Kvartað var yfir starfsaðferðum lögreglunnar á Suðurnesjum við handtöku.
Kvörtunarefnið hafði ekki verið borið upp við nefnd um eftirlit með lögreglu og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til erindis yðar 27. janúar sl. fyrir hönd A og kvörtunar 3. febrúar sl., sem starfsmenn umboðsmanns Alþingis fylltu út eftir samtal við A í fangelsinu Litla-Hrauni, yfir starfsaðferðum lögreglunnar á Suðurnesjum við handtöku hans.
Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að vekja athygli yðar á því að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hlutverk hennar er að taka við kvörtunar- og kærumálum á hendur lögreglu, m.a. vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald, greina þau og koma þeim í réttan farveg.
Ástæða þess að yður er gerð grein fyrir þessu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.
Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að leitað sé þeirra leiða sem færar eru innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður getur tekið mál fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður á að þér getið freistað þess að leita með kvörtunarefni yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu. Ef A kýs að leita til nefndarinnar en telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu hennar getur hann leitað til umboðsmanns að nýju. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til til kvörtunarefnis yðar.
Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.