Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11552/2022)

Kvartað var yfir því hvernig Biskupsstofa hefði brugðist við beiðni um gögn.

Samkvæmt kvörtuninni hafði málinu verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en úrskurður hennar lá ekki fyrir. Umboðsmaður benti á að rétt væri að nefndin leiddi málið til lykta áður en það kæmi til hans kasta.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. þessa mánaðar yfir því hvernig Biskupsstofa brást við beiðni yðar um gögn. Samkvæmt því sem greinir í kvörtuninni hafið þér skotið málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en úrskurður nefndarinnar liggi ekki fyrir.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í samræmi við þetta ákvæði er rétt að úrskurðarnefnd um upplýsingamál leiði fyrrgreint mál til lykta áður en umboðsmaður fjallar um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og er athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.