Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11281/2021)

Kvartað var yfir töfum á málsmeðferð  úrskurðarnefndar velferðarmála í tilefni af stjórnsýslukæru og því hvernig Tryggingastofnun hefði brugðist við beiðnum um aðgang að gögnum. 

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns kom fram að nefndin hafði kveðið upp úrskurð í málinu og stofnunin hefði farið yfir samskiptin á nýjan leik, sent málsaðilanum nánari upplýsingar og afhent öll gögn málsins. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 1. september sl. yfir töfum á málsmeðferð úrskurðarnefndar velferðarmála í tilefni af stjórnsýslukæru yðar 2. október 2020 og því hvernig Tryggingastofnun hefur brugðist við beiðnum yðar um aðgang að gögnum málsins.

Í tilefni af kvörtun yðar voru úrskurðarnefnd velferðarmála og Tryggingastofnun rituð bréf 17. september sl. þar sem þess var óskað að nefndin upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu kærumálsins og stofnunin beðin um að upplýsa um hvort til stæði að taka afstöðu til beiðni yðar um afhendingu gagna. Með bréfi 27. september sl. upplýsti nefndin að úrskurður hefði verið kveðinn upp 15. þess mánaðar. Þá svaraði stofnunin með bréfi 8. nóvember sl. Þar kom m.a. fram að hún liti svo á að þér hefðuð óskað eftir upplýsingum og aðgangi að gögnum tilgreinds máls. Eftir að hafa farið yfir samskipti við yður á nýjan leik teldi stofnunin að mögulega hefðu tilgreindar upplýsingar ekki komið fram nægilega skýrt í fyrri svörum. Stofnunin hefði því sent yður nýtt bréf með nánari upplýsingum og aftur afhent yður öll gögn málsins. Fyrir liggur afrit af bréfi stofnunarinnar til yðar sama dag. Í framhaldinu hafið þér fært fram athugasemdir við afstöðu stofnunarinnar með tölvubréfum 11. nóvember og 21. desember sl.

Líkt og áður segir lýtur kvörtun yðar að töfum á málsmeðferð úrskurðarnefndar velferðarmála og viðbrögðum Tryggingastofnunar við beiðnum yðar um upplýsingar og aðgang að gögnum tilgreinds máls. Þar sem nefndin hefur nú leitt málið til lykta og stofnunin telur sig hafa brugðist við beiðnum yðar með fullnægjandi tel ég, eftir að hafa kynnt mér samskipti yðar við stofnunina, ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Athygli yðar er vakin á því að ef þér teljið að Tryggingastofnun hafi synjað eða takmarkað aðgang yðar að gögnum tilgreinds stjórnsýslumáls getið þér, eftir atvikum að undangenginni ítrekun á beiðni yðar, freistað þess að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá bendi ég yður á að séuð þér ósáttir við fyrrgreindan úrskurð nefndarinnar geti þér leitað til mín með kvörtun þar að lútandi teljið þér efni til þess.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á kvörtun yðar.