Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11461/2021)

Kvartað var yfir skipun forseta Landsréttar í embætti skrifstofustjóra réttarins samkvæmt ákvörðun landsréttardómara. 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 30. desember sl. yfir því að forseti Landsréttar hafi skipað annan umsækjanda en yður í embætti skrifstofustjóra réttarins samkvæmt ákvörðun landsréttardómara 20. apríl sl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnt ákvæði fellur það almennt utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu dómstólanna, sbr. t.d. skýrslu hans til Alþingis fyrir árið 2012, bls. 20.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, skipar forseti Landsréttar dómstólnum skrifstofustjóra til fimm ára í senn samkvæmt ákvörðun dómara réttarins. Af þessu leiðir að skipun í embætti skrifstofustjóra Landsréttar er hluti af stjórnsýslu dómstólanna sem handhafar dómsvalds fara með. Það fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 2. mgr. 14. gr. sömu laga.

 

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson