Atvinnuleysistryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11369/2021)

Kvartað var yfir Vinnumálastofnun í tengslum við úrræðið „Frumkvæði“ og Skattinum vegna launauppgjörs.

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að ágreiningsefnið gagnvart Vinnumálastofnun hefði verið borið undir úrskurðarnefnd velferðarmála og því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki afstöðu til kvörtunarefnisins. Þar sem máli viðkomandi hjá Skattinum var ekki lokið voru ekki heldur skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt málsins.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

    

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. nóvember sl. sem beinist m.a. að Vinnumálastofnun. Í henni kemur fram að þér hafið tekið þátt í úrræði á vegum stofnunarinnar sem kallist „Frumkvæði“, þar sem þér hafið viljað hefja eigin rekstur, en þér séuð ósátt við lengd úrræðisins og að við lok þess hafi yður verið gert að velja milli þess að skerða bótarétt yðar úr 100% í 75% eða loka rekstrinum.

Í tilefni af kvörtun yðar var stofnuninni ritað bréf 24. nóvember sl. þar sem óskað var eftir að hún afhenti afrit af gögnum um þátttöku yðar í umræddu úrræði, auk þess að upplýsa frekar um úrræðið og stöðu yðar eftir að því lauk. Svarbréf barst 20. janúar sl., auk þess sem frekari gögn bárust 3. febrúar sl.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 918/2020, um þátttöku atvinnu­leitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnu­markaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysis­trygginga­sjóði, er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan samning við atvinnu­leitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistrygginga­kerfisins um að hann starfi að þróun eigin viðskiptahugmyndar í allt að sex mánuði með það að markmiði að koma hugmyndinni í framkvæmd. Í ákvæðinu segir að á gildistíma samningsins fái viðkomandi atvinnu­leitandi greiddar atvinnu­leysisbætur á grundvelli laga nr. 54/2006, um atvinnuleysis­tryggingar.

Í fyrrgreindu bréfi Vinnumálastofnunar var vísað til þess að úrræði það sem þér hefðuð tekið þátt í byggði á 6. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Gerður hefði verið samningur við yður frá 10. mars til 10. september sl. vegna þróunar á eigin viðskiptahugmynd, en í slíkum samningi fælist tímabundin undanþága frá tilteknum skilyrðum sem atvinnu­leitendur yrðu almennt að uppfylla til að eiga rétt á atvinnu­leysisbótum. Til að mynda væri ekki gerð krafa um að viðkomandi væri í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laga nr. 54/2006 á gildistíma samningsins, sbr. jafnframt 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 918/2020, auk þess sem samningurinn veitti undanþágu frá skilyrði sem fram kæmi í f-lið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006, en í ákvæðinu er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingi beri að stöðva rekstur sinn til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Við lok samningsins hefðuð þér ætlað að sinna rekstri eigin fyrirtækis samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og hefði yður því verið gert að skrá starfshlutfall yðar í samræmi við vinnuframlag í þágu rekstursins, eða a.m.k. 25%. Áréttað var af hálfu stofnunarinnar að viðmið um 25% lágmarkshlutfall atvinnuleitenda, sem sinnir störfum hjá eigin fyrirtækjum, byggði á skilgreiningum skattayfirvalda, sbr. 2. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. mgr. 58. gr. sömu laga, auk þess sem það byggði á a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006. Í því ákvæði kemur m.a. fram að launamaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

  

2

Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við lengd framangreinds úrræðis. Þér hafið samtals fengið sex mánuði til að stofna fyrirtæki og afla tekna, sem þér teljið vera of stuttan tíma.

Eins og áður hefur verið rakið kemur fram í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 918/2020 að heimilt sé að gera samning við atvinnu­leitanda í allt að sex mánuði með það að markmiði að koma hugmynd í fram­kvæmd. Þá segir í 5. mgr. 6. gr. að heimilt sé að framlengja gildis­tíma samnings enda séu mjög miklar líkur taldar á að viðskiptahugmyndin skapi atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumála­stofnunar, en einungis sé heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki og að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Gögn þau sem bárust frá Vinnumálastofnun gefa til kynna að þér hafið fyrst fengið þriggja mánaða samning vegna úrræðisins. Þátttaka yðar í úrræðinu hafi þá framlengst um þrjá mánuði til viðbótar, en ekki verður skýrlega ráðið, hvorki af gögnum sem bárust með kvörtun yðar né af þeim gögnum sem bárust frá stofnuninni, á hvaða grundvelli sú framlenging var gerð og hvort heimildin í 5. mgr. 6. gr. hafi komið til skoðunar í máli yðar.

Teljið þér tilefni til getið þér því freistað þess að óska eftir afstöðu Vinnumálastofnunar að því er snertir þennan hluta kvörtunar yðar. Af því tilefni er þá jafnframt rétt að benda yður á að í 16. gr. sömu reglugerðar kemur fram að heimilt sé að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli reglugerðarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 12. gr. laga nr. 54/2006.

  

3

Í kvörtun yðar gerið þér jafnframt athugasemdir við að yður hafi verið gert að skerða bótarétt yðar úr 100% í 75% þar sem þér hafið ekki viljað loka rekstrinum.

Af því tilefni og að framangreindu röktu er rétt að benda hér á að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að þetta er rakið er að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til úrskurðarnefndarinnar vegna framangreinds ágreiningsefnis. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt laga­skilyrði til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar að svo stöddu. Ef þér teljið tilefni til að freista þess að bera málið undir nefndina og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

4

Kvörtun yðar beinist jafnframt að Skattinum vegna launauppgjörs í desember 2020. Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtuninni sóttuð þér, m.a. af þessum sökum, um endurgreiðslu á staðgreiðslu á opinberum gjöldum á grundvelli 18. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, í febrúarmánuði 2021. Var fallist á þá beiðni og yður endurgreidd tiltekin fjárhæð. Þá er einnig ljóst af gögnum sem fylgdu kvörtun yðar að þér hafið leitað til Skattsins eftir leiðréttingu á innsendu framtali 2021. Verður kvörtun yðar ekki skilin á annan hátt en þann að sú beiðni snerti sama efni og gerð er grein fyrir í kvörtun yðar, og að hún sé nú til meðferðar hjá stofnuninni. 

Af fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 leiðir að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það. Mál skuli því ekki tekið til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum úrskurður æðra stjórnvalds. Þar sem ekki verður annað ráðið en að máli yðar sé ólokið hjá Skattinum eru ekki skil­yrði til að fjallað verði frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar er yður fært að leita til umboðsmanns á ný innan árs frá því að niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Að öðru leyti en að framan greinir tel ég að kvörtun yðar gefi ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

  

III

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli yðar lokið af minni hálfu.