Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 11481/2022)

Kvartað var starfsmönnum þjónustumiðstöðvar í Reykjavík og velferðarsviðs borgarinnar. 

Af svörum velferðarsviðs varð ráðið að viðkomandi hefði hlotið aðstoð og að málin væru í réttum farvegi. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. janúar sl. yfir starfsmönnum þjónustumiðstöðvar Breiðholts og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Í tilefni af kvörtun yðar var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 14. janúar sl. Í svari sem barst frá þjónustumiðstöð Breiðholts 24. febrúar sl. kemur fram að starfsmaður hafi fylgt yður á bráðamóttöku Landspítalans og verið yður innan handar þar. Hann hafi ritað undir sem vottur að undirskrift yðar í tengslum við útskrift gegn læknisráði sem þér óskuðuð sjálfir eftir. Jafnframt kemur fram að tölvupóstar frá yður séu almennt settir í réttan farveg og þeim svarað. Í þeim tilvikum sem erindi frá yður lúta að aðdróttunum og/eða hótunum í garð starfsmanna hafi starfsmenn ekki talið tilefni til að svara þeim. Þá segir að starfsmaður þjónustumiðstöðvar Breiðholts hafi, í samráði við yður, verið í samskiptum við Félagsbústaði í tengslum við lagfæringar á húsnæði yðar. Af þessu verður ráðið að þér hafið hlotið aðstoð við samskipti yðar við Félagsbústaði og að mál yðar sé í farvegi.

Að fengnum framangreindum upplýsingum tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.