Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11536/2022)

Kvartað var yfir því að ríkislögmaður hefði haldið eftir staðgreiðslu tekjuskatts þegar greiddar voru skaða- og miskabætur.

Með hliðsjón af ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem skaðabætur vegna launamissis eru skattskyldar tekjur en miskabætur ekki, taldi umboðsmaður ekki tilefni til nánari athugunar á kvörtuninni. Enda væri það hvorki í andstöðu við orðalag samkomulagsins né lögin að staðgreiðslu hefði verið haldið eftir vegna launamissis og ekki lægi fyrir að það hefði verið gert vegna miskabótanna. Þá væri það ekki hlutverk umboðsmanns að fjalla um mál þar sem aðila greini á um efni samnings heldur dómstóla.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. þessa mánaðar yfir því að ríkislögmaður hafi haldið eftir staðgreiðslu tekjuskatts þegar hann greiddi yður skaða- og miskabætur á grundvelli samkomulags 21. janúar sl.

Í samkomulaginu var kveðið á um að yður yrðu annars vegar greiddar miskabætur að tilgreindri fjárhæð og hins vegar skaðabætur fyrir fjártjón vegna tapaðra launatekna að tilgreindri fjárhæð. Samkvæmt 2. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru skaðabætur vegna launamissis skattskyldar tekjur, sbr. einnig 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Miskabætur eru það hins vegar ekki, sbr. 2. tölulið 28. gr. fyrrgreindu laganna. Í samræmi við ákvæði þessara laga tel ég ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á kvörtun yðar, enda er það hvorki í andstöðu við orðalag samkomulagsins né fyrrgreind lög að ríkislögmaður hafi haldið eftir staðgreiðslu tekjuskatts við greiðslu skaðabóta vegna launamissis. Þá liggur ekki fyrir að staðgreiðslu hafi verið haldið eftir vegna miskabótanna.

Kvörtun yðar ber þess merki að þér hafið staðið í þeirri trú að samkomulagið hafi verið annars efnis en leiðir af orðalagi þess. Af því tilefni skal þess getið að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur.

Að jafnaði fellur það ekki að hlutverki umboðsmanns að fjalla um mál þar sem aðila greinir á um efni samnings. Þegar leyst er úr slíkum ágreiningi getur enda verið þörf á sönnunarfærslu, svo sem aðila- og vitnaskýrslna, sem varpar ljósi á gerð samningsins. Umboðsmaður Alþingis hefur því talið að það verði fremur að vera hlutverk dómstóla en hans að fjalla um slík mál, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Sé það afstaða yðar að samkomulagið sé þess efnis sem rakið er í kvörtun yðar verður það því að vera hlutverk dómstóla að fjalla um málið. Í þessari ábendingu felst þó engin afstaða af minni hálfu til þess hvort tilefni sé fyrir yður að bera málið undir dómstóla.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á kvörtun yðar og er athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.