Skipulags- og byggingarmál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11379/2021)

Kvartað var yfir niðurstöðum byggingarfulltrúans í Reykjavík og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna tiltekinna framkvæmda annarra eigenda á fasteign.

Umboðsmaður taldi ekki annað ráðið en nefndin hefði, á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem lágu fyrir, lagt fullnægjandi mat á kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja byggingarleyfi. Sá hluti kvörtunarinnar sem laut að ástandi raflagna og kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna þess var enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til erindis yðar 3. nóvember sl., þar sem þér kvartið m.a. yfir niðurstöðum byggingarfulltrúans í Reykjavík og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum sem varða tilteknar framkvæmdir annarra eigenda á fasteign að [...]. Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum má ráða að þér hafið átt í samskiptum við byggingarfulltrúann í Reykjavík frá árinu 2006 vegna framkvæmda á fasteigninni, auk þess sem þér hafið leitað til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafi úrskurðað í málum yðar árin 2017, 2018 og 2021.

  

II

1

Það er meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá leiðir jafnframt af 3. mgr. 6. gr. laganna að athugun umboðsmanns beinist að jafnaði aðeins að úrlausn æðra stjórnvalds sem fjallað hefur um viðkomandi mál, ef slíkri úrlausn er á annað borð til að dreifa. Í ljósi framangreinds hefur athugun á kvörtun yðar, að því leyti sem hún snýr að gerningum sem hafa verið leiddir til lykta hjá stjórnvöldum, verið afmörkuð við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 8. júlí sl. í máli nr. 19/2021.

Í úrskurði nefndarinnar var rakið að þér hefðuð leitað til hennar vegna ætlaðra óleyfisframkvæmda á framangreindri fasteign og krafist þess að mannvirkinu yrði komið í fyrra horf og rask afmáð að fullu, auk þess að krefjast þess að skúr á lóðinni yrði fjarlægður og rask vegna hans einnig afmáð að fullu. Lagði nefndin þann skilning í kæru yðar að þér væruð að krefjast ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að „stækka tvö hurðargöt í íbúð 0101, breyta lagnaleiðum í eldhúsi og setja varmaskipti í kjallara húss nr. [...] við [...]“, þar sem ekki lægi fyrir önnur stjórnvaldsákvörðun í málinu sem kæranleg væri til nefndarinnar.

     Í úrskurðinum voru málavextir og meðferð málsins nánar rakin og farið yfir viðeigandi ákvæði laga nr. 160/2010, um mannvirki, og laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, þ.á m. 3. mgr. 30. gr. síðarnefndu laganna, þar sem kveðið er á um að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi alltaf samþykki einfalds meiri hluta miðað við eignarhluta. Var það niðurstaða nefndarinnar að í ljósi gagna málsins, þ.á m. minnisblaðs byggingarverkfræðings um að framkvæmdin hefði ekki áhrif á burð hússins, féllu framkvæmdirnar undir það að vera smávægilegar breytingar eða endurnýjanir í skilningi ákvæðisins, og með umsókn um byggingarleyfi hefði fylgt tilskilið samþykki eigenda meiri hluta eignarhluta. Því var ekki fallist á kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja byggingarleyfi.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, úrskurð nefndarinnar og önnur fyrirliggjandi gögn, fæ ég ekki séð að tilefni sé fyrir mig til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar eða forsendur hennar, enda fæ ég ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hafi verið lagt á kröfu yðar um ógildingu á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem lágu fyrir.

  

2

Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum má ráða að þér hafið átt í samskiptum við byggingarfulltrúa vegna skúrs á lóð umræddrar fasteignar, og þá sérstaklega vegna ástands raflagna. Í tilefni af því var byggingarfulltrúa ritað bréf 11. janúar sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum sem varpað gætu ljósi á þann hluta málsins sem sneri að ástandi raflagna og kröfu yðar um beitingu þvingunarúrræða vegna þess. Fenguð þér sent afrit af því bréfi. Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust frá sveitarfélaginu 11. febrúar sl.

Í X. kafla laga nr. 160/2010 er fjallað um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög. Í 56. gr. laganna er t.a.m. fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur, en þar segir m.a. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Til þess að knýja menn til verka í þessum efnum, eða láta af ólögmætu atferli, hefur byggingarfulltrúi samkvæmt 2. mgr. 56. gr. heimild til að beita dagsektum, auk þess sem hann getur látið vinna verk, sem hann hefur lagt fyrir að unnið skyldi, á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 59. gr. laganna er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, t.a.m. ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í fyrrgreindu svarbréfi byggingarfulltrúa var m.a. rakið að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefði með úrskurði 8. nóvember 2018 í máli nr. 98/2017 fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans 3. ágúst 2017 um að hafna kröfu yðar um beitingu þvingunarúrræða vegna ástands raflagna í sameign umræddrar fasteignar. Í kjölfar úrskurðarins hefði verið gerð úttekt á ástandi rafmagns og hefði skýrsla vegna þess legið fyrir 2. nóvember 2020. Hlutaðeigandi eigendum hefði í kjölfarið verið gefinn frestur til að bæta úr vanköntum á rafmagni. Í svarinu kom þá m.a. fram að ekki væri ljóst af gögnum málsins hvort úrbæturnar hefðu verið framkvæmdar. Skilmálaeftirliti byggingarfulltrúa hefði því verið gert viðvart um stöðu málsins.

Verður svar byggingarfulltrúa ekki skilið á annan hátt en þann að sá hluti kvörtunar yðar sem snertir framangreint, þ.e. ástand raflagna og kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna þess, sé enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Af fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 leiðir að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það. Mál skuli því ekki tekið til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum úrskurður æðra stjórnvalds.

Af þessu tilefni er rétt að benda yður á að í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er gert ráð fyrir því að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Þegar tekin er afstaða til þess hvort afgreiðsla máls hjá lægra settu stjórnvaldi hefur dregist óhæfilega getur reynt á hvaða skyldur hvíli á því stjórnvaldi til þess að afgreiða málið, þ.e. til þess að taka efnislega afstöðu til málsins og að afgreiða málið innan hæfilegs tíma. Komist æðra stjórnvald að þeirri niðurstöðu að mál hafi dregist óhæfilega felst jafnframt í þeirri niðurstöðu almennt sú afstaða að lægra settu stjórnvaldi beri að afgreiða málið sem fyrst.

Með hliðsjón af framangreindu hafið þér því þann möguleika að freista þess að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna þess tíma sem meðferð málsins hefur tekið hjá sveitarfélaginu og fá þá eftir atvikum afstöðu hennar til meðferðar málsins að þessu leyti. Farið þér þá leið og verðið ósátt að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis á nýjan leik.

Að öðru leyti en að framan greinir tel ég að kvörtun yðar gefi ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.