Eignir ríkisins. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11655/2022)

Kvartað var yfir fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Bankasýslu ríkisins vegna framsals ákvörðunarvalds fjármála- og efnahagsráðherra til Bankasýslu ríkisins um hvort samþykkja ætti tilboð í eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. við sölu eignarhluta ríkisins í bankanum í mars 2022.

Fram kom í kvörtuninni að viðkomandi hefði ekki verið á meðal þátttakenda í útboðinu. Ekki varð því ráðið að kvörtunin varðaði beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því ekki forsendur til að taka hana til nánari athugunar sem kvörtun. Þá taldi umboðsmaður ekki rétt, að svo stöddu, að taka málefni tengd umræddri sölu upp að eigin frumkvæði. Ríkisendurskoðun hefði fallist á beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gera úttekt á útboðinu. Þá hefði fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafið rannsókn á tilgreindum þáttum sölunnar og ennfremur hefði komið fram í fjölmiðlum að Alþingi kynni sjálft að hlutast til um rannsókn málsins með skipun sérstakrar rannsóknarnefndar þegar úttekt Ríkisendurskoðunar lægi fyrir.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. apríl sl. sem beinist að fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Bankasýslu ríkisins og lýtur að framsali ákvörðunarvalds fjármála- og efnahagsráðherra til Bankasýslu ríkisins um hvort samþykkja ætti tilboð í eignarhluta íslenska ríkisins í Íslandsbanka hf. við sölu á eignarhluta ríkisins í bankanum 22. mars sl. Fram kemur í kvörtuninni að þér hafið ekki verið á meðal þátttakenda í útboðinu.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ég fæ ekki ráðið að þau atriði sem tilgreind eru í kvörtun yðar snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að taka erindi yðar til nánari athugunar sem kvörtun.

Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Að þessu leyti hef ég þó horft til þess að nú liggur fyrir að Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gera úttekt á útboði og sölu ríkisins á bankanum. Jafnframt hefur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafið rannsókn á nánar tilgreindum þáttum sölunnar. Að síðustu hefur komið fram í fjölmiðlum að Alþingi kunni sjálft að hlutast til um rannsókn málsins með skipun sérstakrar rannsóknarnefndar þegar úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir. Í ljósi þessara aðstæðna tel ég, að svo stöddu, ekki rétt að taka málefni tengd umræddri sölu eignarhluta í Íslandsbanka hf. upp að eigin frumkvæði.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.