Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11565/2022)

Kvartað var yfir uppsögn hjá Isavia.

Isavia er opinbert hlutafélag sem starfar að jafnaði á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Ákvörðun þess um að segja starfsmanni upp er einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

 

    

Vísað er til kvörtunar yðar 18. þessa mánaðar yfir ákvörðun Isavia ohf. [...] um að segja yður upp störfum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið hans taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að starfssvið umboðsmanns taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Isavia er opinbert hlutafélag. Það starfar því að jafnaði á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Þá er ákvörðun félagsins um að segja upp starfsmanni einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Af framan­greindum sökum brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.