Námslán og námsstyrkir. Hámarkstími námsaðstoðar. Reglur um úthlutun námslána.

(Mál nr. 547/1992)

A hafði stundað B.A. nám við bandarískan háskóla í átta misseri og hafði notið aðstoðar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þann tíma. Kvartaði A yfir synjun lánasjóðsins um það að veita honum lán vegna náms á vormisseri 1992, er var 9. misserið. Lánasjóðurinn byggði á því, að hámarkstíma væri náð. Grein 2.2. í úthlutunarreglum lánasjóðsins var skýrð svo, að námsmaður þyrfti aðeins að ljúka 3/4 hlutum af fullu námi skv. skipulagi skóla og því nægði að ljúka þriggja ára námi á fjórum árum. Hins vegar kom fram hjá lánasjóðnum, að fyrsta námsárið í bandarískum skólum til B.A.-- eða B.S.--prófs væri ekki lánshæft, þar sem litið væri svo á, að það væri hliðstætt síðasta hluta menntaskólanáms. Lánasjóðurinn hefði hins vegar tekið þá ákvörðun að veita lán vegna fyrsta námsárs í bandarískum háskólum en jafnframt gert að skilyrði, að í heild fengju nemendur ekki aðstoð nema í fjögur ár, eins og þeir áttu rétt á, áður en ákvörðun þessi var tekin, en þá hefðu námsmenn við bandaríska háskóla átt kost á láni frá og með öðru námsári og gátu fengið lánsaðstoð í allt að fjögur ár vegna hinna þriggja lánshæfu ára. Samkvæmt þessari túlkun á úthlutunarreglum sjóðsins skyldi fjögurra ára námi í Bandaríkjunum til B.A. eða B.S. gráðu lokið á fjórum árum, er þýddi, að þeir námsmenn, sem ekki höfðu tekið próf, sem metið væri til eins árs af þessum fjórum, urðu að ljúka fullu námi í hverri önn til þess að eiga kost á lánsaðstoð allan námstímann.
Umboðsmaður taldi, að í umræddri ákvörðun lánasjóðsins hefði aðeins falist heimild fyrir námsmenn til þess að nýta svigrúm úthlutunarreglu 2.2. með tilteknum hætti, þ.e.a.s. byrja töku námslána þegar á fyrsta námsári, sem ekki teldist þó lánshæft, og fá lán í fjögur ár fyrir þriggja ára lánshæfu námi, enda væri ekki heimild í lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, til að ákveða, að nám, sem lánasjóðurinn teldi jafngilda menntaskólanámi, skyldi vera að fullu lánshæft. Með því að lánasjóðurinn hefði aðeins metið þrjú ár af fjögurra ára námi A lánshæf á grundvelli nefndra laga, hefði A átt rétt á að fá fyrirgreiðslu í fjögur ár hjá sjóðnum samkvæmt úthlutunarreglu 2.2. Þar sem A hefði fengið fyrirgreiðslu þessa umræddan tíma, áleit umboðsmaður, að hann ætti ekki að lögum rétt til frekari námsaðstoðar frá sjóðnum vegna nefnds B.A. náms. Umboðsmaður taldi hins vegar að setja hefði átt umrædda sérreglu um nám til B.A.-- og B.S. prófs í bandarískum háskólum í úthlutunarreglur en ljóst væri af lögum og reglugerð, að úthlutunarreglur ættu að vera skýrar og aðgengilegar. Hefði breyting á úthlutunarreglum með "verklagsreglum" því verið andstæð forsendum laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, svo og skýrum fyrirmælum 4. tl. 8. gr. og 17. gr. reglugerðar nr. 578/1982. Slík framkvæmd væri einnig til þesss fallin að valda óvissu hjá námsmönnum um rétt sinn og væri því andstæð vönduðum stjórnsýsluháttum. Þar sem umrædd sérregla hafði ekki verið tekin í úthlutunarreglur sjóðsins, taldi umboðsmaður að hún hefði ekki verið kynnt námsmönnum nægjanlega tryggilega.

I. Kvörtun.

Hinn 6. janúar 1992 bar A fram kvörtun út af því, að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefði með bréfi, dags. 18. október 1991, synjað honum um lán vegna náms á vormisseri 1992, þar sem hann hefði stundað nám í 8 misseri eða 4 ár og því hlotið aðstoð í hámarkstíma.

Fram kom í kvörtun A, að hann hóf nám við bandarískan háskóla X haustið 1988. Sumarið 1989 fékk A aðstoð Lánasjóðs íslenskra námsmanna til þess að stunda nám seinna sumarmisserið það ár. Kvaðst A því hafa fengið aðstoð til náms í alls 8 misseri eða fjögur ár. Þar sem hins vegar væri kveðið skýrlega á um það í grein 2.5.2. í úthlutunarreglum sjóðsins 1991--1992, að hámarkstími námsaðstoðar væri 5 ár, hlyti hann að eiga rétt á láni á vormisseri 1992. Þá benti A á, að 128 einingar þyrfti til þess að ljúka B.A. prófi í markaðsfræðum frá háskólanum. Með fullu námi, sem væru 15 einingar á önn, næðist aðeins að ljúka 120 einingum á átta önnum. Tæki námið því að jafnaði 9 annir.

II.

Með bréfi, dags. 28. ágúst 1991, fór A þess á leit við lánasjóðinn, að honum yrði veitt lán á vormisseri 1992 til þess að ljúka námi. Hafnaði stjórn Lánasjóðsins beiðni hans með bréfi, dags. 18. október 1991, og vísaði til þess, að samkvæmt reglum sjóðsins um námsframvindu væri hámarkssvigrúm til þess náms, er A stundaði, átta misseri eða fjögur ár. Við lok haustmisseris hefði hann hlotið aðstoð þennan hámarkstíma.

Með bréfi, dags. 20. október 1991, ítrekaði A beiðni sína um námsaðstoð á vormisseri 1992, svo að hann gæti lokið námi. Sjóðsstjórnin synjaði erindi A með bréfi, dags. 8. nóvember 1991, með vísan til fyrri afstöðu sinnar.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalds.

Hinn 6. janúar 1992 ritaði ég Lánasjóði íslenskra námsmanna bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að lánasjóðurinn léti mér í té gögn umrædds máls. Gögnin og skýringar framkvæmdastjóra lánasjóðsins bárust mér með bréfi, dags. 17. janúar 1992, og hljóðar bréfið svo:

„Samkvæmt lögum um LÍN þá veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms erlendis sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Nú gera háskólar í Bandaríkjunum ekki sömu kröfu til undirbúningsmenntunar og gerðar eru hérlendis. Fyrsta árið í bandarískum háskóla samsvarar námi fyrir stúdentspróf á Íslandi. Vegna þessa var námsmönnum synjað um lán til náms á 1. námsári við bandaríska háskóla fram til námsársins 1982--1983. Námsmenn áttu kost á lánum frá og með öðru námsári og gátu fengið aðstoð í allt að 4 ár til að ljúka náminu á þremur árum til B.A prófs (3 árum).

Á námsárinu 1982--1983 var sú breyting gerð af stjórn LÍN að ákveðið var að gefa námsmönnum kost á aðstoð frá og með 1. námsári, en heildarsvigrúm skyldi áfram verða það sama, þ.e. 4 ár til að ljúka B.A./B.S. námi. Með þessu kom stjórn LÍN til móts við þá námsmenn sem ekki fengu stúdentsprófið metið á móti 1. námsári, og þá námsmenn sem fengu inni við bandaríska háskóla án þess að hafa lokið stúdentsprófi. Í samræmi við þessa reglu hefur námsmönnum verið synjað um aðstoð umfram 4 námsár (8 misseri) til B.A./B.S. náms við bandaríska háskóla. Sjóðurinn hefur leitast við að vekja athygli námsmanna í Bandaríkjunum á þessari reglu með dreifibréfum (sjá meðf. ljósrit af dreifibréfi frá 1989--1990), en hún er að þessu leyti frábrugðin almennu reglunni um 75% svigrúm í námi.

[A] hefur notið aðstoðar sjóðsins í 8 misseri til B.A. náms í markaðsfræðum við [X]. Hann fékk ekkert metið vegna fyrra náms, og þurfti því, samkvæmt ofangreindri reglu, að ljúka 4 ára námi á 4 árum. Beiðni [A] um aðstoð í eina önn til viðbótar var því synjað af stjórn LÍN.“

Meðfylgjandi bréfi þessu var svohljóðandi auglýsing:

„Þeir nýnemar sem stefna að B.A./B.S. gráðu fá aðstoð LÍN í hámark 4 námsár til að ljúka náminu. Þetta þýðir að þeir nemendur sem ekki hafa stúdentspróf eða annað sambærilegt nám (sem er yfirleitt metið sem 1 ár af þessum 4), verða að skila 100% námsárangri á hverri önn til að eiga kost á aðstoð sjóðsins allan tímann.“

Með bréfi, dags. 20. janúar 1992, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf framkvæmdastjóra lánasjóðsins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 31. janúar 1992. Kom fram hjá A, að það kæmi honum á óvart, að hann ætti aðeins lánsrétt í átta annir, þar sem hann hefði ekki stúdentspróf og hefði honum ekki verið tilkynnt um þessar reglur. Þeirra væri ekki getið í úthlutunarreglum 1990--1991 og 1991--1992. Í samskiptum hans við lánasjóðinn hefði hvergi komið fram, að hann hefði ekki stúdentspróf og aldrei hefði verið á það minnst, að aðstoð sjóðsins miðaðist við þessar reglur.

Hinn 6. febrúar 1992 ritaði ég stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf, þar sem ég óskaði eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að stjórnin skýrði afstöðu sína til kvörtunarinnar. Þá sagði svo í bréfi mínu:

„Í bréfi sjóðsins, dags. 17. janúar 1992, kemur fram, að „innuregla“ sú, sem beitt var við úrlausn erindis [A], samþýðist ekki grein 2.2. úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna 1991--1992. Hámarkslánstími umræddrar starfsreglu virðist heldur ekki samrýmast 19. gr. reglugerðar nr. 578/1982, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 274/1991, sbr. grein 2.5.2. úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna 1991--1992. Þess er sérstaklega óskað að gerð verði grein fyrir lagastoð umræddrar „vinnureglu“.

Þá er þess óskað að upplýst verði, hver hafi sett fyrrnefnda „vinnureglu“. Jafnframt óska ég eftir því, að mér verði látin í té ljósrit af fundargerðum þeirra funda, þar sem ákvörðun um efni „vinnureglunnar“ var tekin.“

Svarbréf stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 20. febrúar 1992, hljóðar svo:

„Meginreglu um framvindu náms og þar með skilyrði um hámarkstíma aðstoðar LÍN er að finna í 6. gr. laga nr. 72/1982 og 18. gr. reglugerðar nr. 578/1982 með síðari breytingum. Þar segir að námsmaður skuli ekki njóta aðstoðar lengur en „hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla sem nám er stundað.“ Þetta er nánar skilgreint í úthlutunarreglu 2.2. Þar segir svo orðrétt: „Námsframvinda er metin í misserum eða námsárum. Skal námsmaður að jafnaði ljúka 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla. Þannig skal ljúka þriggja ára námi á 4 árum hið lengsta.“ Á þessa meginreglu reyndi í máli [A], en ekki úthlutunarreglu 2.5.2. Þetta stafar m.a. af því að stjórn sjóðsins skólaárið 1982--83 ákvað að breyta framkvæmd þessa ákvæðis í Bandaríkjunum til hagsbóta fyrir námsmenn. Sú ákvörðun hefur síðan verið vinnuregla sjóðsins.

Breytingin er fólgin í eftirfarandi og vísast í bréf sjóðsins til yðar dags. 17. janúar s.l. í því efni:

Áður en þessi ákvörðun var tekin var ekki veitt lán til náms á fyrsta námsári til „undergraduate“ náms við bandaríska háskóla, þar sem litið var svo á að það væri í raun hliðstætt síðasta hluta menntaskólanáms hér á landi. Eftir sem áður var nám á öðru, þriðja og fjórða ári í viðkomandi háskólum talið lánshæft. Menn gátu með öðrum orðum fengið lán í fjögur ár vegna fyrrnefndrar 75% reglu til þess að ljúka þriggja ára námi á öðru, þriðja og fjórða ári í bandarískum háskólum. Þessu fyrirkomulagi var breytt þannig með ákvörðun stjórnar 1982--83 að mönnum var veitt lán vegna fyrsta námsárs í bandarískum háskólum en jafnframt gert að skilyrði að í heild fengju menn ekki aðstoð nema í 4 ár til þess að ljúka fjögurra ára námi, þ.e.a.s. mönnum var gert kleift að nýta sér það svigrúm sem felst í 75% reglunni á þennan hátt.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að með þeirri framkvæmd sem gilti fyrir þann tíma sem breyting varð á vinnureglunni skólaárið 1982--83 hefði [A] aðeins fengið aðstoð í 4 ár til þess að ljúka námi sínu. Hann hefði ekki fengið lán vegna fyrsta ársins, en getað fengið aðstoð í 4 ár til þess að ljúka þremur næstu námsárum, skv. 75% reglunni um námsframvindu eða nákvæmlega þann hámarkstíma, sem hann hefur notið aðstoðar sjóðsins eftir þeirri vinnureglu sem gilt hefur frá 1982/83.

Ákvæði greinar 2.5.2. á einungis við ef maður hefur fengið aðstoð sjóðsins á „undergraduate“ stigi (og þá yfirleitt til að stunda fleira en eina námsgrein) samtals í 5 skólaár skv. núgildandi úthlutunarreglum (sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 274/1991, sem áður voru 7 ár (19. gr. reglug. nr. 578/1982 með síðari breytingum). Þar er um að ræða hámark þess tíma sem hver námsmaður á rétt á aðstoð sjóðsins, en kemur í raun ekki við reglum um þau skilyrði sem sjóðurinn setur vegna námsframvindu manna í hverjum og einum skóla.

Meðfylgjandi er ljósrit úr fundargerð 571. fundar LÍN frá 28. júlí 1982. Þar var samþykkt að veita [X] aðstoð á fyrsta ári í „undergraduate“ námi við bandarískan háskóla. Þetta er fordæmi, sem síðar hefur verið fylgt um það hvernig reglan um 75% svigrúm hefur verið framkvæmd í bandarískum skólum. Eins og áður hefur komið fram í bréfaskiptum LÍN við yður verða „vinnureglur“ stjórnar oft til með þessum hætti. Vegna ákveðins máls er tekin „prinsipp“ afstaða og er tilgangurinn sá að láta eitt yfir alla ganga í túlkun laga, reglugerðar og úthlutunarreglna sjóðsins. Til frekari skýringar á þessu máli fylgir greinargerð, sem lögð var fyrir fund vafamálanefndar stjórnar hinn 21. október 1988 um hliðstætt efni, sem hér hefur verið fjallað um. Þar eru talin 5 dæmi á skólaárinu 1987--88 um að mönnum hafi verið synjað um aðstoð fram yfir fjögur skólaár í bandarískum háskólum á hliðstæðum forsendum og gert var varðandi erindi [A].“

Með bréfi lánasjóðsins fylgdi svofelld bókun úr fundargerð 571. fundar lánasjóðsins frá 28. júlí 1982:

„2.[...]

a) [X] sækir um lán á grundvelli tuttugu ára reglunnar til að stunda nám við „Rochester Institute of Technology“. Námið er 193 einingar. Hann hefur lokið 107 einingum af 132 til stúdentsprófs við menntaskólann við Hamrahlíð, og fær hann 24 einingar metnar inn í nám sitt í Bandaríkjunum. Gerir ráð fyrir að ljúka námi á 4 árum.

[...]

Stjórnin telur 4 ár eðlilegan lánshæfan hámarkstíma fyrir [X]. [...] Samþykkt var að veita honum lán fyrir öllum skólagjöldum ...“

Þá fylgdi einnig bréfi lánasjóðsins greinargerð, sem tekin var saman vegna „vafamálafundar“ 31. október 1988, og segir þar m.a. svo:

„Samkvæmt lögum um LÍN þá veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms erlendis sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Nú gera háskólar í Bandaríkjunum ekki sömu kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru hérlendis. Vegna þessa var námsmönnum synjað um lán til náms á 1. námsári við bandaríska háskóla fram til námsársins 1982--1983. Námsmenn áttu kost á lánum frá og með 2. námsári og gátu fengið aðstoð í allt að 4 ár til að ljúka náminu (3 árum).

Á námsárinu 1982--1983 var sú breyting gerð að ákveðið var að gefa námsmönnum kost á aðstoð frá og með 1. námsári, en heildarsvigrúm skyldi áfram vera það sama, þ.e. 4 ár til þess að ljúka B.A./B.S. námi. Með þessu hefur stjórn LÍN væntanlega verið að koma til móts við þá námsmenn sem ekki fengu stúdentsprófið metið á móti 1. námsári og þá námsmenn sem ekki höfðu stúdentspróf án þess þó að vilja viðurkenna að 1. námsárið sé lánshæft. (Enda má færa sterk rök að því að ekki sé heimilt skv. lögum að lána til 1. námsárs við bandaríska háskóla).

Í samræmi við þessa reglu hefur námsmönnum verið synjað um aðstoð umfram 4 ár til B.A./B.S. náms í Bandaríkjunum. Hér á eftir fylgir samantekt um nokkur slík mál frá námsárinu 1987--1988.

[...]

Stjórn LÍN hefur ekki verið tilbúin til að veita námsmönnum undanþágu frá 4 ára reglunni nema um veikindi hafi verið að ræða.

Námsmaður sem lýkur ávallt lágmarksárangri á hverri önn, þ.e. 12 einingum, á að ljúka náminu á 4 árum hafi hann fengið stúdentsprófið metið á móti 1. námsári. Nái hann ekki að ljúka náminu þá er ástæðan einfaldlega sú að stúdentsprófið hefur ekki nýst til styttingar á náminu eins og skyldi....“

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1992, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við fyrrnefnt bréf lánasjóðsins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 1. mars 1992.

IV. Niðurstaða.

1.

Niðurstaða álits míns, dags. 27. ágúst 1992, var svohljóðandi:

„Í máli þessu er deilt um það, hvort heimilt sé að túlka úthlutunarreglu 2.2. með þeim hætti, sem komið hefur fram í þeirri "verklagsreglu" hjá lánasjóðnum, að fjögurra ára námi í Bandaríkjunum til B.A.-- eða B.S.-- gráðu skuli lokið á fjórum árum. Það þýðir, að þeir nemendur, er ekki hafa tekið próf, sem metið er til eins árs af þessum fjórum, verða að ljúka fullu námi á hverri önn, til þess að eiga kost á aðstoð sjóðsins allan námstímann.

Að öðru jöfnu er grein 2.2. skýrð svo, að námsmaður þurfi aðeins að ljúka 3/4 hlutum af fullu námi skv. skipulagi skóla, og þarf námsmaður því undir venjulegum kringumstæðum aðeins að ljúka þriggja ára námi á fjórum árum.

Ástæða fyrir umræddri „verklagsreglu“ er skv. bréfi lánasjóðsins, dags. 20. febrúar 1992, að fram að námsárinu 1982--1983 hafi 1. árs nám til B.A.-- eða B.S.--gráðu í Bandaríkjunum ekki verið talið lánshæft, þar sem litið hafi verið svo á, að það væri hliðstætt síðasta hluta menntaskólanáms. Því hafi hins vegar verið breytt á námsárinu 1982--1983 með þeim hætti, eins og segir í fyrrnefndu bréfi lánasjóðsins frá 20. febrúar 1992, að námsmönnum "var veitt lán vegna fyrsta námsárs í bandarískum háskólum en jafnframt gert að skilyrði að í heild fengju menn ekki aðstoð nema í 4 ár til þess að ljúka fjögurra ára námi".

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, með síðari breytingum, eiga íslenskir námsmenn rétt á námsaðstoð, stundi þeir framhaldsnám við stofnanir, sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 72/1982 segir, að lánasjóðnum sé heimilt að veita öðrum námsmönnum fjárhagsaðstoð en þeim, sem tilgreindir séu í 1. gr., enda hafi námsmenn þessir náð 20 ára aldri á því almanaksári, er lán séu veitt, og stundi sérnám. Með samanburðarskýringu við 1. gr. laganna verður nám, er jafngildir menntaskólanámi, ekki talið falla undir 2. mgr. 2. gr. laganna, enda er ákvæðið skýrlega bundið við sérnám. Þar sem ekki var fyrir hendi lagaheimild til þess að ákveða, að nám, sem lánasjóðurinn taldi jafngilda menntaskólanámi, skyldi vera að fullu lánshæft, verður að telja, að í umræddri ákvörðun lánasjóðsins hafi aðeins falist heimild fyrir námsmenn til þess að nýta svigrúm úthlutunarreglu 2.2. með tilteknum hætti. Var námsmanni heimilað að byrja töku þeirra námslána, sem hann átti rétt á skv. lögum nr. 72/1982, þegar á fyrsta námsári, sem ekki taldist þó lánshæft, og nýta sér það svigrúm úthlutunarreglu að geta fengið lán í 4 ár fyrir þriggja ára lánshæfu námi.

Lánasjóðurinn mat aðeins þrjú ár af fjögurra ára námi A lánshæf á grundvelli 1. gr. laga nr. 72/1982. Átti A því rétt á því að fá fyrirgreiðslu hjá sjóðnum í 4 ár skv. úthlutunarreglu 2.2. Þar sem A hefur fengið námslán í 4 ár frá lánasjóðnum, verður af framansögðu ekki séð að A hafi að lögum rétt til frekari námsaðstoðar frá lánasjóðnum til B.A. prófs í markaðsfræðum við X-háskóla.

2.

Samkvæmt skýru orðalagi 16. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki svo og forsögu ákvæðisins átti að setja meginreglur um rétt til námsaðstoðar í reglugerð, en önnur atriði í úthlutunarreglur. Hefur löggjafinn byggt á því, að setja ætti ítarlegar reglur í stjórnvaldsfyrirmæli um námslán og námsstyrki. Kom þessi lagaskilningur einnig fram í reglugerð nr. 578/1982, en í 4. tl. 8. gr. reglugerðarinnar var svo mælt fyrir, að eitt af hlutverkum stjórnar lánasjóðsins væri að þróa reglur lánasjóðsins um úthlutun, endurgreiðslur o.fl. með árlegri endurskoðun á reglum. Er því ljóst að gengið hefur verið út frá því að úthlutunarreglurnar ættu að vera skýrar og aðgengilegar, svo námsmenn gætu séð sjálfir, hvaða rétt þeir ættu til námsaðstoðar hjá lánasjóðnum. Liggja til þess auðsæ lagarök, sem komu meðal annars fram í 17. gr. reglugerðarinnar, en þar sagði orðrétt: „Til þess að tryggja samræmi í meðferð einstakra umsókna og sem besta nýtingu á ráðstöfunarfé Lánasjóðs setur sjóðstjórn reglur um það hvernig upphæð einstakra lána ákvarðast með hliðsjón af högum námsmanns, hvernig útborgun skuli hagað o.s.frv. Úthlutunarreglur, ásamt öðrum reglum sjóðsins, skulu gefnar út fyrir 1. júní ár hvert að fengnu samþykki ráðherra“. Í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 72/1982 var einnig svo kveðið á, að gefa skyldi út úthlutunarreglur sjóðsins árlega.

Breyting á úthlutunarreglum með „verklagsreglum“ var því andstæð forsendum laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki svo og skýrum fyrirmælum 4. tl. 8. gr. og 17. gr. reglugerðar nr. 578/1982. Slík framkvæmd er einnig til þess fallin að valda óvissu hjá námsmönnum um rétt sinn og er andstæð vönduðum stjórnsýsluháttum.

Með hliðsjón af því, að umrædd sérregla var ekki tekin í úthlutunarreglur sjóðsins, verður að telja, að hún hafi ekki verið kynnt námsmönnum nægjanlega tryggilega.“

Niðurstaða mín í máli þessu varð því sú, að A ætti eigi ekki rétt til frekari námslána til B.A. prófs í markaðsfræðum við hinn bandaríska háskóla en hann fékk. Hins vegar hefði átt að setja umrædda sérreglu í úthlutunarreglur sjóðsins í samræmi við 3. mgr. 16. gr. laga nr. 72/1982.