Veiðimál og veiðiréttindi. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11530/2022)

Kvartað var yfir því að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Umhverfisstofnun hefðu ekki brugðist við áliti fagráðs um velferð dýra um veiðar á hreinkúm.

Ekki varð séð að kvörtunarefnið snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. febrúar sl. yfir því að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Umhverfisstofnun hafi ekki brugðist við áliti fagráðs um velferð dýra um veiðar á hreinkúm.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans samkvæmt tilgreindum ákvæðum kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þau atriði sem þar eru tilgreind snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Tel ég því ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.