Opinberir starfsmenn. COVID-19. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11553/2022)

Í erindi benti málshefjandi á að sér þætti tilefni til að umboðsmaður athugaði hvort forstöðumenn utan heilbrigðiskerfisins hefðu ákveðið sér eða næstráðendum álag vegna COVID-19.

Erindið snerti ekki beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi og voru því ekki skilyrði til að fjalla um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til erindis yðar 10. þessa mánaðar þar sem bent er á að þér teljið tilefni til að umboðsmaður Alþingis taki til athugunar hvort forstöðumenn utan heilbrigðiskerfisins hafi ákveðið sér eða næstráðendum álag vegna COVID-19.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga er kveðið á um að hvers sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir tilgreind ákvæði laganna, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði tekin til nánari athugunar verði að sýna fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni málsaðila eða réttindi.

Þar sem það á ekki við um erindi yðar eru ekki uppfyllt skilyrði til að það verði tekið til frekari meðferðar. Þá tel ég ekki nægilegt tilefni til að taka ábendingu yðar til meðferðar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir að umboðsmaður geti að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda til almennrar athugunar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.