Skipulags- og byggingarmál. Byggingarleyfi. Sveitarfélög. Rannsóknarreglan. Afturköllun.

(Mál nr. 11049/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ við stöðvun byggingar á íbúðarhúsi í sveitarfélaginu. Hafði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfest ákvörðun byggingarfulltrúans sem byggðist á því að hæð hússins væri ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags og uppfærða uppdrætti hússins sem byggingarfulltrúinn hafði skömmu áður samþykkt fyrir sitt leyti. Athugun umboðsmanns laut að því hvort úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi haft fullnægjandi forsendur til að staðfesta þá ákvörðun byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdirnar.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um mannvirki og hvaða skyldur hvíla á byggingarfulltrúa við samþykkt byggingaráforma, útgáfu byggingarleyfis og stöðvun framkvæmda. Benti hann á að útgáfa byggingarleyfis væri stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldinu kynni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi, ýmist á grundvelli laga um mannvirki eða stjórnsýslulaga. Teldi stjórnvaldið að skilyrði væru til þess að afturkalla byggingarleyfi sökum þess að það væri haldið slíkum annmörkum að það væri ógildanlegt bæri að gæta að viðeigandi málsmeðferðarreglum. Þegar um ívilnandi ákvörðun á borð við útgáfu byggingarleyfis væri að ræða yrði að líta til upplýsingagjafar málsaðila við útgáfu leyfis, réttmætis væntinga hans á þeim grundvelli og eftir atvikum leggja mat á þá hagsmuni sem í húfi væru fyrir hann og aðra sem í hlut kynnu að eiga af gildi leyfisins. Að þessu leyti yrði að hafa í huga að gera yrði ríkari kröfur til málsmeðferðar og undirbúnings ákvörðunar eftir því sem ákvörðun um afturköllun sem stjórnvald hygðist grípa til væri meira íþyngjandi fyrir aðila málsins.

Í málinu lá fyrir að hæð hússins var í samræmi við byggingarleyfi sem A hafði fengið útgefið og þá uppdrætti sem byggingarfulltrúinn hafði upphaflega samþykkt. Umboðsmaður benti á að byggingarfulltrúa væri við ákveðnar aðstæður rétt að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan rannsakað væri hvort byggingarleyfi yrði fellt niður eða afturkallað. Þrátt fyrir það yrði ekki annað ráðið af rökstuðningi ákvörðunar hans um stöðvun framkvæmda en að hún hefði byggst á því að hæð hússins væri ekki í samræmi við skipulagsskilmála og uppfærða uppdrætti hússins. Að þessu leyti hefði aftur á móti ekkert komið fram um að byggingarfulltrúi hefði eftir stöðvun framkvæmdanna hafið undirbúning að ákvörðun um niðurfellingu eða afturköllun byggingarleyfisins.

Umboðsmaður benti á að fyrir lægi að A hefði mótmælt því að hafa óskað eftir breytingum á byggingarleyfi til samræmis við þær teikningar sem byggingarfulltrúi hefði samþykkt og byggt á. Vafi væri á hvort umrædd bygging væri í samræmi við gildandi byggingarleyfi eða ekki. Það hefði verið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að ganga úr skugga um hvort breytingin hefði verið gerð með gildum hætti þannig að hún yrði lögmætur grundvöllur stöðvunar. Rannsókn nefndarinnar hefði að þessu leyti verið ábótavant. Með vísan til þeirrar forsendu úrskurðarnefndarinnar að vikið hefði verið frá skilmálum deiliskipulags benti umboðsmaður á að yrði það niðurstaðan, eftir viðhlítandi rannsókn málsins, að byggingin hefði ekki verið reist í samræmi við gildandi byggingarleyfi gæti hvers kyns frávik frá deiluskipulagi ekki sjálfkrafa geta orðið lögmætur grundvöllur stöðvunar á grundvelli laga um mannvirki. Eins og atvikum málsins væri háttað hefði verið ríkt tilefni fyrir úrskurðarnefndina að taka öll atvik og málsmeðferð byggingarfulltrúans til heildstæðrar skoðunar.  Málsmeðferð nefndarinnar hefði því einnig verið ábótavant að þessu leyti og úrskurður nefndarinnar því ekki í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi því til nefndarinnar að taka mál A aftur til meðferðar bærist beiðni þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og hafa þau framvegis í huga.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 7. apríl 2022.