Fjöleignarhús.

(Mál nr. 11468/2022)

Kvartað var yfir áliti kærunefndar húsamála, þ. á m. ákvörðun hennar um að endurupptaka mál að hluta.

Umboðsmaður rakti að ef kærunefndin telur að lög um fjöleignarhús hafi verið brotin og að á rétt aðila hafi hallað beini hún tilmælum til gagnaðila um úrbætur en kveði ekki upp bindandi úrskurði á þessum lagagrundvelli. Þá séu úrlausnir hennar samkvæmt 80. gr. fyrrnefndra laga ekki stjórnvaldsákvarðanir og falli því ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga. Eftirlit umboðsmanns með störfum nefndarinnar beindist því fyrst og fremst að því hvort hún hefði gætt almennra stjórnsýslureglna og annarra laga og reglna sem við ættu hverju sinni. Með hliðsjón af áliti nefndarinnar og öðrum málavöxtum taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við störf hennar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

   

I

Vísað er til erinda yðar 15. nóvember og 12. desember sl. sem beinast að kærunefnd húsamála og lúta að áliti hennar frá 31. ágúst sl. í máli nr. 30/2021, auk þess sem þau lúta að ákvörðun nefndarinnar um að endurupptaka hluta málsins, en með nýju áliti hennar 28. október sl. var fallist á kröfur yðar að hluta. Sá ágreiningur sem lagður var fyrir nefndina laut að aðgangi yðar að tilteknum gögnum í vörslum stjórnar húsfélags [...] og heimild yðar til að taka af þeim ljósmyndir. Í erindum yðar gerið þér margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar sem einkum lúta að þeim ályktunum sem nefndin dró af gögnum málsins, málsmeðferðartíma hennar og ákvörðun nefndarinnar um að endurupptaka málið.

Athugun umboðsmanns Alþingis á kvörtun yðar, sem fékk málsnúmerið 11311/2021, lauk með bréfi mínu 14. október sl. Verður litið svo á að með fyrrgreindum erindum yðar hafið þér fylgt eftir fyrri kvörtun yðar og hafa því gögn máls nr. 11311/2021 einnig verið hluti af athugun embættisins nú.

  

II

1

Sá ágreiningur sem var til meðferðar hjá kærunefnd húsamála er einkaréttarlegur og fellur sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað með 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús, hefur kærunefnd húsamála verið falið það hlutverk að láta í té rökstudd álit um ágreining eigenda fjöleignarhúsa um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum. Telji kærunefndin að lög nr. 26/1994 hafi verið brotin og að á rétt aðila sé hallað beinir hún tilmælum til gagnaðila um úrbætur, sbr. 5. mgr. 80. gr. laganna. Ekki er því um að ræða að kærunefndin kveði á þessum lagagrundvelli upp úrskurði sem eru bindandi fyrir aðila og þá eru úrlausnir hennar samkvæmt 80. gr. laga nr. 26/1994 ekki stjórnvaldsákvarðanir og falla þær því ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. síðarnefndu laganna. Þar sem nefndin er hluti af stjórnsýslu ríkisins ber henni hins vegar að gæta almennra stjórnsýslureglna í störfum sínum eftir því sem við getur átt.

Í ljósi þess sem að framan greinir um stöðu nefndarinnar og eðli þess ágreinings sem hún fjallar um beinist eftirlit umboðsmanns Alþingis með störfum nefndarinnar fyrst og fremst að því hvort hún hafi við úrlausn einstakra mála gætt þeirra almennu stjórnsýslureglna sem eiga við í hverju tilviki, hinna sérstöku reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu.

  

2

Sá hluti álitsbeiðni yðar sem var til úrlausnar í áliti kærunefndarinnar frá 31. ágúst sl. og nefndin taldi ekki gefa tilefni til endurupptöku laut annars vegar að aðgangi yðar að fundargerðum og gögnum sem höfðu verið lögð fram á fundum stjórnar húsfélagsins eftir 29. október 2020 og hins vegar að aðgangi yðar að „formlegri kröfu“ sem hafði verið til umfjöllunar á fundi stjórnarinnar 29. október 2020. Af gögnum málsins fæ ég ráðið að um sé að ræða beiðni dóttur eiganda íbúðar í fjöleignarhúsinu um að ráðist verði í úrbætur á vatnsskemmdum í húsinu og aðgengi að íbúð yðar vegna þess.

Hvað þessa þætti álitsbeiðni yðar snertir kemur fram í áliti kærunefndarinnar að stjórn húsfélagsins hafi ekki synjað yður um aðgang að gögnum og að krafa yðar hafi m.a. lotið að gögnum sem að sögn stjórnarinnar væru ekki til. Þá hefðuð þér fengið aðgang að þeim gögnum er lutu að „formlegri kröfu“ á hendur yður með greinargerð stjórnar húsfélagsins. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri til staðar ágreiningur um aðgang að tilteknu skjali og var kröfum yðar því vísað frá.

Á meðal gagna málsins er tölvubréf stjórnar húsfélagsins til yðar 20. febrúar 2021 en þar kemur m.a. fram að hún sé reiðubúin að veita yðar aðgang að öllum skjölum sem viðkomi húsfélaginu óskið þér eftir því, en sú afstaða er jafnframt áréttuð í þeirri greinargerð sem stjórnin lagði fyrir kærunefnd húsamála. Með þeirri greinargerð fylgdu m.a. gögn er að hluta til lutu að gagnabeiðni yðar. Þá liggur fyrir að frá því að kærunefndin lét álit sitt í ljós hafið þér fengið aðgang að fundargerðum stjórnarinnar.

Eftir að hafa kynnt mér álit kærunefndar húsamála sem og þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að mat nefndarinnar á gögnum málsins hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að málsmeðferð hennar hafi að öðru leyti ekki verið í samræmi við þær reglur sem henni ber að fylgja í störfum sínum.

Hvað snertir athugasemdir yðar um málsmeðferðartíma nefndarinnar liggur fyrir að þér óskuðuð eftir áliti hennar 5. apríl sl. og lét hún álit sitt í té 31. ágúst sl., eða rétt rúmum fimm mánuðum síðar. Samkvæmt 4. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 skal kærunefndin láta í té rökstutt álit svo fljótt sem kostur er og jafnan innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni. Er því ljóst að málsmeðferðartími nefndarinnar fór fram yfir þann viðmiðunartíma. Þær tafir sem urðu á meðferð málsins eru þó ekki þess eðlis að nægilegt tilefni sé til aðhafast sérstaklega vegna þeirra.

  

3

Í kvörtun yðar gerið þér jafnframt athugasemdir við þá ákvörðun kærunefndarinnar að endurupptaka hluta málsins í kjölfar erindis yðar 13 september sl., en þér teljið að í því erindi hafi ekki falist slík beiðni. Í erindi yðar gerðuð þér athugasemdir við álit nefndarinnar frá 31. ágúst sl. og gáfuð henni kost á að draga álitið til baka. Í ljósi þess hvernig erindi yðar var fram sett tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við það mat nefndarinnar að í erindi yðar hafi falist beiðni um endurupptöku málsins.

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari umfjöllunar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.