Kvartað var yfir Persónuvernd.
Í kvörtuninni komu fram sömu athugasemdir og í fyrri kvörtun viðkomandi sem umboðsmaður afgreiddi fáeinum vikum fyrr. Sem fyrr átti viðkomandi ekki aðild að málinu og því voru ekki forsendur til að umboðsmaður fjallaði um erindið.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 8. febrúar sl. sem beinist að Persónuvernd. Í kvörtuninni koma fram sömu athugasemdir og í kvörtun yðar í máli nr. 11489/2022, sem lauk með bréfi umboðsmanns Alþingis til yðar 1. febrúar sl., auk þess sem þér áréttið aðild yðar að málinu vegna stöðu yðar sem hjá Akureyrarbæ.
Líkt og rakið var í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns til yðar verður kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur hana fram eða snerta beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki verður séð að þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar snerti hagsmuni eða réttindi yðar umfram aðra í þessum skilningi, heldur varði þau almenn viðbrögð sveitarfélagsins við tiltekinni ákvörðun Persónuverndar sem sneri að vinnslu Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum. Er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Með hliðsjón af framangreindu og því sem áður hafði komið fram í bréfi umboðsmanns til yðar 1. febrúar sl. lýk ég því hér með umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.