Gjafsókn. Gjafsóknarnefnd. Lagaskilyrði fyrir gjafsókn. Álitsumleitan. Rökstuðningur. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 753/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 25. nóvember 1993.

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun gjafsóknarnefndar að mæla ekki með því, að honum yrði veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti samkvæmt lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í tíð eldri laga hafði dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitt A gjafvarnarleyfi í undirrétti í máli á hendur lögmanni einum til greiðslu skaðabóta og endurgreiðslu lögmannsþóknunar. Í héraði voru kröfur A að mestu teknar til greina. Gagnaðili áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og var A veitt gjafvörn í því máli. Hæstiréttur ómerkti héraðsdóminn og heimvísaði málinu. Með nýjum dómi var stefndi sýknaður af bótakröfu A en dæmdur til endurgreiðslu lögmannsþóknunar. A áfrýjaði málinu og óskaði gjafsóknar. Þeirri beiðni hafnaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið og vísaði til þeirrar umsagnar gjafsóknarnefndar, að hvorki fjárhagur A né aðrar ástæður samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 gæfu tilefni til að mæla með gjafsókn, en neikvæð umsögn nefndarinnar bindur ráðuneytið, sbr. 4. mgr. 125. gr. laga þessara. Í hæstaréttarmálinu var lögmaðurinn dæmdur til að greiða A skaðabætur.

Að því er snertir það skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, að gjafsókn verði því aðeins veitt, að málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar, benti umboðsmaður á, að lagaákvæði um gjafsókn væru sett til að tryggja möguleika hinna efnaminni til að fá úrlausn dómstóla um ágreiningsefni, svo að réttindi einstaklinga glötuðust ekki sökum efnaleysis. Það væru og almennt mikilsverð réttindi manna að geta fengið úrlausn dómstóla um ágreiningsmál og væru slík réttindi vernduð af mannréttindasáttmálum, svo sem 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Með hliðsjón af því og tilgangi lagaákvæða um gjafsókn sérstaklega áleit umboðsmaður, að ekki ætti að beita þröngri túlkun á því almenna gjafsóknarskilyrði, að nægilegt tilefni skuli vera til málshöfðunar. Umboðsmaður taldi það vera á verksviði gjafsóknarnefndar að leysa úr hverri umsókn með tilliti til lagaskilyrða og aðstæðna í hverju máli og bæri nefndinni að hafa hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar við þá úrlausn. Gjafsóknarnefnd hafði sem vinnureglu að veita að jafnaði ekki gjafsókn fyrir Hæstarétti, ef umsækjandi hefði tapað máli fyrir undirrétti. Þótt umboðsmaður teldi þessi sjónarmið út af fyrir sig ekki óréttmæt, varaði hann við því, að verklagsreglur af þessum toga réðu niðurstöðu um of, enda bæri stjórnvaldi að leggja mat á hvert málefni.

Umboðsmaður tók fram, að umsagnir álitsgjafa yrðu yfirleitt að vera rökstuddar, svo að þær næðu tilgangi sínum. Umsagnir gjafsóknarnefndar væru bindandi, þannig að gjafsókn yrði því aðeins veitt, að nefndin mælti með því. Taldi umboðsmaður því, að gjafsóknarnefnd bæri að rökstyðja niðurstöðu um að mæla ekki með gjafsókn. Þótt ákvæði stjórnsýslulaga um rökstuðning tækju ekki beinlínis til umsagna, taldi umboðsmaður, að meginreglur þær, sem ákvæði laganna um rökstuðning væru byggð á, leiddi óhjákvæmilega til þess, að gjafsóknarnefnd bæri að rökstyðja neikvæða umsögn sína, ella lægju sjónarmið fyrir niðurstöðu ekki fyrir, sem leiddi til þess, að ráðuneytinu væri ókleift að rökstyðja synjun svo sem því væri skylt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga um rökstuðning. Við mat á tilefni málshöfðunar kæmu til athugunar bæði lagareglur og sönnunarreglur. Almenn staðhæfing gjafsóknarnefndar, að hvorki fjárhagur umsækjanda né aðrar ástæður gæfu tilefni til að mæla með gjafsókn uppfyllti ekki þær kröfur, sem gera yrði til rökstuðnings nefndarinnar. Í neikvæðri umsögn yrði að gera grein fyrir þeirri lögskýringu og þeim sönnunarvanda, sem leiddi til neikvæðrar niðurstöðu.

Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þær viðmiðunarreglur, sem gjafsóknarnefnd hafði sett sér við mat á skilyrði a-liðs 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um efnahag umsækjenda. Hins vegar vakti umboðsmaður athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis á því samkvæmt 11. gr. laga nr. 13/1987, að í lögum nr. 91/1991 væri ekki að finna heimild til að setja reglugerð til viðmiðunar um fjárhag umsækjenda við veitingu gjafsóknar og taldi ástæðu til að taka slíka heimild í lög. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það fjallaði á ný um gjafsóknarbeiðni A, kæmi fram ósk frá honum um það, og ef gjafsókn yrði veitt, yrði þess gætt, að A yrði ekki lakar settur fjárhagslega en ætla mætti, að hann hefði orðið með veitingu gjafsóknar fyrir uppkvaðningu fyrrnefnds dóms Hæstaréttar.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 21. janúar 1993 bar A, fram kvörtun út af þeirri ákvörðun gjafsóknarnefndar, að mæla ekki með því að honum yrði veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti.

Málavextir eru þeir, að hinn 3. júní 1988 veitti dóms- og kirkjumálaráðherra A gjafsókn fyrir undirrétti í máli, sem hann höfðaði á hendur X, hæstaréttarlögmanni, til greiðslu skaðabóta og endurgreiðslu lögmannsþóknunar. Með dómi, sem kveðinn var upp á bæjarþingi Ö 12. maí 1989, voru kröfur A að mestu teknar til greina. Stefndi, X, áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og var A veitt gjafvörn í hæstaréttarmálinu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 5. mars 1990. Að ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess. Með dómi Hæstaréttar var héraðsdómur síðan ómerktur vegna dráttar á dómsuppsögu. Var málinu vísað til héraðsdóms á ný, til munnlegs flutnings og dómsuppsögu.

Héraðsdómur kvað upp nýjan dóm 29. apríl 1992, og var stefndi, X, þá sýknaður af bótakröfu stefnanda, A, en dæmdur til að endurgreiða lögmannsþóknun. Með bréfi, dags. 10. júní 1992, óskaði A eftir gjafsókn fyrir Hæstarétti vegna áfrýjunar málsins. Með bréfi, dags. 30. september 1992, hafnaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið gjafsóknarbeiðninni og vísaði til þeirrar umsagnar gjafsóknarnefndar, að hvorki fjárhagur umsækjanda né aðrar ástæður skv. 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gæfu tilefni til að mæla með að gjafsókn yrði veitt. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 26. nóvember 1992, var beiðni um endurskoðun þessarar ákvörðunar hafnað. Vísaði ráðuneytið til 4. mgr. 125. gr. laga um meðferð einkamála og umsagnar gjafsóknarnefndar, sem ekki taldi tilefni til að breyta fyrri afstöðu.

Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 1993 var X dæmdur til að greiða A kr. 115.900,- í skaðabætur með dráttarvöxtum frá 19. apríl 1988 til greiðsludags, auk kr. 50.000,- í málskostnað.

Kvörtun A beinist að umsögn gjafsóknarnefndar. Bendir hann á, að hann hafi með ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 5. mars 1990, fengið gjafvarnarleyfi í sama máli og beiðni um gjafsókn er síðar hafnað í, en aðstæður sínar hafi í engu breyst á þessum tíma.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 4. febrúar 1993 fór ég þess á leit, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Sérstaklega var þess óskað, að gerð yrði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem talin væru réttlæta aðra niðurstöðu í málinu við ákvörðun ráðuneytisins 30. september 1992 en komist var að hinn 5. mars 1990. Í svarbréfi ráðuneytisins frá 10. febrúar 1993 segir:

"Í upphafi telur ráðuneytið rétt að benda á að með gildistöku laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, hinn 1. júlí sl., varð sú breyting á meðferð umsókna um gjafsókn að samkvæmt 2. mgr. 125. gr. skal dómsmálaráðherra skipa sérstaka gjafsóknarnefnd sem skal veita umsögn um umsóknir um gjafsókn og samkvæmt 4. mgr. sömu greinar verður gjafsókn því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því. Gjafsóknarnefnd mælti gegn því að [A] væri veitt umbeðin gjafsókn og var ráðuneytinu því óheimilt að veita umbeðið leyfi, sbr. áðurgreinda 4. mgr. 125. gr. laga um meðferð einkamála. Með bréfi þessu fylgir umsögn gjafsóknarnefndar um beiðnir [A] frá 30. september og 26. nóvember svo og minnisblað sem nefndin tók saman varðandi beiðnina.

Varðandi sjónarmið sem talin eru réttlæta aðra niðurstöðu í málinu við ákvörðun ráðuneytisins 30. september 1992 en komist var að hinn 5. mars 1990, vill ráðuneytið taka fram til viðbótar því sem áður er rakið um breyttar heimildir ráðuneytisins til veitingar gjafsóknar að aðstæður nú og árið 1990 eru ekki þær sömu að því leyti að árið 1990 var það ekki [A] heldur [X] sem áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, en nú er það [A] sem hefur áfrýjað málinu. Í gildistíð laga um meðferð einkamála í héraði nr. 85/1936 var það meginregla hjá ráðuneytinu að ef gjafsóknarhafi í héraði vann mál þar og gagnaðili áfrýjaði var sama aðila einnig veitt gjafvörn í Hæstarétti."

Í umsögn gjafsóknarnefndar frá 28. september 1992 sagði svo:

"Umsækjandi fékk gjafsókn í héraði en tapaði málinu þar. Hvorki fjárhagur umsækjanda né aðrar ástæður skv. 1. mgr. 126. gr. l. 91/1991 gefa tilefni til að mæla með því að gjafsókn verði veitt."

Í síðari umsögn nefndarinnar frá 20. nóvember 1992, vegna beiðni um endurskoðun fyrri ákvörðunar, var um rökstuðning vísað til minnispunkta, en þar segir meðal annars:

"Samanlagðar tekjur umsækjanda og eiginkonu hans eru kr. 2.282 þús 1990 og kr. 2.060 þús 1991 og hrein eign 31/12 1991 kr. 5.362 þús.

Nefndin hefur sett sér þá vinnureglu að veita að jafnaði ekki gjafsókn fyrir Hæstarétti ef umsækjandi tapar máli fyrir undirrétti nema einhverjar ríkar ástæður réttlæti að veita slíkt leyfi. Ekki sýnist vera fyrir hendi í þessu máli slíkar ástæður. Auk þess er fjárhagur umsækjanda þannig að ekki er ástæða af þeim sökum að veita leyfi.

Með vísun til þess mælir nefndin ekki með því að gjafsóknarleyfi fyrir Hæstarétti verði veitt."

III.

Hinn 18. mars 1993 óskaði ég eftir því við gjafsóknarnefnd, að nefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987. Sérstaklega var þess óskað að gerð yrði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem talin voru réttlæta aðra niðurstöðu við ákvörðun ráðuneytisins 30. september 1992 en komist var að hinn 5. mars 1990. Ég mæltist til þess að nefndin gerði grein fyrir því, á hvaða tekjumörkum hún byggði við beitingu ákvæða a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þeirrar vinnureglu, sem nefndin lýsti um afgreiðslu áfrýjunarmála, fór ég fram á að nefndin gerði grein fyrir því, hvort önnur sjónarmið væru lögð til grundvallar gjafsókn fyrir Hæstarétti en héraðsdómi og ef svo væri, á hvaða lagaheimild sú niðurstaða byggðist. Í svarbréfi gjafsóknarnefndar, dags. 28. apríl 1993, segir meðal annars:

"1. [A] fékk gjafvörn fyrir Hæstarétti 5. mars 1990 á grundvelli ákvæða XI. kafla laga nr. 85/1936. Málinu var vísað frá Hæstarétti. Gjafsóknarnefnd taldi sig ekki bundna af fyrri ákvörðun um gjafvörn þegar hún mat nýja umsókn [A], að þessu sinni um gjafsókn. Byggði nefndin niðurstöðu sína alfarið á ákvæðum XX. kafla laga nr. 91/1991.

2. Tilefni málssóknar [A] var bótakrafa að höfuðstól 115.900 kr. vegna meintra mistaka lögmanns í starfi. Tekjur [A] og eiginkonu hans gjaldárið 1991 námu 2.282.785 kr. og 2.060.011 kr. gjaldárið 1992. Hrein eign þeirra nam 5.007.108 kr. (6.620.000 kr. - 1.612.892 kr.) 31. desember 1990 og 5.367.282 kr. (6.932.000 kr. - 1.564.178 kr.) 31. desember 1991. Gjafsóknarnefnd hefur ekki einskorðað sig við ákveðin tekju- og eignamörk við afgreiðslu umsókna, en horfir meðal annars til skattleysismarka á hverjum tíma. Skattleysismörk tekna einstaklings nema nú 685.370 kr. og eigna 3.527.350 kr. og hjóna tvöfalt hærri fjárhæðum. Einnig er litið til fjölskyldustærðar umsækjanda, skuldabyrði og afkomu almennt. Endanleg niðurstaða byggir á heildarmati á þessum þáttum og fleirum. Í a lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 er sett það eindregna skilyrði fyrir gjafsóknarleyfi, að kostnaður við hagsmunagæslu verði að vera umsækjanda fyrirsjáanlega ofviða. Með hliðsjón af upplýsingum um tekjur og eignir [A] og eiginkonu hans var það mat Gjafsóknarnefndar að nefnt skilyrði væri ekki uppfyllt.

3. Í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 segir að gjafsókn verði aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málsóknar. Gjafsóknarnefnd lítur svo á að með málsmeðferð í héraði og dómsniðurstöðu hafi málstaður umsækjanda gjafsóknar og tilefni umsóknar hans fengið rökstudda umfjöllun. Tapist mál umsækjanda í héraði sé ekki sjálfgefið að nægilegt tilefni sé enn til staðar, nú til áfrýjunar. Við mat á umsóknum í tilvikum sem þessum metur Gjafsóknarnefnd það sérstaklega hvort áfrýjun sé réttlætanleg. Hér er horft til þess hvort ástæða sé til að ætla að Hæstiréttur breyti niðurstöðu héraðsdóms. Hvort héraðsdómur orki tvímælis. Einnig er litið til hagsmuna sem í húfi eru. Að baki liggja sömu sjónarmið og þegar ákvörðun er tekin um áfrýjun. Að þessu leyti koma til skoðunar sérstakar og aðrar ástæður en við mat á umsókn um gjafsókn í héraði. Við mat á þessum nýju ástæðum og öðrum atriðum varðandi umsókn um gjafsókn fyrir Hæstarétti leggur Gjafsóknarnefnd að öllu leyti til grundvallar sömu lagasjónarmið og þegar umsókn um gjafsókn í héraði er metin. Vakin er athygli á að samkvæmt 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 er lögskylt að veita gjafvörn fyrir Hæstarétti ef mál umsækjanda hefur unnist í héraði og gagnaðili hans áfrýjar. Það á ekki við þegar mál umsækjanda hefur tapast. Orðalag óformlegra minnispunkta Gjafsóknarnefndar í máli [A] ber að skilja með hliðsjón af þessum skýringum."

Með bréfum, dags. 12. febrúar 1993 og 3. maí 1993, gaf ég A kost á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og gjafsóknarnefndar. Svör hans bárust mér með bréfum 15. mars og 18. maí 1993.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 25. nóvember 1993, rakti ég breytingar á lagaákvæðum um gjafsókn og sjónarmið að baki ákvæðunum:

"Gjafvarnarleyfi til A frá 5. mars 1990 náði samkvæmt leyfisbréfinu til hæstaréttarmálsins nr. 221/1989: X gegn A. Við áfrýjun A á dómi bæjarþings Ö frá 29. apríl 1992 var ekki um sama mál að ræða í skilningi réttarfarslaga. A var því rétt að óska á ný eftir leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, nú til gjafsóknar í áfrýjunarmáli nr. 248/1992 á hendur X, hæstaréttarlögmanni.

Eins og fram kemur í athugasemdum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli þessu, var reglum um ákvarðanir um gjafsókn breytt með nýrri löggjöf um meðferð einkamála, sem tók gildi 1. júlí 1992. Er dóms- og kirkjumálaráðuneytið samkvæmt 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 bundið af neikvæðri umsögn gjafsóknarnefndar.

Ég fellst á þau sjónarmið gjafsóknarnefndar, að hún hafi ekki verið bundin af fyrri ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um gjafvörn við mat á nýrri umsókn A. Auk þess sem um nýja ákvörðun var að ræða, er þar til þess að líta, að hin nýju lög breyttu að nokkru almennum skilyrðum fyrir veitingu gjafsóknar.

Í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru talin eftirfarandi almenn skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar:

1. Gjafsókn verður aðeins veitt, ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:

a. að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, en við mat á efnahag hans má, eftir því sem á við, einnig [taka] tillit til eigna og tekna maka hans eða sambýlismanns eða eigna og tekna foreldra hans, ef hann er yngri en 18 ára

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

Í upphafi greinarinnar er það sett sem ófrávíkjanlegt og almennt skilyrði þess að gjafsókn verði veitt, að málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málareksturs. Þetta skilyrði laganna á sér langa sögu og er efnislega sambærilegt því ákvæði 3. mgr. 171. gr. laga nr. 85/1936, að athuga skyldi málstað umsækjanda eftir föngum, áður en gjafsókn væri veitt. Ákvæði laga nr. 85/1936 byggði aftur á sömu lagasjónarmiðum og ákvæði laga nr. 44/1907 um gjafsóknir m.m.

Úrlausn um skilyrði laganna er lagt í hendur stjórnvalda. Ekki er frekari leiðbeiningar að finna um skýringu ákvæðisins í lögunum eða í greinargerð með lögum nr. 85/1936. Um skýringu á skilyrði þeirra laga segir svo í riti Einars Arnórssonar: Almenn meðferð einkamála í héraði (Reykjavík 1941), bls. 300: "Málstað umsækjanda skal athuga eftir föngum, áður en gjafsókn (gjafvörn) sé veitt, enda skyldi slíkt hagræði ekki veitt, ef málstaður er sýnilega vonlaus, sbr. 171. gr. eml."

Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var um þetta skilyrði vísað til greinargerðar með frumvarpi til laga um opinbera réttaraðstoð, sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi 1990, en náði ekki fram að ganga. Var þar vísað til orðalags eldri laga, um málstað umsækjanda, og sýnist ekki vera um efnisbreytingu að ræða.

Ekki liggja fyrir í þessu máli sjónarmið dóms- og kirkjumálaráðuneytis um viðmiðanir varðandi þetta skilyrði í tíð eldri laga, enda hefur ekki verið kallað sérstaklega eftir þeim sjónarmiðum. Í áliti mínu í öðru máli (nr. 588/1992), [sjá bls. 80 í skýrslu þessari] hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið hins vegar gert grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem lögð hafa verið til grundvallar við mat á skilyrðum 3. mgr. 171. gr. laga nr. 85/1936, á þann veg að við mat á því, hvort veita ætti gjafsókn, hafi ráðuneytið litið til þess, hvort málsókn væri nauðsynleg til að niðurstaða fengist í málinu og hvort úrlausn málsins hefði almenna þýðingu (bréf til umboðsmanns í málinu 588/1992, dags. 9. mars 1993).

Í þessu sambandi tel ég rétt að benda á, að lagaákvæði um gjafsókn eru sett til að tryggja möguleika hinna efnaminni til að fá úrlausn dómstóla um ágreiningsefni og eru því sett til að tryggja að réttindi einstaklinga glatist ekki sökum lítilla efna. Það eru almennt mikilsverð réttindi manna að geta fengið úrlausn dómstóla um ágreiningsmál, og eru það réttindi, sem vernduð eru af mannréttindasáttmálum, svo sem 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Með hliðsjón af því og sérstaklega með hliðsjón af tilgangi lagaákvæða um gjafsókn, er það álit mitt, að ekki eigi að beita þröngri túlkun á því skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, sem varðar mat á tilefni málshöfðunar. Að öðru leyti reynir í hverju máli, eftir því sem atvik þess gefa tilefni til, á vægi þeirra sjónarmiða, sem lögum samkvæmt eiga að koma til athugunar.

Það er á verksviði gjafsóknarnefndar að leysa úr hverri umsókn, með tilliti til lagaskilyrða og aðstæðna í hverju máli um sig. Við þá úrlausn ber, auk hinna lögbundnu skilyrða, að hafa hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar."

V.

Um nauðsyn á rökstuðningi fyrir neikvæðri umsögn, um mat nefndarinnar og vinnureglur sagði svo:

"Eins og áður er rakið, geymir 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 ekki afdráttarlausa reglu um það, hvenær málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar, en eftirlætur stjórnvöldum þar mat. Þó er ljóst, að mat hlýtur að beinast að því, hvort hagsmunir aðila af máli réttlæti málarekstur, m.a. með hliðsjón af kostnaði við rekstur málsins og e.t.v. kostnaði gagnaðila (dæmdum málskostnaði). Í þessu sambandi kemur því til mat á möguleikum umsækjanda til þess að fá kröfur sínar dæmdar sér í hag. Fleiri sjónarmið koma þó til athugunar en fjárhagsleg áhætta við rekstur dómsmáls, m.a. þau sjónarmið, sem nú eru rakin í b-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 og hafa áður komið til álita við skýringu á 3. mgr. 171. gr. laga nr. 85/1936.

Áður en dóms- og kirkjumálaráðuneytið tekur afstöðu til umsóknar um gjafsókn, ber ráðuneytinu að afla umsagnar gjafsóknarnefndar. Til þess að slík álitsumleitan nái þeim tilgangi, að upplýsa mál eða draga fram málefnaleg sjónarmið, sem hafa ber í huga við úrlausn máls, verða umsagnir álitsgjafa yfirleitt að vera rökstuddar. Í því máli, sem hér um ræðir, ber auk þess að hafa í huga, að umsögn gjafsóknarnefndar er bindandi fyrir dóms- og kirkjumálaráðherra að því leyti, að gjafsókn verður því aðeins veitt að nefndin mæli með því, sbr. 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum tel ég, að gjafsóknarnefnd beri að rökstyðja niðurstöðu sína, mæli hún ekki með því að gjafsókn verði veitt.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem öðlast gildi 1. janúar 1994, ber stjórnvaldi að rökstyðja ákvörðun sína, að fram kominni beiðni. Ákvæði þetta felur einungis í sér skyldu til þess að rökstyðja stjórnvaldsákvarðanir, þ.e.a.s. ákvarðanir um rétt og skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Af þeim sökum tekur ákvæðið ekki beinlínis til umsagna, sem látnar eru í té, að undangenginni lögmæltri álitsumleitan. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að meginreglur þær, sem 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga eru byggðar á, leiði óhjákvæmilega til þess að gjafsóknarnefnd beri að rökstyðja þá niðurstöðu sína, að mæla ekki með gjafsókn. Að öðrum kosti liggja ekki fyrir þau sjónarmið, sem sú niðurstaða byggist á, en afleiðing þess yrði sú, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið væri ekki fært um að rökstyðja synjun, svo sem því ber samkvæmt 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga.

Það meginskilyrði er sett fyrir veitingu gjafsóknar, sbr. 126. gr. laga nr. 91/1991, að málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Við úrlausn gjafsóknarnefndar um þetta skilyrði koma til athugunar bæði lagareglur og sönnunaratriði, sem málsúrslit eru komin undir. Almenn staðhæfing, svo sem er í umsögn gjafsóknarnefndar frá 28. september 1992, að hvorki fjárhagur umsækjanda né aðrar ástæður skv. 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 gefi tilefni til að mæla með gjafsókn, fullnægir ekki þeim kröfum, sem gera verður til rökstuðnings nefndarinnar. Verður í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu, að ekki sé fært að mæla með gjafsókn, að gera grein fyrir þeirri lögskýringu eða þeim sönnunarvanda, sem hún er byggð á.

Í umsögn gjafsóknarnefndar, sem hér er til umfjöllunar, er beiðni um gjafsókn hafnað og tekið fram, að umsækjandi hafi fengið gjafsókn í héraði, en tapað málinu þar. Samkvæmt minnispunktum nefndarinnar er hér byggt á þeirri vinnureglu, að veita að jafnaði ekki gjafsókn fyrir Hæstarétti, ef umsækjandi tapar máli fyrir undirrétti, nema einhverjar ríkar ástæður réttlæti að veita slíkt leyfi. Í svarbréfi nefndarinnar til mín, dags. 28. apríl 1993, er gerð nánari grein fyrir þessari vinnureglu.

Gera má ráð fyrir því, að við meðferð máls fyrir héraðsdómi kunni mál af hafa skýrst, að því er tekur til þeirra atriða, sem gjafsóknarnefnd þarf að leysa úr. Er þá að sjálfsögðu réttmætt að taka tillit til slíks við úrlausn þess, hvort veita skuli gjafsókn fyrir Hæstarétti. Hins vegar tel ég ástæðu til að vara við því, að verklagsreglur af umræddu tagi ráði um of niðurstöðu um veitingu gjafsóknar. Þegar löggjafinn eftirlætur stjórnvaldi mat, felur slíkt einnig í sér skyldu til að leggja sjálfstætt mat á hvert málefni, sem enn felur í sér skyldu til að taka til athugunar öll þau sjónarmið, sem máli skipta við matið og eru málefnaleg og forsvaranleg.

Ég tel ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þau sjónarmið sem liggja að baki vinnureglu gjafsóknarnefndar, umfram það, sem að framan er rakið."

VI.

Loks tók ég eftirfarandi fram um skilyrði er varða efnahag umsækjenda:

"Það skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sem lýtur að efnahag umsækjanda, er annað af tveimur viðbótarskilyrðum laganna fyrir veitingu gjafsóknar. Ákvæðið kemur í stað 2. tl. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 85/1936, sem setti það að skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar, að umsækjandi væri svo illa stæður fjárhagslega, að hann mætti ekki vera án þess fjár, sem til málarekstursins færi. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 veita nánari leiðbeiningar en áður var um það, við hvað mat á efnahag umsækjanda getur miðast. Þó eru hvorki í lögunum, eða reglugerð þeim tengdum, sett frekari viðmiðunarmörk um efnahag umsækjanda, svo sem um ákveðin tekju- eða eignamörk. Ekki verður séð af greinargerð með frumvarpi til laga nr. 91/1991 að um efnisbreytingu sé að ræða frá ákvæðum 172. gr. laga nr. 85/1936, en í greinargerð segir, að breytingar byggi á sama grunni og ákvæði í frumvarpi til laga um opinbera réttaraðstoð, sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi 1990, en var ekki afgreitt. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til þeirra laga var gert ráð fyrir, að sett yrði reglugerð til viðmiðunar um tekju- og eignamörk, til leiðbeiningar fyrir gjafsóknarnefnd. Slík heimild er ekki í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ég tel rök til þess að taka slíkt heimildarákvæði í lög, þar sem það yrði umsækjendum um gjafsókn til leiðbeiningar. Tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á þessu atriði, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Ég geri ekki athugasemdir við þau viðmiðunarmörk, sem gjafsóknarnefnd hefur sett sér við mat á skilyrði laganna um efnahag umsækjanda."

VII. Niðurstaða.

Niðurstöður mínar dró ég saman á svofelldan hátt:

"Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið í V. kafla hér að framan, eru það tilmæli mín, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fjalli á ný um gjafsókn fyrir Hæstarétti í máli því, sem kvörtun A lýtur að, ef ósk um það kemur frá honum. Ef gjafsóknarnefnd mælir þá með gjafsókn og telji dóms- og kirkjumálaráðuneytið rétt að veita hana, eru það tilmæli mín til ráðuneytisins, að það sjái til þess að A verði eigi lakar settur fjárhagslega en ætla má að hann hefði orðið með veitingu gjafsóknar fyrir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar frá 18. nóvember 1993.

Þá tel ég rétt, að vekja athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á því, að lagaheimild skortir til að setja í reglugerð skýrari viðmiðunarmörk um fjárhag umsækjanda sem skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar."

VIII.

Dómur Hæstaréttar gekk í máli A hinn 18. nóvember 1993. Í dómnum segir m.a. svo:

"... Stefndi tók að sér sem lögmaður að innheimta þau laun sem áfrýjandi taldi sig eiga inni hjá... Í því fólst meðal annars að afla upplýsinga um málið. Hann gat með því að hafa samband við firmaskrá komist að því hver bar ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og manntalsyfirvöld gátu gefið honum upp heimilisfang þess manns. Er ekki annað fram komið en halda hefði mátt innheimtunni til laga ef stefndi hefði sinnt þessum skyldum sínum. Laun áfrýjanda hefðu þá greiðst úr ríkissjóði við gjaldþrot... Stefndi varð að segja sig frá verki með ótvíræðum hætti ef hann taldi sig ekki geta unnið að málinu svo að áfrýjandi ætti þess kost að leita til annars lögmanns. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að laun þau sem áfrýjandi átti inni hjá... hafi verið lægri en nam þeirri fjárhæð sem hann tók að sér að innheimta.

Af framangreindu leiðir að stefndi er skaðabótaskyldur gagnvart áfrýjanda og að taka ber höfuðstól kröfu áfrýjanda til greina í heild sinni."

IX. Viðbrögð stjórnvalda.

Að undangengnum bréfaskiptum um málið féllst dóms- og kirkjumálaráðuneytið á að verða við þeim tilmælum sem fram komu í áliti mínu.