Útlendingar. Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11556/2022)

Kvartað var yfir starfsmanni Útlendingastofnunar.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að áður en hann gæti fjallað um kvörtunarefnið þyrfti að koma því á framfæri við forstjóra stofnunarinnar og gefa honum tækifæri til að taka afstöðu til þess.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. þessa mánaðar yfir starfsmanni Útlendingastofnunar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál í tilefni af kvörtun fyrr en stjórnvöld hafa sjálf fengið færi á að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem eru gerðar við störf þeirra. Í samræmi við það tel ég rétt að þér freistið þess að koma athugasemdum yðar um störf starfsmanns Útlendingastofnunar á framfæri við forstjóra hennar áður en umboðsmaður fjallar um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og er athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.