Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11451/2021)

Kvartað var yfir breytingu sem gerð var á embætti viðkomandi árið 2018 og hann taldi ekki í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að tiltekið embætti hefði ekki verið auglýst laust til umsóknar. 

Þar sem meira en ár var liðið frá því að breytingin á embættinu var gerð voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Hvað snerti athugasemdir við að tiltekið embætti hefði ekki verið auglýst laust til umsóknar benti umboðsmaður á að samkvæmt upplýsingum sem fram komu í kvörtuninni hefði sá sem settur var í embættið verið fluttur til í starfi á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki var því tilefni til að taka það til nánari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember sl. yfir stöðuveitingu yðar í embætti [...]  árið 2016 og þeirri breytingu sem gerð var á henni í árslok 2018. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni teljið þér að umrædd breyting hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá gerið þér jafnframt athugasemdir við að embætti [...] hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem kvörtun yðar lýtur einkum að ákvörðunum sem eru utan ársfrestsins eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar. Samskipti yðar við sviðsstjóra mannauðssviðs 19. nóvember sl. hrófla ekki við þeirri niðurstöðu.

Hvað snertir það atriði í kvörtun yðar er lítur að skipun í embætti [...] í síðastliðnum júnímánuði er rétt að taka fram að samkvæmt upplýsingum sem fram koma í kvörtun yðar var téður [...] fluttur í embætti [...] á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt. 1. mgr. 7. gr. þeirra skal auglýsa laust embætti. Í 2. málslið sama ákvæðis er hins vegar kveðið sérstaklega á um að heimilt sé að flytja mann í embætti samkvæmt 36. gr. laganna án þess að embættið sé jafnframt auglýst laust til umsóknar. Stjórnvald sem skipað hefur mann í embætti getur því flutt hann úr einu embætti í annað enda heyri bæði embættin undir það, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Með vísan til framangreinds og miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu er ekki nægilegt tilefni til að ég taki þetta atriði til nánari athugunar. 

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.