegar, að það geti verið spurning hvort það hafi ekki unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. 2. gr. laganna um mannanöfn. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá eru 5 konur hér á landi, sem bera þetta nafn. Sú elsta þeirra er fædd 26. apríl 1908 og því hefur nafn þetta verið í notkun hér á landi alllengi. Þykir mega styðja það nokkrum rökum, að hefð hafi skapast fyrir notkun þessa nafns hérlendis.“

Með bréfi, dags. 7. janúar 1992, svaraði mannanafnanefnd erindi A með svohljóðandi bréfi:

„Bréf yðar dags. 31. desember 1991 var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar í dag, 7. janúar 1992.

Máli því sem bréf yðar fjallar um, lauk með úrskurði kveðnum upp 19. nóvember 1991 og er hann endanlegur, sbr. 18. gr. l. nr. 37/1991.“

III.

Hinn 30. apríl 1992 ritaði ég mannanafnanefnd bréf og óskaði eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að mannanafnanefnd skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Með bréfi, dags. 12. maí 1992, barst mér svohljóðandi svar frá nefndinni:

„Úrskurður nefndarinnar er í samræmi við „ályktun“ og „úrskurð“ heimspekideildar Háskóla Íslands frá 11. september 1965, sem fylgir hér með í ljósriti. Taldi nefndin ekki rétt að víkja frá því fordæmi, þótt það komi ekki fram í úrskurðinum sjálfum.

Með l. 37/1991 um mannanöfn er mannanafnanefnd gert skylt að afgreiða mál að meginmarki með formlegum úrskurðum. Nefndinni er settur mjög skammur frestur til að kveða þá upp, sbr. 6. gr. laganna. Í lögunum eru hvorki ákvæði um form né efni úrskurðanna. Enginn sérstök ákvæði um rökstuðning.

Ljóst var að mjög mörg mál myndu koma til úrskurðar nefndarinnar. Þess vegna reyndi hún strax í upphafi að forma úrskurði eins stutta og mögulegt væri til að tryggja skilvirkni. Það taldi nefndin ekki mjög varhugavert þar sem úrskurðarmöguleikar hennar eru nokkuð skýrt afmarkaðir í 2. gr. laganna. Sýndist nefndinni þannig að í langflestum tilvikum gæti dugað til rökstuðnings að vísa til þess lagaákvæðis, þótt upp gæti komið tilvik þar sem frekari rökstuðningur væri nauðsynlegur, einkum þegar reyndi á ákvæði 2. gr. um hefð. Nefndinni var hins vegar jafnljóst að með því að horfa svo mjög til skilvirkni gæti verið teflt á tæpasta vað um rökstuðning, einkum með tilliti til þess að úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir, sbr. 18. gr. laganna. Hér eins og oft ella í stjórnsýslu myndu því togast á sjónarmið um skilvirkni og réttaröryggi. Í þessu efni eygði nefndin ekki aðra lausn en þá, að ef á reyndi og um væri beðið, myndi hún láta í té eftir á frekari rökstuðning en fram kæmi í hinum birta úrskurði.

Tekið skal fram að um slíkt hefur ekki verið beðið og raunar hafa engar athugasemdir verið gerðar hingað til við málsmeðferð.

Nefndin er að sjálfsögðu reiðubúin til að láta frekari skýringar og upplýsingar í té, ef óskað verður eftir.“

Með bréfi mannanafnanefndar fylgdi svohljóðandi „ályktun“ heimspekideildar Háskóla Íslands:

„Karlkennd mannanöfn með nefnifallsendingu eða án hennar.Með tilvísun til bréfs séra [...] til Heimspekideildar Háskóla Íslands, dags. 11. sept. 1965, gerir deildin svo fellda ályktun:

Í lögum um mannanöfn, nr. 54, 27. júní 1925, segir svo í 4. gr., 1. málsgr.: „Ekki mega menn bera önnur nöfn en þau sem rétt eru að lögum íslenzkrar tungu“. Síðar í sömu grein segir, að Heimspekideild skeri úr, ef ágreiningur rísi um nafn.

Með hliðsjón af framan greindum ákvæðum úrskurðar Heimspekideild, að eftirfarandi reglur skuli gilda um endingu eða endingarleysi í nefnifalli karlkenndra mannanafna:

1. Alíslenzk (norræn) nöfn, sem endingu höfðu að fornu og yfirleitt hafa varðveitzt með endingu til nútímamáls, skulu látin halda henni, t.d. Ásbergur, Erlingur, Haraldur, Hallfreður, Ólafur, Sigurður, Valgarður, Vilbergur, Þorvaldur o.s.frv. Í þessum tilvikum er óheimilt að sleppa nefnifallsendingunni --ur.

2. Sama máli gegnir um orð, sem hafa endinguna --harður og --valdur, t.d. Bernharður eða Bjarnharður, Vernharður, Ríkharður og Ósvaldur, jafnvel þótt erlend kunni að vera að uppruna.

3. Endingarlaus í nf. skulu vera íslenzk nöfn, sem svo hafa verið frá fornu fari, t.d. Björn, Karl o.s.frv. Sama máli gegnir um nöfn, sem misst hafa nefnifallsendingu frá því í fornmáli í samræmi við hljóðlögmál tungunnar, t.d. Arnór, Halldór, Steinþór, o.s.frv.

4. Endingarlaus mega einnig vera ýmis tökunöfn, sem fótfestu hafa náð, t.d. Friðrik, Gottskálk, Gústaf, Hinrik, Konráð og Þiðrik. Þó má benda á, að sum þessara nafna hafa einnig íslenzkulegra form, t.d. Friðrekur, Gottskálkur (sjaldgæft), Heinrekur, Konráður, Þjóðrekur (Þiðrekur), og er vitanlega fullkomlega leyfilegt að endurlífga þessar nafnmyndir.

5. Endingarlaus skulu vera tökunöfn, sem aldrei hafa haft nefnifallsendingu í íslenzku, t.d. Jón, Hans, Hannes, Jóhannes, o.s.frv., enn fremur samsett nöfn, sem enda á --mann, hvort sem þau eru tökunöfn eða gerð síðar í samræmi við tökunöfn t.d. Hermann, Kristmann, Guðmann og Ármann.“

Með bréfi 18. maí 1992 gaf ég A færi á að gera athugasemdir við fyrrnefnt bréf mannanafnanefndar. Athugasemdir hans bárust mér í bréfi, dags. 10. júní 1992, og segir þar m.a. svo:

„Í þessu sambandi óskar undirritaður eftir að benda á, að í greindu bréfi nefndarinnar segir m.a.: „... Í þessu efni eygði nefndin ekki aðra lausn en þá, að ef á reyndi og um væri beðið, myndi hún láta í té eftir á frekari rökstuðning en fram kæmi í hinum birta úrskurði.„ Eftir að „úrskurður“ mannanafnanefndar frá 19. nóvember sl. barst undirrituðum sendi ég henni bréf að nýju, dags. 31. desember sl. þar sem ég leitaðist við að rökstyðja mín viðhorf í málinu, m.a. varðandi það hvort nafnið Borghild hefði áunnið sér hefð í íslensku máli. Með bréfi nefndarinnar frá 7. janúar sl. var mér tilkynnt, að máli því, sem fyrrnefnt bréf mitt hefði fjallað um, hefði lokið með úrskurði, kveðnum upp 19. nóvember 1991, og væri hann endanlegur, sbr. 18. gr. laga nr. 37, 1991.

Samkvæmt ofanrituðu fæ ég ekki séð, hver rök hafa verið færð fram af hálfu mannanafnanefndar í framhaldi af úrskurði hennar varðandi það hvort nafnið Borghild hefði áunnið sér hefð í íslensku máli eins og óskað var eftir.“

Hinn 16. júní 1992 ritaði ég mannanafnanefnd á ný bréf. Óskaði ég að nefndin upplýsti, hvort skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1991 um mannanöfn væri gerð sú krafa til nafna, sem hefðu unnið sér hefð í íslensku máli, að þau brytu ekki í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 2. gr.

Svar nefndarinnar barst mér með bréfi, dags. 3. júlí 1992, og segir þar svo:

„Mannanafnanefnd heimilar ekki að nafn af erlendum uppruna verði sett á mannanafnaskrá samkvæmt 3. gr. l. nr. 37/1991 um mannanöfn nema að það hafi unnið sér hefð og að það brjóti ekki í bága við íslenskt málkerfi svo sem skýrlega er boðað í 1. mgr. 2. gr. s.l.

Hvort nafn telst brjóta í bága við íslenskt málkerfi má ráða m.a. af því hvort það falli að reglum íslenskrar tungu um fallbeygingar.

Nafnið „Borghild“ lýtur ekki þeim reglum því það verður ekki fallbeygt og fullnægir það því ekki skilyrðum 1. mgr. 2. gr. áðurnefndra laga.“

Með bréfi, dags. 9. júlí 1992, gaf ég A færi á að gera athugasemdir við síðastnefnt bréf mannanafnanefndar.

IV.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 27. júlí 1992, sagði svo:

„Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1991 skal hverju barni gefið eiginnafn. Skal eiginnafn vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 1. og 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1991.

Sé nafn, sem barn á að hljóta, ekki á mannanafnaskrá, skal prestur eða forstöðumaður trúfélags ekki samþykkja það að svo stöddu né gefa það við skírn, heldur skal málið borið undir mannanafnanefnd, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 37/1991.

Nafnið Borghild er ekki á mannanafnaskrá, sem gefin var út í október 1991 á grundvelli 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1991. Af þeim sökum bar A málið undir mannanafnanefnd. Samkvæmt 6. gr. og 3. tl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 37/1991 skal mannanafnanefnd skera úr álita- eða ágreiningsmálum, sem upp kunna að koma um nafngjafir. Með úrskurði, dags. 19. nóvember 1991, synjaði mannanafnanefnd um heimild til að gefa nafnið Borghild.

Í athugasemdum við 6. gr. í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 37/1991 (Alþt. 1990--1991, A-deild, bls. 619), segir, að það felist í 6. gr. að mannanafnanefnd skuli kveða upp formlega úrskurði um þau mál, sem til hennar er vísað skv. 5. gr. laga nr. 37/1991. Þar sem úrskurðir mannanafnanefndar eru fullnaðarúrskurðir, sem ætlað er að hafa fordæmisgildi, og nefndin skal árlega birta niðurstöður úrskurða sinna, sbr. 18. gr. laga nr. 37/1991, hvílir sú skylda á nefndinni að láta rökstuðning fylgja úrskurðum sínum. Þar sem úrskurðir þessir skulu hins vegar kveðnir upp svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan tveggja vikna frá því að mál barst nefndinni, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1991, má fallast á það með mannanafnanefnd, að aðeins verði gerð krafa til þess að rökstuðningur feli í sér stutta greinargerð um þau meginsjónarmið, sem ráða niðurstöðu úrlausnar svo og tilvísun til þeirra réttarreglna, sem ákvörðunin er byggð á.

Eins og að framan greinir, er sú krafa gerð í 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1991 um mannanöfn, að eiginnafn sé annaðhvort íslenskt eða hafi unnið sér hefð í íslensku máli. Að auki er gerð sú krafa í 2. málslið 1. mgr. 2. gr., að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Kemur þetta einnig glögglega fram af ummælum í athugasemdum við 2. gr. í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 37/1991, en þar segir m.a. svo: „Mörg nöfn, sem eru algeng hér á landi, eru ekki íslensk að uppruna en hafa þó fyrir löngu unnið sér sess í íslensku. Á hinn bóginn kann svo að vera að nöfn hafi unnið sér hefð í málinu en brjóti gegn íslensku málkerfi, svo sem vegna orðmyndunar, hljóðkerfis eða beygingar.“ (Alþt. 1990--1991, A-deild, bls. 617).

Úrskurð mannanafnanefndar frá 19. nóvember 1991 verður að skilja svo, að nafnið Borghild fullnægi ekki umræddu almennu skilyrði laga nr. 37/1991, að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Tel ég ekki rök til að gagnrýna þá niðurstöðu nefndarinnar. Það er hins vegar skoðun mín, að í þessum úrskurði nefndarinnar hefði átt að gera skýrari grein fyrir því, að eiginnöfn megi aldrei brjóta í bág við íslenskt málkerfi, ekki heldur nöfn, sem geta talist hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

Í kvörtun sinni kvartar A einnig yfir því, að mannanafnalög nr. 37/1991 séu ósanngjörn, þar sem þau feli í sér mismunun milli barna íslenskra foreldra annars vegar og barna erlendra foreldra hins vegar. Af 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis leiðir, að starfssvið umboðsmanns tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Lög nr. 13/1987 gera almennt ekki ráð fyrir því, að umboðsmaður fjalli um ákvarðanir Alþingis við lagasetningu. Eru því ekki skilyrði til þess að ég fjalli frekar um þennan þátt kvörtunarinnar.

Ég tel ekki ástæðu til frekari athugasemda en að framan greinir.“