Skattar og gjöld. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11486/2022)

Kvartað var yfir að samkvæmt gjaldskrá Grímsness- og Grafningshrepps þyrfti viðkomandi að greiða hærra verð fyrir árskort í sund en þau sem þar eiga lögheimili. Leitað hafði verið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með erindið sem sagði það ekki ekki tækt til úrskurðar sem stjórnsýslukæra á grundvelli sveitarstjórnarlaga en metið yrði hvort það gæfi tilefni til að fjalla um málið að eigin frumkvæði.

Í svari frá ráðuneytinu kom fram að málinu væri ekki lokið en væntingar stæðu til að skoðun þess lyki að vori. Það réðist þó að einhverju leyti af skýringum sveitarfélagsins. Málið var því í farvegi og rétt að ráðuneytið lyki athugun sinni áður en það kæmi til kasta umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. janúar sl. er lýtur að því að samkvæmt gjaldskrá Grímsness- og Grafningshrepps hafi yður verið gert að greiða hærra gjald fyrir árskort í íþróttamiðstöð og sundlaug sveitarfélagsins en þeim sem þar áttu lögheimili. Vegna þessa leituðuð þér til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, með erindi 1. október sl. Í svari ráðuneytisins 6. janúar sl. kom fram að ágreiningsefnið væri ekki tækt til úrskurðar á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en að ráðuneytið myndi leggja mat á það hvort erindið gæfi tilefni til að fjalla um málið að eigin frumkvæði.

Í tilefni af kvörtun yðar var innviðaráðuneytinu ritað bréf 3. febrúar sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti nánari upplýsingar um stöðu málsins, þann farveg sem það hefði verið lagt í og hinn fyrirhugaða málsmeðferðartíma. Ástæða þeirra bréfaskipta var sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Svör ráðuneytisins bárust með bréfi 22. febrúar sl., sem hér fylgir hjálagt í ljósriti, en þar kemur m.a. fram að gagnaöflun í málinu sé ekki lokið og því hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort atvik málsins séu með þeim hætti að þau gefi tilefni til að málið verði tekið til formlegrar umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Málsmeðferðartími ráðuneytisins muni að einhverju leyti ráðast af skýringum sveitarfélagsins en væntingar standi til þess að skoðun málsins muni ljúka í vor.

Af svörum ráðuneytisins verður ráðið að málið hafi verið lagt í ákveðinn farveg, þar sem m.a. verði leitið eftir skýringum sveitarfélagsins, og að afstaða verði tekin til málsins á grundvelli þeirra. Í ljósi svara ráðuneytisins sem og þeirra sjónarmiða sem búa að baki fyrirmælum 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég því rétt að það ljúki athugun sinni á málinu áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis með kvörtun. Ef þér teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.