Landbúnaður. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Valdframsal. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11438/2021)

Kvartað var yfir viðbrögðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í tilefni af því að tveimur hrossum viðkomandi var vísað frá kynbótasýningu á þeim grunni að ekki lágu fyrir DNA-upplýsingar um foreldra þeirra. Óskað var eftir að ráðgjafarmiðstöðin endurgreiddi sýningargjöld fyrir hrossin eða úthlutaði tveimur sýningartímum kostnaðarlaust sem miðstöðin hafnaði.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að ekki væru skilyrði að svo stöddu til að hann fjallaði um kvörtunina. Fyrst þyrfti að bera hana undir Bændasamtök Íslands og niðurstöðu þeirra mætti svo skjóta til matvælaráðuneytisins áður en umboðsmaður gæti tekið hana til umfjöllunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 10. desember sl. yfir því hvernig Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. brást við erindi yðar í tilefni af því að tveimur hrossum yðar var vísað frá kynbótasýningu á þeim grunni að ekki lágu fyrir DNA-upplýsingar um foreldra þeirra. Með erindinu óskuðuð þér eftir því að ráðgjafarmiðstöðin endurgreiddi yður sýningargjöld fyrir téð hross eða úthlutaði yður tveimur sýningartímum yður að kostnaðarlausu. Var beiðni yðar synjað 1. júlí sl. Kvörtun yðar beinist að þeirri afstöðu, auk þess sem gerðar eru athugasemdir við að ráðgjafarmiðstöðin kynni ekki fyrir fram hvaða dómarar komi til með að annast bygginga- og hæfileikadóm á kynbótasýningum en aðrir starfsmenn sýninganna séu tilgreindir.

  

II

1

Um kynbótaverkefni er fjallað í III. kafla búnaðarlaga nr. 70/1998. Þar segir að markmið kynbóta sé að tryggja framfarir í ræktun búfjár í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni íslensks búfjár og búfjárafurða, sbr. 9. gr. laganna. Í 10. gr. þeirra kemur fram að Bændasamtök Íslands skuli sjá um kynbótaskýrsluhald fyrir hverja búgrein og móta um það reglur ásamt fagráðum og bera ábyrgð á kynbótamati á grundvelli þess. Þá er kveðið á um það í 13. gr. búnaðarlaga að fagráð hverrar búgreinar skuli meta þörf fyrir kynbótadóma og sýningar búfjár í viðkomandi búgrein og gera tillögur til bændasamtakanna og viðkomandi aðildarfélaga um dómstörf og sýningarhald.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 442/2011, um uppruna og ræktun íslenska hestsins, er fjallað nánar um kynbótamarkmið, kynbótadóma og sýningar, en reglugerðina setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nú matvælaráðherra, með stoð í 19. gr. búnaðarlaga. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að í tengslum við kynbótamarkmið, -dóma og -mat, sýningahald og skipun dómnefnda skuli farið eftir reglum sem eru birtar í viðauka reglugerðarinnar.

Í viðaukanum, svo sem hann er úr garði gerður eftir að honum var breytt með reglugerð nr. 568/2020, um breytingu á reglugerð nr. 442/2011, er kveðið á um að opinbert ræktunarstarf eigi sér lagastoð í búnaðarlögum. Þar komi fram að bændasamtökin hafi á hendi faglega yfirumsjón með því starfi í umboði og samkvæmt samningi við ráðherra en hann hafi á hendi yfirstjórn allra mála sem lögin taki til.

Milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands er í gildi rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017-2026. Í 4. gr. samningsins er fjallað um kynbótaverkefni, en þar segir að bændasamtökin ráðstafi fjármunum sem ætlaðir eru til kynbótaverkefna samkvæmt samningnum. Þar skuli einkum litið til verkefna eins og kynbótaskýrsluhalds og ræktunar- og einangrunarstöðva.

Í 15. gr. samningsins segir að bændasamtökin og aðrir aðilar sem fari með verkefni samkvæmt búnaðarlögum geti tekið gjald fyrir þá þjónustu sem þau veita á grundvelli samningsins, sbr. heimild til slíkrar gjaldtöku í 3. mgr. 3. gr. laganna og samkvæmt gjaldskrám sem ráðherra staðfestir. Þá er mælt fyrir um það í 16. gr. samningsins að bændasamtökin beri ábyrgð á framkvæmd þeirra þátta hans sem þeim er falið að annast. Einnig kemur fram að samtökunum sé heimilt að fela aðildarfélögum sínum og/eða félagi sem er í eigu samtakanna og starfar á ábyrgð þeirra verkefni samkvæmt samningnum enda samræmist það 40. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Í 17. gr. samningsins kemur svo fram að ráðherra hafi eftirlit með framkvæmd hans og að bændasamtökin skuli skrá sérstaklega formlegar kvartanir sem berast vegna framkvæmdar samningsins og enn fremur hvaða meðferð kvartanir fá hjá samtökunum.

  

2

Samkvæmt framangreindum ákvæðum um kynbótaverkefni á grundvelli búnaðarlaga hefur ráðherra fyrir hönd ríkisins falið Bændasamtökum Íslands það hlutverk að annast framkvæmd þess verkefnis, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna og 2. tölulið 2. gr. samþykkta samtakanna. Í 3. mgr. 3. gr. búnaðarlaga segir enn fremur að bændasamtökin hafi á hendi faglega og fjárhagslega umsjón þeirra verkefna sem samið er um samkvæmt 1. mgr. og fjárveiting heimilar og annist framkvæmd þeirra nema öðruvísi sé um samið eða ákveðið með lögum, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna. Bændasamtökin, félög í fullri eigu þeirra og önnur samtök sem fari með verkefni samkvæmt lögunum geti tekið gjald fyrir þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.

Svo sem bændasamtökunum er sem fyrr greinir heimilt hafa þau falið Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sem er einkahlutafélag í eigu samtakanna og hefur stöðu sem „leiðbeiningarmiðstöð“ í skilningi 4. töluliðar 1. gr. og IV. kafla búnaðarlaga, að sjá um framkvæmd kynbótaverkefna. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en að ráðherra hafi með samningi á grundvelli búnaðarlaga falið einkaréttarlegum aðila framkvæmd verkefnis sem er opinbers eðlis og í fyrrgreindum rammasamningi er gert ráð fyrir að unnt sé að bera kvartanir vegna framkvæmdar hans undir bændasamtökin. Þá leiðir af almennum reglum stjórnsýsluréttar að hafi stjórnvald falið öðrum aðila framkvæmd tiltekinna opinberra verkefna sé almennt heimilt að kæra framkvæmd þess til stjórnvaldsins, sbr. t.d. bréf umboðsmanns Alþingis 8. nóvember 1999 í máli nr. 2814/1999. Verður ekki annað ráðið en að það styðjist einnig við fyrrgreind ákvæði 3. mgr. 3. gr. búnaðarlaga.

Ástæða þess að þessi ákvæði hafa verið rakin hér að framan er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 2561).

Umkvörtunarefni yðar verða skilin þannig að í þeim felist annars vegar að gerðar séu athugasemdir við skipulag kynbótaverkefna hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. og hins vegar gjaldtöku félagsins fyrir veitta þjónustu. Af þeim sökum og að teknu tilliti til þess sem fyrr greinir um lagagrundvöll þess að verkefninu er fyrir komið hjá ráðgjafarmiðstöðinni tel ég rétt að þér berið kvörtun yðar undir bændasamtökin. Að fenginni afstöðu samtakanna getið þér freistað þess að skjóta málinu til matvælaráðuneytisins ef þér teljið þá efni til þess. Að svo stöddu eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar, sbr. þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Með vísan til þess sem rakið er að framan og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni á kvörtun yðar. Að fenginni afstöðu framangreindra aðila getið þér leitað til mín á ný teljið þér þá ástæðu til þess.